Fyrirspyrjandi (Guðrún Helgadóttir) :
    Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. samgrh. fyrir svörin en er síst af öllu rólegri eftir. Það er auðvitað alveg hárrétt, sem kom fram hjá hæstv. ráðherra, að við erum að sigla hraðbyri inn í þetta form. Í umræddri grein í Morgunblaðinu er vitnað í Guðmund Hallvarðsson, formann Sjómannafélags Reykjavíkur, sem lýsir auðvitað áhyggjum sínum og kallar þessa þróun hrikalega. Það virðist vera svo að með þessu geti útgerðirnar náð að fækka í áhöfn og eins og þar segir: ,, . . . þurfi heldur ekki að hafa innlenda áhöfn``. Það felur óneitanlega í sér að það sé hentugra fyrir útgerðina að hafa mennina erlenda og þannig sé hægt að spara sér nokkurn kostnað. Svo segir: ,, . . . og einnig geti þær komist hjá greiðslu einhverra opinberra gjalda.``
    Síðar í greininni er vitnað í siglingamálastjóra, Magnús Jóhannesson, og hann segir að verði hér ekkert að gert þá muni skráning kaupskipa okkar erlendis enn aukast. Hæstv. samgrh. minntist á hugmyndir um alþjóðlega skráningu sem vissulega hefur verið rædd á norrænum vettvangi. Í Noregi og Danmörku hefur t.d. verið tekin upp svokölluð alþjóðleg skráning kaupskipa en þó mjög mismunandi eftir því hvort landið er. Í Danmörku var t.d. farin sú leið að opinberir skattar, sem danskir farmenn greiða af tekjum sínum, renna aftur til útgerðarinnar til að jafna aðstöðumun í samkeppni við útgerðir með ódýrara vinnuafl.
    Um þetta mál á þessu stigi er auðvitað ekki mikið meira að segja. Ég held að ég hljóti að geta fengið ærið marga Íslendinga í lið með mér gegn þessari þróun vegna þess að ég hygg að Íslendingar vilji í sem mestum mæli að þeirra eigin skip sigli undir eigin fána og eigi heimahöfn á Íslandi.
    Að lokum, frú forseti, mönnum er kannski í fersku minni þegar hér fórst fyrir nokkrum árum flutningaskip á einhverjum Austfjarðanna, minnir mig að það hafi verið á Reyðarfirði, og ekki tókst að afla upplýsinga um hverjir mennirnir voru sem fórust. Hásetarnir á skipinu höfðu verið teknir um borð í skipið í Liverpool, ekkert hirt um að skrá þá og getur nú hver ímyndað sér hvers konar starfsréttinda þeir hafa þar með notið. Þessir vesalings menn voru jarðsettir hér uppi á Íslandi í fjöldagröf þar sem ekki hafðist upp á nema einum aðstandanda eins mannsins. Ég er ekki viss um að Íslendingar vilji vera húsbændur á borð við þetta þegar um er að ræða skipaflota Íslendinga.