Lækkun raunvaxta
Fimmtudaginn 07. mars 1991


     Fyrirspyrjandi (Eggert Haukdal) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin en þau nægja mér ekki og kannski er ástæðan sú að við verðum seint sammála í þessum málum.
    Skýrsla Seðlabankans sem hæstv. ráðherra vitnaði til lýsir nánast hvernig allir hlutir í þessum málum liggja fyrir, um allan sparnaðinn, sem hún sannar að hefur enginn orðið á þessu tímabili, og allt þetta mikla vaxtabrjálæði. Ég vil aðeins út af orðum ráðherra vísa til orða Lúðvíks Jósepssonar er hann fékk eftir sig birt í umræðum um vaxtamálin í vetur. Hann vísar t.d. þar í Vísbendingu, sem er gefin út af ráðgjöf Kaupþings. Þar segir, með leyfi forseta:
    ,,Raunvextir óverðtryggðra skuldabréfa hækkuðu á árinu 1990 að meðaltali um 2,8% frá fyrra ári, úr 6,5 í 9,3%. Aðeins árið 1988 voru þessir vextir hærri. Ársvextir vísitölubundinna lána hækkuðu að meðaltali um 0,2%, úr 7,8% í 8%. Þetta eru hæstu vextir frá því að almenn vísitölubinding var tekin upp árið 1979 ef undan er skilið árið 1988.
    Raunvaxtaþróun á árinu 1990 bendir til þess að bankarnir hafi ekki náð að láta vaxtalækkanir fylgja takti hjöðnunar verðbólgu. Raunvextir óverðtryggðra lána voru að meðaltali 1,3% hærri en vísitölubundinna lána.``
    Síðan vísar Lúðvík Jósepsson í nóvemberhefti rits Seðlabankans og lýsir því hvað þetta komi skýrt fram að á þriðja ársfjórðungi ársins 1990 hafi vaxtahækkun óverðtryggðra lána verið 12,3% miðað 5,3% verðbólgu. Og síðan í þessu sama blaði kemur fram að meðaltalsvextir umfram fulla verðtryggingu eru 8% árið 1990. Og þetta gerist við ríkjandi þjóðarsátt. Er þetta ekki hneyksli? Lúðvík Jósepsson heldur áfram: ,,Allir ættu að sjá að það er ósanngjarnt að launafólk sé sett á núll á sama tíma og þeir sem lána út peninga fái 8% í raunvexti.``
    Ég er kominn fram yfir tímann en þetta vaxtabrjálæði sem gengið hefur yfir þjóðfélagið og átt þátt í hversu komið er um gjaldþrot einstaklinga og fyrirtækja og það stjórnleysi sem ríkir í þessum hlutum, það virðist enginn hafa úrslitavald, hvorki ríkisstjórn né Seðlabanki, en þeir vísa hvor á annan.