Atvinnumál á Suðurnesjum
Fimmtudaginn 07. mars 1991


     Níels Árni Lund :
    Virðulegi forseti. Það hefur margt komið fram í þessari umræðu eins og mátti búast við þar sem um er að ræða slíkt málefni. Ég vildi aðeins bæta við það sem sjálfsagt flestir hugsa mikið um, alla vega eins og hér hefur komið fram, frambjóðendur á þessu svæði, hvað mætti gera til að bæta atvinnuástand eða auka atvinnumöguleika á Suðurnesjum. Ég vitna aftur til þess fræga Bláa lóns sem hér hefur verið í umræðunni. Það var samþykkt þáltill. um það að skipuð yrði nefnd til að kanna margháttaða nýtingu þess lóns á síðasta löggjafarþingi. Í fyrirspurnatíma á þinginu í vetur kom fram frá heilbrrh. að hann hygðist skipa nefnd til að fjalla sérstaklega um nýtingu Bláa lónsins og lít ég björtum augum til þeirrar vinnu sem sú nefnd mun fjalla um. Í viðbót við þetta vildi ég sérstaklega benda á aukna ferðamannaþjónustu á Suðurnesjum. Til skamms tíma var ekkert hótel á svæðinu. Nú eru þau a.m.k. tvö eða þrjú og ágæt nýting á þeim. Ég vil einnig benda á að ein af forsendum þess að laða ferðamannastrauminn til Suðurnesja er að gera greiðan veg með suðurströnd Reykjanesskaga, eins og ég flutti þáltill. um fyrir einum tveimur þingum síðan. Ég held að slíkur vegur mundi opna gífurlega möguleika og ýta undir það að hægt væri að auka þarna verulega ferðamannastraum og bjóða þeim sem koma til landsins upp á aðrar ferðir heldur en eingöngu Gullfoss og Geysi. Nú þegar er Bláa lónið orðið vinsæll ferðamannastaður, en með tilkomu slíks vegar sem þessa væri hægt að auka þessa atvinnugrein mikið á Suðurnesjum.