Sjúkratryggingar
Fimmtudaginn 07. mars 1991


     Fyrirspyrjandi (Pálmi Jónsson) :
    Virðulegi forseti. Á þskj. 608 hef ég leyft mér að bera fram svohljóðandi fsp. til hæstv. heilbr. - og trmrh. um sjúkratryggingar:
    ,,Hvernig hyggst ríkisstjórnin ná 500 millj. kr. sparnaði í sjúkratryggingum til samræmis við afgreiðslu fjárlaga?``
    Ég legg þessa fsp. fram vegna þess að mér finnst tilefni til þess að frá því sé greint af hálfu hæstv. ráðherra hér á hinu háa Alþingi með hvaða hætti hæstv. ríkisstjórn ætlar sér að ná sparnaði í þessum málaflokki. Um þetta hefur verið nokkuð rætt án þess að það hafi að mínum dómi komið nógu greinilega fram hvað sé ákveðið.
    Ég bendi á það að á síðasta ári var til þess ætlast að þá væri einnig náð sparnaði í sjúkratryggingum sem næmi 500 -- 600 millj. kr. í lyfjakostnaði. Svo fór að þetta tókst ekki og því sem átti að spara í þessum málaflokki varð síðan að afla heimilda til að greiða með fjáraukalögum þegar leið á árið.
    Ég skal ekkert um það segja hvort nú takist að beita nýjum aðferðum til að ná þessum sparnaði sem ekki tókst á síðasta ári. Er það vel ef svo er, en ég tek það fram að ég tel eðlilegt að frá því sé greint með hvaða hætti eigi að ná þessum sparnaði hér á hinu háa Alþingi.