Aðgerðir til að draga úr bensínnotkun
Fimmtudaginn 07. mars 1991


     Fyrirspyrjandi (Valgerður Sverrisdóttir) :
    Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin og það að nú þegar skuli ýmislegt hafa verið gert í þessum efnum. En einhvern veginn finnst mér eins og þurfi meira til eða þurfi dálítið mikið til að fá Íslendinga til að hugsa um þetta, því miður. En ég vil ekki trúa því samt að þeir séu þannig öðruvísi innréttaðir en t.d. okkar nágrannaþjóðir að það sé ekki hægt að fá þá til að vakna til meðvitundar um mikilvægi málsins.
    Mér hefur dottið í hug hvort ekki væri hægt að gera tilraun og hafa bókstaflega ókeypis strætó einhvern tíma og vita hvort það mundi ekki leiða af sér meiri notkun. Það er dálítið dýrt að ferðast með strætó, ég veit það mjög vel því ég nota strætisvagna mikið, um það bil á hverjum degi. Mér finnst það nokkuð dýrt að fara þann spotta sem ég þarf að fara fyrir 65 kr. og ég efast um að ég spari mér mikinn pening með því, en það vill svo vel til að vagninn sem ég nota stansar fyrir utan húsið hjá mér og síðan hér utan við skrifstofuna. Þess vegna hentar þetta mjög vel. En staðreyndin er sú að skipulag almenningsvagna í Reykjavík er ekki alveg nógu gott og ferðir ekki nógu tíðar en það kemur svo aftur út frá því að vagnarnir eru ekki notaðir það mikið að það sé hægt að hafa ferðir tíðari. Þannig hangir þetta nú saman.
    En ég lýk þá máli mínu með því að segja að ég vona að þetta átak sem nú er í undirbúningi og þegar hafið verði til þess að bæta úr í þeim efnum.