Fyrirspyrjandi (Ólafur Þ. Þórðarson) :
    Herra forseti. Ég hef leyft mér að bera fram svohljóðandi fsp. til sjútvrh. um deild frystiiðnaðarins í Verðjöfnunarsjóði:
    ,,Hvað var mikið fé í deild frystiiðnaðarins í Verðjöfnunarsjóði 1. febr. 1991? Hvernig er ávöxtun þess fjár og hvernig er það verðtryggt? Hver er talin afkoman í frystiiðnaðinum nú og hver er talin samkeppnisstaða hans miðað við útflutning á óunnum fiski?``
    Ég tel rétt að það komi fram að ég tel að viss sjóðamyndun í góðæri geti átt rétt á sér innan hóflegra marka, séu þeir fjármunir eyrnamerktir þeim fyrirtækjum sem safna þeim sjóði. Hins vegar hlýtur að verða að gæta hófs í þessum efnum svo forsjárhyggja sé ekki svo mikil að það sé nánast sama hvort í góðæri eða í verra árferði sé verið að reka fyrirtæki. Viðleitni fyrirtækja til að ná fram hærra verði og ná fram betri sölu þess vegna er vissulega mjög slævð ef þessari verðjöfnunardeild er beitt það óvægilega að mönnum finnist að þangað sé fjármununum beint og í það ríkum mæli að það skaði fyrirtæki.