Sjúkratryggingar
Fimmtudaginn 07. mars 1991


     Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra (Guðmundur Bjarnason) :
    Virðulegi forseti. Hv. 2. þm. Norðurl. v. hefur beint til mín annarri fsp. um útgjöld í tryggingamálaflokkunum og gert grein fyrir henni. Þar háttar örlítið öðruvísi til en með fsp. sem rædd var hér áðan, að í fjárlagafrv. var hér gert ráð fyrir verulegum sparnaði og að nokkru leyti greint frá því hvernig menn hygðust ná honum. En svo sem fram kemur í greinargerð með fjárlagafrv. fyrir árið 1991 var við afgreiðslu fjárlaga gert ráð fyrir nokkrum sparnaði í sjúkratryggingum vegna sparnaðar í útgjöldum vegna lyfja. Þar sagði:
    ,,Fyrir lyfjakostnaði eru áætlaðir 2,3 milljarðar kr. í frv.`` og má skjóta hér inn í að þar er um að ræða lyfjakostnað utan sjúkrahúsa, heilsugæslustöðva og hjúkrunarheimila, en að þeim lyfjakostnaði meðtöldum er þessi tala á bilinu 4 -- 5 milljarðar. Áfram segir í greinargerðinni: ,,Sú tala byggist á því að hægt verði að ná þar fram sparnaði sem nemur 500 -- 600 millj. kr. M.a. er gert ráð fyrir að ná þessum sparnaði með breyttu skipulagi á innflutningi og dreifingu lyfja, lækkaðri álagningu í heildsölu og smásölu og breyttu skipulagi á kostnaðarþátttöku notenda í lyfjakostnaði.``
    Allt sl. ár hefur mikil vinna farið fram á vegum ráðuneytisins sem beinst hefur að því að ná niður lyfjakostnaði. Hefur sú vinna m.a. leitt til verulegrar lækkunar álagningar á lyf, bæði í heildsölu og smásölu, ásamt fleiri aðgerðum sem leitt hafa til umstalsverðrar lækkunar á útgjöldum hins opinbera vegna lyfjakostnaðar.
    Vegna þess sem fyrirspyrjandi sagði í framsögu sinni um að sparnaður hafi ekki náðst á seinasta ári er það rétt að því leytinu til að útgjöld sjúkratrygginganna reyndust vanáætluð og þurfti að hækka fjárveitingu við fjáraukalagagerð. En þrátt fyrir það náðist verulegur sparnaður í lyfjaútgjöldunum, líklega á bilinu 150 -- 200 millj. sem koma líka til með að vinnast á þessu ári, þ.e. lækkun álagningarinnar leiddi til þess að sparnaðurinn var umtalsverður þó svo það næði ekki þeim árangri að útgjaldaspá fjárlaga síðasta árs stæðist.
    Frá sl. hausti hefur sérstakur starfshópur á vegum ráðuneytisins unnið að gerð frv. sem gerir ráð fyrir miklum skipulagsbreytingum á skipan lyfjamála. Of langt mál yrði að gera ítarlega grein fyrir þeim tillögum sem þar eru settar fram í stuttu svari við fsp. Þetta nýja frv. til lyfjalaga hefur nú um nokkurt skeið verið til athugunar hjá þingflokkum ríkisstjórnarinnar og er það skoðun mín að nái það fram að ganga muni það hafa í för með sér mjög verulegan sparnað á útgjöldum ríkisins vegna lyfja. Þar er með ákveðnum skipulagsbreytingum gert ráð fyrir að taka á þeim tveim þáttum sem nefndir eru í greinargerð fjárlagafrv. og fjalla um innflutning og dreifingu, svo og breytingar á álagningu. Ríkisstjórnin hefur hins vegar ákveðið að greiðslur sjúklinga vegna lyfjakaupa hækki ekki að svo stöddu og verði því sparnaði vegna útgjalda lyfja ekki náð með þeim hætti.

    Þess má þó geta að í ráðuneytinu liggja fyrir tillögur um breytt form á greiðsluþátttöku einstaklinga í lyfjakostnaði þar sem gert er ráð fyrir að greiðslan sé ákveðið hlutfall af verði lyfs en ekki föst krónutala eins og nú er. Mundi sú breyting hafa í för með sér betra verðskyn og kostnaðarmeðvitund almennings gagnvart lyfjaútgjöldum. Það kemur því vel til greina að breyta fyrirkomulaginu og reyna að ná þannig fram einhverjum sparnaði án þess að kostnaðarþátttaka sjúklinganna yrði aukin.
    Vegna þessarar fsp. kannaði ég stöðu útgjalda sjúkratryggingadeildar í upphafi þessa árs. Útgjöld sjúkratryggingadeildar í janúarmánuði voru 713 millj. 485 þús. kr. Heildarútgjaldaáætlun sjúkratrygginganna samkvæmt fjárlögum er á árinu 1991 10 milljarðar 60 millj. kr. Sú áætlun gerir því ráð fyrir 840 millj. kr. útgjöldum á hverjum mánuði. Útgjaldaupplýsingar sjúkratryggingadeildar fyrir janúarmánuð eru að sjálfsögðu óendurskoðaðar og gerðar með fyrirvara um að lækniskostnaður sé of lágur í þeirri upphæð en tæplega á hann þó eftir að hækka um rúmar 100 millj. kr., þ.e. um mismun á janúarútgjöldum, 713 millj., og útgjaldaáætlun fjárlaganna, 840 millj. kr.
    Þá má geta þess að nýlega hafa verið settar reglugerðir sem draga eiga úr kostnaði við útgjöld sjúkratrygginga vegna tannréttinga og lýtalækninga og má áætla að þær breytingar geti leitt til sparnaðar sem nemi nokkrum tugum milljóna kr. á árinu. Það er því skoðun mín, virðulegi forseti, að ekki vanti mikið á að útgjaldaáætlun sjúkratryggingadeildarinnar á þessu ári geti staðist. Fari svo að ekki takist að koma fram fyrirhuguðum breytingum á lyfjalögum og lögum um lyfjadreifingu verður, þegar lengra kemur fram á árið, að endurskoða áætlun sjúkratryggingadeildar og gera þá ráð fyrir hækkun framlaga til sjúkratrygginganna á fjáraukalögum næsta haust svipað og yrði með lífeyristryggingarnar og við ræddum hér áðan verði sú raunin að áætlun fjárlaga muni ekki standast, eins og allt bendir þó nú til að hún muni gera, að gefnum þeim forsendum að fram náist breytingar sem varða það að ná utan um lyfjaútgjöldin.
    Ég hef hér, eins og í sambandi við lífeyristryggingaútgjöldin, reynt að leggja mitt af mörkum og lagt fram hugmyndir og tillögur um það hvernig megi að þessum sparnaði standa. Fái ég stuðning til þess hjá þingliði stjórnarinnar og hjá hv. Alþingi tel ég að þau fyrirheit sem sett voru fram í fjárlagafrv. muni nást.