Fyrirspyrjandi (Ólafur Þ. Þórðarson) :
    Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svör hans. Það eru miklar upplýsingar sem í þeim felast og ég met það svo að um jákvæða þróun sé að ræða. Hins vegar vil ég vekja á því athygli að á skömmum tíma hefur með því að hafa 2,5% sem greiðslu í Verðjöfnunarsjóð safnast þar fyrir verulegt fé. Nú er komin greiðsla upp á 4,5% þannig að sjóðamyndunin er gífurlega hröð. Ég verð að segja eins og er að miðað við það að þó að búið sé að eignarfæra hverju fyrirtæki sinn hlut í Verðjöfnunarsjóðnum þá er það nú svo að t.d. við gjaldþrot greiðast þessir fjármunir ekki út. Það væri nokkuð hláleg staða ef það kæmi upp að fyrirtæki væri gert upp, ætti ekki fyrir skuldum, en á sama tíma ætti það kannski tugi milljóna inni í Verðjöfnunarsjóðnum sem hefðu ráðið úrslitum í stöðunni hvort það hefði getað staðið við sínar skuldbindingar gagnvart lánardrottnum. Þess vegna vil ég koma því hér á framfæri að annað tveggja sýnist mér að verði að eiga sér stað, að það verði eitthvert þak á því hversu mikið menn taki í þennan Verðjöfnunarsjóð og einnig að það þurfi að ganga betur frá því hver sé eignarréttur á því fé sem inni í sjóðnum er. Þessu vil ég koma hér á framfæri vegna þess að mér finnst of mikil forsjárhyggja felast í því kerfi sem nú er við lýði.