Rannsóknir á sjóslysum
Fimmtudaginn 07. mars 1991


     Fyrirspyrjandi (Guðrún Helgadóttir) :
    Hæstv. forseti. Árið 1963 hófust skipulegar rannsóknir sjóslysa á Íslandi. Upphaf þeirra var þáltill. Gunnars Jóhannssonar og Karls Guðjónssonar þáv. hv. alþingismanna.
    Skv. lögum nr. 21 30. apríl 1986, um breytingu á siglingalögum frá 1985, skal samgrh. skipa sérstaka fimm manna nefnd kunnáttumanna til fjögurra ára í senn til að kanna orsakir allra sjóslysa er skip farast. Nefndin skal einnig rannsaka öll slys þar sem manntjón verða og önnur þau sjóslys sem hún telur ríkar ástæður til að rannsaka.
    Í þessari nefnd eiga nú sæti Hannes Þ. Hafstein, framkvæmdastjóri Slysavarnafélags Íslands, Benedikt Guðmundsson skipaverkfræðingur, Sigmar Þ. Sveinbjörnsson stýrimaður, Filip Þ. Höskuldsson skipstjóri og Haraldur Blöndal hæstaréttarlögmaður, sem er formaður nefndarinnar. Með nefndinni starfar síðan sem framkvæmdastjóri Kristján Guðmundsson skipstjóri sem ráðinn var um áramótin 1985 -- 1986.
    Það vekur athygli að engin slík skýrsla hefur komið út síðan 1987 og það verður að undrast það þar sem ljóst er að sjórinn tekur dýra tolla af íslensku þjóðinni á hverju ári. Árið 1986 fórust fimm skip og 21 sjómaður lét lífið og 1987 fórust fjögur skip og 9 sjómenn létu lífið, auk allra þeirra skelfilegu slysa sem valda meiðslum á sjómönnum en þau skipta tugum á hverju ári. Það hefur því vakið undrun mína að ekki skuli hafa komið út skýrsla rannsóknanefndar sjóslysa síðan fyrir árið 1987. Því hef ég spurt hæstv. samgrh. á þskj. 746:
 ,,1. Hvað tefur skýrslu rannsóknarnefndar sjóslysa á árunum 1988, 1989 og 1990?
    2. Hversu langt er sú vinna á veg komin?``