Sjúkratryggingar
Fimmtudaginn 07. mars 1991


     Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra (Guðmundur Bjarnason) :
    Virðulegi forseti. Það er aftur aðeins örstutt. Ég vil ítreka það að ég tel að verulegur sparnaður hafi náðst við lyfjakostnað á seinasta ári, en hins vegar er rétt hjá hv. þm., eins og ég reyndar gerði líka grein fyrir í mínu svari áðan, að annar kostnaður hefur aukist. Vissulega er það svo að þessi kostnaðarsami málaflokkur er stöðugt vaxandi. Það koma inn nýir þættir, nýir liðir, ný lyf meira að segja, stöðugt að koma inn ný og dýr lyf sem við viljum ekki neita þeim sem á þurfa að halda að fá. Þess vegna hefur verið erfitt að halda utan um útgjaldarammann svo sem fjárlög hafa kveðið á hverju sinni.
    Ég geri mér enn vonir um það, þó hv. þm. telji ekki miklar líkur á því héðan af, að ný skipan lyfjamála geti náðst í gegnum þingið á þeim tíma sem eftir lifir. Ég hef a.m.k. haldið mig við það að þessi frv., sem reyndar eru tvö sem fjalla um lyfjamálin, um breytingar á skipulagi lyfjamála, séu á forgangslista og hef lagt á það áherslu að þau fengjust afgreidd. Það er þá a.m.k. ekki við mig að sakast að ég hafi ekki lagt á það mikla áherslu að ná því fram og reyna að koma þeim aðgerðum til skila sem ég tel nauðsynlegar og líklegar til þess að geta dregið úr lyfjakostnaði.
    Og aðeins að lokum um breytingar á greiðsluþátttöku einstaklinganna. Ég tók það skýrt fram í svari mínu áðan að ekki væri gert ráð fyrir því að auka álögur á almenning og ná sparnaði fram þannig. Það væri þvert á móti ákveðið að gera það ekki. Hins vegar væri hugsanlegt að breytt skipulag, breytt kostnaðarvitund almennings, gæti leitt til þess að það hefði áhrif á ávísanavenjur, hefði áhrif á hversu dýr lyf eru notuð og gæti á þann hátt leitt til lækkunar á lyfjakostnaði. Ef það tækist, það er reyndar hluti af þeim aðgerðum sem við reyndum að grípa til á sl. ári með svokölluðum bestukaupalista, hefur því miður ekki skilað því sem honum var ætlað að gera, en með enn meiri áherslu á þetta af hálfu almennings í landinu, af hálfu sjúklinganna eða þeirra sem nota lyfin á að hafa áhrif á hvernig lyfjum er ávísað, þá held ég að það gæti leitt til sparnaðar. Það var það sem ég meinti og reyndi að gera skýrt í mínu máli áðan án þess að það þýddi aukin útgjöld hjá einstaklingum.