Aðgerðir til að draga úr bensínnotkun
Fimmtudaginn 07. mars 1991


     Fyrirspyrjandi (Valgerður Sverrisdóttir) :
    Hæstv. forseti. Ég hef leyft mér að bera fram fsp. til hæstv. iðnrh. á þskj. 704 um aðgerðir til að draga úr bensínnotkun. Fsp. hljóðar svo, með leyfi forseta:
 ,,1. Hvað hefur ríkisstjórnin gert á síðustu vikum til þess að draga úr bensínnotkun?
    2. Hyggst ríkisstjórnin grípa til frekari aðgerða í þessu skyni?``
    Ástæða þess að ég kem hér fram með þessa fsp. er sú að ég hef mikinn áhuga á því að auka notkun á almenningsvögnum, auka notkun á strætó, eins og þetta er nú yfirleitt orðað á íslensku. Það vinnst mjög margt með því. Má t.d. nefna minni mengun, sparnað í gatnagerð og þar eru nú fyrirhugaðar stórframkvæmdir á höfuðborgarsvæðinu á næstu missirum. Það má nefna fækkun slysa, minna stress og svo auðvitað tímasparnað samfara minni umferð. Það er eiginlega hámark velmegunarvitleysunnar, ef maður mætti orða það þannig, að hafa hundruð manna í því klukkutímum saman að vera einhvers staðar fastir í umferðinni, spúandi eitri út í umhverfið. Það var því mikið fagnaðarefni þegar það heyrðist fyrir nokkrum vikum að ríkisstjórnin hygðist grípa til aðgerða til að minnka notkun á bensíni. En nýlega bárust þær fréttir að bensínnotkun hefði ekki minnkað. Þess vegna leyfi ég mér að bera fram þessa fsp. til hæstv. ráðherra.