Atvinnumál á Suðurnesjum
Fimmtudaginn 07. mars 1991


     Karl Steinar Guðnason :
    Virðulegi forseti. Ég hafði ekki hugsað mér að bera af mér sakir. Ég vil hins vegar vekja athygli á því að varnarstöðin á Keflavíkurflugvelli er talin mjög þýðingarmikil í samstarfi Atlantshafsríkjanna og þýðing hennar er síst minni heldur en áður. Þess vegna verður starfsemin á svipuðu stigi og verið hefur. Það verða breytingar þar en ég vænti þess að það komi ekki niður á atvinnustiginu eins og menn töldu að yrði.
    Hins vegar tel ég varðandi Suðurnesjamenn og atvinnuhorfur á því svæði að við getum horft bjartsýnir fram á veginn. Suðurnesin urðu fyrir miklum áföllum vegna þeirrar byggðastefnu sem var rekin hér á landi. Suðurnesin voru svelt, bæði í sjávarútvegi og á öðrum sviðum. Ég horfi fram til þess tíma að Suðurnesjamenn nái vopnum sínum og atvinnustigið þar verði betra en það er í dag.