Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra (Guðmundur Bjarnason) :
    Virðulegi forseti. Hv. 2. þm. Vestf. hefur hér beint fsp. til sjútvrh., sem hann hefur gert grein fyrir og með samkomulagi við hann var það samþykkt að ég svaraði þessari fsp. fyrir hönd sjútvrh.
    Fyrsti liður fsp. var: ,,Hvað var mikið fé í deild frystiiðnaðarins í Verðjöfnunarsjóði 1. febr. 1991?`` Svarið er svohljóðandi: Skv. 3. gr. reglugerðar nr. 254 frá 1990, um Verðjöfnunarsjóð sjávarútvegsins, skiptist sjóðurinn upp í sjö eftirtaldar deildir:
    1. Deild fyrir unnar botnfiskafurðir.
    2. Deild fyrir óunnar botnfiskafurðir.
    3. Rækjudeild.
    4. Humardeild.
    5. Hörpudisksdeild.
    6. Síldardeild.
    7. Mjöl- og lýsisdeild.
    Eins og fram kemur í þessari upptalningu er ekki starfrækt sérstök deild fyrir frystar afurðir eins og var í Verðjöfnunarsjóði fiskiðnaðarins, sem lagður var niður á seinasta ári. Þrátt fyrir þessa deildaskiptingu milli unninna og óunninna botnfiskafurða er skv. 7. gr. reglugerðar nr. 254 frá 1990 greitt sama verðjöfnunarhlutfall fyrir þessar afurðir. Um þessar mundir er greitt inn í sjóðinn 4,5% af fob-verðmæti unninna og óunninna botnfiskafurða.
    Frá því sjóðurinn tók til starfa á miðju síðasta ári hefur verið greitt inn á eftirtaldar þrjár deildir og voru innstæður þann 1. febr. sl. sem hér segir:
    Deild fyrir unnar botnfiskafurðir 402.507.309 kr.
    Deild fyrir óunnar botnfiskafurðir 113.653.773 kr.
    Deild fyrir hörpudisk 161.829 kr. Samtals 516.322.911 kr.
    Annar liður fsp. var: ,,Hvernig er ávöxtun þess fjár og hvernig er það verðtryggt?`` Í svarinu segir: Skv. 3. mgr. 11. gr. laga nr. 39/1990, um Verðjöfnunarsjóð sjávarútvegsins, skulu innstæður á verðjöfnunarreikningum sjóðsins ávaxtaðar á tryggan og hagkvæman hátt í erlendum gjaldeyri. Stjórn sjóðsins hefur gert samning við Seðlabanka Íslands um ávöxtun innstæðna og eru þær varðveittar í bankanum. Eru þær bundnar kaupgengi SDR. Vextir af innstæðum, eins og þær eru á hverjum tíma, skulu vera millibankavextir í London, svokallaðir liborvextir samanvegin eftir samsetningu SDR hverju sinni að frádregnum 1 / 8 %.
    Þriðji liður fsp. var: ,,Hver er talin afkoman í frystiiðnaðinum nú og hver er talin samkeppnisstaða hans miðað við útflutning á óunnum fiski?`` Þar segir í svari: Þann 31. okt. sl. birti Þjóðhagsstofnun yfirlit um hag fiskveiða og fiskvinnslu á árinu 1989 ásamt stöðumati við rekstrarskilyrði eins og þau voru á þeim tíma. Miðað við 6% ávöxtun stofnfjár var hagnaður frystingar á árinu 1989 1,3% af tekjum. Á því ári fékk frystingin að meðaltali 3% af tekjum sínum úr Verðjöfnunarsjóði fiskiðnaðarins. Við rekstrarskilyrði í október var hagnaður frystingar talinn um 0,7% af tekjum miðað við sömu ávöxtunarkröfu til stofnfjár en 2,5% inngreiðslu í Verðjöfnunarsjóð sjávarútvegsins. Raunveruleg rekstrarskilyrði frystingarinnar hafa því batnað umtalsvert milli ára. Frá því að stöðumat Þjóðhagsstofnunar var gert hefur verð á fiskafurðum hækkað nokkuð og er nú greitt um þessar mundir 4,5% af útflutningstekjum í deildir fyrir unninn og óunninn botnfisk.
    Upplýsingar um breytingar á hráefnisverði frá því í október liggja ekki fyrir. Almennar kostnaðarhækkanir hafa verið litlar á þessum tíma þannig að margt bendir til að rekstrarskilyrði frystingar hafi frekar batnað frá því að síðasta stöðumat á rekstrarskilyrðum greinarinnar fór fram. Upplýsingar um rekstrarskilyrði þeirra sem stunda útflutning á óunnum fiski liggja ekki fyrir enda er sú starfsemi ekki sérgreind í ársreikningum fyrirtækja.
    Besta vísbendingin um samkeppnisstöðu frystingar gagnvart útflutningi á óunnum fiski er e.t.v. ásókn í að flytja óunninn fisk úr landi. Á árinu 1990 voru seldar samtals 29.455 lestir af þorski og 17.269 lestir af ýsu á fiskmörkuðum í Bretlandi en á sama tíma voru seldar 29.793 lestir af þorski og 10.575 lestir af ýsu á fiskmörkuðum innan lands. Fyrstu níu vikur þessa árs hefur verulega dregið úr útflutningi á óunnum fiski. Þannig voru fluttar út 2.900 lestir af þorski fyrstu níu vikur þessa árs samanborið við 5.800 lestir á sama tíma í fyrra, útflutningur á ýsu hefur einnig dregist saman og voru fluttar út 1.000 lestir á þessu tímabili í stað 1.900 lesta á sama tíma í fyrra. Þessi samdráttur virðist að fullu hafa skilað sér til innlendra fiskmarkaða því sambærileg aukning hefur orðið á sölu fisks á þeim tíma sem nemur samdrætti í útflutningi. Þá hefur verulega dregið úr umsóknum til Aflamiðlunar og hefur að meðaltali verið sótt um útflutning í viku hverri á um 1.200 lestum af þorski og ýsu það sem af er þessu ári en til samanburðar var að meðaltali sótt um útflutning á 2.200 lestum af þessum tegundum á sama tímabili í fyrra.
    Það virðist einkum vera þrennt sem skýrir þau umskipti sem orðið hafa á útflutningi á óunnum fiski á milli ára. Í fyrsta lagi hefur álag vegna útflutnings á óunnum fiski verið hækkað úr 15% í 20% fyrir þorsk og ýsu. Í öðru lagi hefur verð á fiskmörkuðum innan lands hækkað og í þriðja lagi virðist áhrifa Verðjöfnunarsjóðs sjávarútvegsins vera farið að gæta en þeir sem flytja út óunninn fisk sitja nú við sama borð og þeir sem flytja út unnar botnfiskafurðir með tilliti til inngreiðslna í sjóðinn.