Vestnorrænt ár 1992
Fimmtudaginn 07. mars 1991


     Umhverfisráðherra (Júlíus Sólnes) :
    Frú forseti. Ég vil þakka fyrirspyrjanda fyrir að vekja athygli á þessu máli, þ.e. auknu samstarfi vestnorrænu þjóðanna í Norður - Atlantshafi. Það hefur verið vaxandi áhugi meðal þessara smáþjóða að taka upp nánara samstarf og hef ég sem samstarfsráðherra í ráðherranefnd beitt mér mjög fyrir því að það verði lögð aukin áhersla á samstarf vestnorrænu þjóðanna. Hins vegar er því ekkert að leyna að þetta samstarf fer svolítið í taugarnar á hinum Norðurlandaþjóðunum sem finnst eins og við séum kannski að varpa fram hugmynd þess efnis að við séum afskipt og út undan í norrænu samstarfi, sem ég tel vissulega að við séum. Það er hins vegar erfitt að fá hin Norðurlöndin til að viðurkenna þá staðreynd, enda hef ég oft lýst því að þessa stundina horfa Norðurlöndin mjög til austurs og hafa brennandi áhuga á auknu samstarfi við austur - evrópskar þjóðir og sérstaklega Eystrasaltsþjóðirnar. Í þeirri hrifningarvímu vilja vestnorrænu ríkin gleymast.
    Það sem hefur gerst á þessum vettvangi sem tengist fsp. hv. þm. Málmfríðar Sigurðardóttur er eftirfarandi:
    Á fundi samstarfsráðherra í Kaupmannahöfn í tengslum við Norðurlandaráðsþing núna nýlega var samþykkt að skipa sérstaka embættismannanefnd til að undirbúa tillögur til þess að styrkja vestnorræna samstarfið og taka á öllum þeim málum sem hér eru reyndar til umræðu í fyrirspurninni m.a. Sömuleiðis hittust fulltrúar allra þriggja vestnorrænu ríkjanna á skrifstofu grænlensku heimastjórnarinnar í Kaupmannahöfn á meðan Norðurlandaráðsþing stóð yfir. Þar var ákveðið að hefja undirbúning að auknu samstarfi, m.a. á sviði umhverfismála og var ákveðið að haldinn skyldi fundur æðstu embættismanna allra þriggja vestnorrænu ríkjanna, til að fjalla um umhverfismál í Reykjavík í maí nk. Þar munum við að sjálfsögðu taka til umræðu fyrirhugaða ráðstefnu á Grænlandi um umhverfismál, en það er mikill vilji fyrir hendi hjá fulltrúum bæði Færeyinga og Grænlendinga að eiga náið samstarf við Íslendinga á sviði umhverfismála og höfum við m.a. rætt um sameiginlega, alþjóðlega rannsóknamiðstöð sem sérstaklega hugi að rannsóknaverkefnum á Norður - Atlantshafi sem bæði Færeyingar og Grænlendingar hafi áhuga á að gerast aðilar að.
    Það hefur ekki verið skipaður sérstakur fulltrúi af Íslands hálfu í undirbúningsnefnd fyrir vestnorrænt ár 1992, enda er undirbúningur þess mjög skammt á veg kominn. Því miður hefur það mál einhvern veginn dottið upp fyrir í umræðum meðal hinna Norðurlandaþjóðanna þannig að á fundum samstarfsráðherra hefur þetta mál ekki fengið neinn hljómgrunn enn sem komið er. En ég mun vissulega halda því á lofti og gera mitt til þess að af þessu megi verða.