Ferðaþjónusta
Fimmtudaginn 07. mars 1991


     Halldór Blöndal :
    Herra forseti. Þetta frv. er svona merkilegt í sniðum. 1. gr. frv., þar sem skýrt er frá tilgangi ferðalaganna, er upptalning upp á átta liði og er engu líkara en sú upptalning hafi farið þannig fram að einhver hópur manna hafi setið saman í herbergi og þeir hafi átt að skrifa niður á miða það sem þeim dytti helst í hug í sambandi við ferðaþjónustu svona almennt og síðan krotað niður það sem hverjum og einum datt í hug og því safnað saman í þessa 1. gr.
    Það er auðvitað gott og hollt markmið að ætla að gera þetta allt í senn með einum litlum lögum, í fyrsta lagi að þróa ferðaþjónustu og viðurkenna sem mikilvægan og arðgæfan atvinnuveg --- er nokkur talsmaður þessa frv. viðstaddur? Á ég að tala við samgrh. eða er það kannski fjmrh. sem er skynsamlegast að tala um þessi mál við?
    Hér er talað um að þróa ferðaþjónustu og viðurkenna sem mikilvægan og arðgæfan atvinnuveg. Þetta er auðvitað hollt og gott markmið. En þá er kannski spurningin: Í samkeppni við hvern er sá atvinnuvegur? Meinar hæstv. samgrh. með þessum ummælum að hann líti svo á að ferðaþjónusta sé mikilvægur og arðgæfur atvinnuvegur í gjaldeyrisöflun?
    Ef horft er til 1. gr. frv., ef maður lítur á skýringar með greininni sér maður engar útskýringar á því hvað ráðherra hefur sérstaklega í huga. Nú hygg ég að hæstv. ráðherra minnist þess að þegar við vorum að ræða hér um frv. um virðisaukaskatt fluttum við sjálfstæðismenn tillögu um það og lögðum fram það sjónarmið í umræðuna að það bæri að líta á ferðaþjónustu sem útflutningsatvinnuveg. Ferðaþjónusta hér á landi væri í samkeppni við erlendan ferðamannaiðnað, ef nota má það orð. Við erum annars vegar að reyna að draga fólk hingað til landsins til þess að það geti orðið uppspretta gjaldeyrisöflunar fyrir okkur Íslendinga og fólk unnið við að veita slíku fólki þjónustu. Á hinn bóginn hefur það markmið verið sett fram að rétt og hollt sé að reyna að efla ferðaþjónustu hér á landi í því skyni að fá landsmenn sjálfa til þess að ferðast meira um landið en verið hefur.
    Ég tek eftir því að í þessu frv. er gert ráð fyrir því að lengja lán Ferðamálasjóðs úr 15 árum í 40 ár. Við vitum mjög vel, ég og hæstv. ráðherra, að ríkisvaldið hefur orðið að hlaupa undir bagga með hótelum víðs vegar um landið sem hefur verið gert samkvæmt tillögum fjvn. Alþingis til þess að reyna að rétta af hallarekstur hótela á landsbyggðinni. --- Ég sé að hv. þm. Snæfellinga er því kunnugur að kjördæmisþingmenn þurfa stundum að ganga slíkra erinda á fund fjvn., reyna að fá hana til þess að láta eitthvert lítilræði af mörkum ( SkA: Þingmanninum finnst þetta mikill virðingarauki að vera ávarpaður þingmaður Snæfellinga.) til þess að hlaupa undir bagga með hótelum í kjördæminu.
    Ég hygg að það sé uppi áætlun nú hjá fjvn. um það að slíkum framlögum ríkisins, beinum framlögum ríkisins til hótelrekstrar skuli ljúka á tilteknu árabili. En samtímis því sem fjvn. hefur með þessum

hætti lokað fyrir frekari umsóknir um styrkveitingar til hótelbygginga víðs vegar um landið hefur það gerst að einstakir ráðherrar og ríkisstjórn hafa vísað þeim sem hafa í hyggju að reisa hótel eða gistihús á Byggðastofnun með þeim ummælum að sú ríkisstofnun sé reiðubúin til þess að leggja fram fé til hótelrekstrar.
    Nú er það regla Byggðasjóðs að gerast ekki stærri hluthafi í fyrirtæki en nemur 20%. En 20% er nákvæmlega sama fjárhæð og greiða þarf virðisaukaskatt til ríkisins af hótelbyggingu. Ég ætlaði að varpa fram fyrirspurn til samgrh. um þessi efni. Ég get kannski endurtekið þetta. Ég veit ekki hvort þetta er svona í Nd., hæstv. forseti, ( SJS: Ég er hér.) ja, maður veit ekki um það þegar ráðherrar hlaupa svona í milliherbergi. En mér er ekki alveg kunnugt um það hvort þetta sé svona í Nd., hæstv. forseti, að ráðherrar hafist ekki við í deildinni. Má vera að það skorti eitthvað á það að þeir beri nægilega virðingu fyrir Ed. og þá er spurningin: Eru það þá kannski einstakir þingmenn Ed. sem njóta að þessu leyti minni virðingar eða fá minni endurþögu frá ráðherrum en aðrir eða er þetta almennt vandamál hér í þessari deild? ,,Alþingi ætti að vera í einni heild, eigum við ekki að annúlera Ed.``, stendur einhvers staðar.
    En málið er það að ráðherrar Alþb., með hæstv. fjmrh. í broddi fylkingar, hafa snúist öndverðir gegn því að virðisaukaskattur sé endurgreiddur af fjárfestingu í ferðaþjónustu. Virðisaukaskatturinn er 24,5% og fæst ekki endurgreiddur vegna þess að ferðaþjónusta fær ekki endurgreiðslu á innskatti, ef ég fer rétt með, heldur verður að sitja uppi með skattinn. En auðvitað er ætlast til þess að hótelin geti þá ýtt þessum kostnaði út í verðlagið sem á hinn bóginn þrengir auðvitað kosti ferðaþjónustunnar. Hitt er svo auðvitað rétt að sjálfur rekstur hótelanna er undanþeginn virðisaukaskatti. Það er sem sé hótelbyggingin sjálf, fjárfestingin, og það er maturinn sem verður að greiða af virðisaukaskatt í þeirri samkeppni sem gistihúsin eiga við annars vegar erlendar ferðaskrifstofur við Miðjarðarhafið eða hvert sem menn vilja fara. Þetta hefur valdið því að í rauninni er ógerningur að hugsa sér að hægt sé að koma upp gistihúsi úti á landsbyggðinni af eigin rammleik nema til komi styrkveitingar úr ríkissjóði ef undan eru skildir örfáir staðir, Höfn í Hornafirði, Mývatn, e.t.v. Akureyri, einn og einn staður sem þannig hefur sérstaka aðstöðu. En yfirleitt er hægt að standa undir fjárfestingunni við rekstur gistihúss úti á landi.
    Þetta er kannski langt mál um lítið, en ég vildi gjarnan fá sjónarmið hæstv. samgrh. um þetta efni, upplýsingar um það hvort hann hafi beitt sér fyrir því að virðisaukaskattur verði endurgreiddur af fjárfestingu í hótelrekstri í samræmi við markmið 1. gr. þessa frv. eins og ég skil markmiðið, að þróa ferðaþjónustu og viðurkenna sem mikilvægan og arðgæfan atvinnuveg. Hér er talað um að ferðaþjónusta eigi að hafa jákvæð áhrif á viðskiptajöfnuð landsmanna sem ég skil svo að hugsunin sé sú að ferðaþjónustan sé gjaldeyrisskapandi. Og ef svo á að vera verður að sjálfsögðu að líta á ferðaþjónustuna sem útflutningsatvinnuveg í skattalegum skilningi. Ég sé að hæstv. fjmrh. er kominn í gættina, ég vona að hann sé ekki að hvísla því að hæstv. samgrh. að vera þversum í þessu máli því að auðvitað er vonlaust að hægt sé að byggja ferðaþjónustuna upp eins og búið er að henni nú.
    Ég vil í þessu sambandi leggja áherslu á að áður var söluskattur á hótel lagður á byggingarkostnað að því marki sem hann lagðist ekki til á byggingarstaðnum sjálfum þannig að það má svona almennt talað reikna með því að með lögunum um virðisaukaskatt hafi byggingarkostnaður á hótelum hækkað um 10 -- 15% vegna þeirrar lagabreytingar. Ég hafði litið svo á að breytingin sem fólst í því að leggja niður söluskatt en taka virðisaukaskatt upp í staðinn hefði verið í þeim tilgangi að bæta samkeppnisstöðu atvinnugreina eins og ferðamálaþjónustu. Ég vil til samanburðar taka dæmi af ýmsum öðrum greinum sem eiga í harðri samkeppni við erlenda aðila, hvort sem við tölum þar um fiskveiðar, flugrekstur eða eitthvað annað slíkt í ákveðnu skyni, undir slíkum kringumstæðum er virðisaukaskattur auðvitað allur endurgreiddur til þess að þjónustan flytjist ekki úr landinu.
    Ég get ekki séð af því frv. sem hér liggur fyrir hvernig hæstv. ráðherrar hugsa sér að ná öllum þessum markmiðum, að auka fjölbreytni atvinnulífs i landinu og nýta vaxtarmöguleika ferðaþjónustu, renna stoðum undir þróun byggða sem víðast á landinu o.s.frv., ef ferðaþjónustan verður áfram að búa við þau þröngu skattaskilyrði sem hún býr nú við. Þó svo að við féllumst á að endurgreiða virðisaukaskattinn á fjárfestingunni sætum við samt sem áður uppi með það að matvæli og annað því líkt eru svo dýr hér á landi að við erum engan veginn samkeppnisfær.
    Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvað því líði, hver séu sjónarmið hans til virðisaukaskatts af fjárfestingu í ferðaþjónustu og á þessu stigi málsins.
    Ég geri ekki ráð fyrir því, herra forseti, að hugmyndin sé að allur þessi langi lagabálkur með öll þessi flóknu markmið eigi að afgreiðast nú á þinginu heldur sé frv. lagt fram hér í heild sinni til sýningar.
    Ef við lítum t.d. á 5. gr. frv. þá eru talin upp verkefni Ferðamálaráðs í fjölmörgum greinum, einum ellefu greinum. Ég geri mér ekki almennilega grein fyrir því hvernig hæstv. ráðherra hugsar sér að Ferðamálaráð hagi störfum sínum. Skýringin á 5. gr. er svohljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Greinin kveður á um helstu verkefni Ferðamálaráðs og er þau einkum þríþætt:
    1. Þróunar - og skipulagsmál ferðaþjónustu, þ.e. framkvæmd markaðrar ferðamálastefnu, samræming og tengsl við marga aðila vegna umhverfismála, menntunarmála, fræðslu og ráðgjafar, miðlunar upplýsinga og svæðisbundinnar þróunar, m.a. með aðstoð ferðamálafulltrúa.``
    Ég veit ekki hvort þessi löngu orð segja öðrum mikið, en mér segja þau satt að segja ekki neitt.
 ,,2. Fjárhagsmál Ferðamálaráðs, þ.e. fjárhagsáætlanir og tillögur til ráðherra um meginskiptingu þess fjármagns sem ráðið hefur til umráða. Í framhaldi af því

ákvarðar ráðið fjárveitingar, þar á meðal styrkveitingar og framlög til einstakra landkynningarverkefna, uppbyggingar og endurbóta á ferðamannastöðum, rannsókna og svæðisbundinnar starfsemi.``
    Þarna eru líka í þessum lið litlar upplýsingar um það hvað fyrir ráðherra vakir. Þetta er svona almennt snakk.
 ,,3. Markaðs - og kynningarmál ferðaþjónustu, þ.e. landkynning, markaðsfærsla, rannsóknir og þróun og alþjóðlegt samstarf.``
    Það væri nú fróðlegt að fara í orðabók og athuga hvað hægt sé að tína upp af sambærilega löngum orðum svipaðrar merkingar til þess að orða þarna fjórða töluliðinn.
    ,,Alþingi fjallar nú um þáltill. um ferðamálastefnu, sem gert er ráð fyrir að verði afgreidd sem ályktun Alþingis. Nauðsynlegt er að ferðamálastefnan sé stöðugt til endurmats, m.a. á ferðaþingi, og þannig verður hún leiðbeinandi fyrir Ferðamálaráð á hverjum tíma. Því er ástæðulaust að kveða í lögum með ítarlegri hætti en hér er gert á um verkefni Ferðamálaráðs.`` --- Með ítarlegri hætti. Þetta er skýringin við 5. gr.
    Ég missti af framsöguræðu ráðherra. Ég geri ráð fyrir því að ráðherra hafi í sinni framsöguræðu gert ítarlega grein fyrir því hversu miklum fjármunum hann hefur í hyggju eða vill verja til þeirra verkefna sem Ferðamálaráði eru einkum falin. Nú ber ekki svo að líta á að verkefnin skv. 5. gr. séu endanlega upp talin, sé tæmandi upptalning. Í 5. gr. stendur: ,,Verkefni ráðsins eru einkum eftirtalin.`` Og þau eru í 11 liðum:
    ,,Að gera árlega tillögur til ráðherra um ráðstöfun fjár til helstu málaflokka og ákvarða síðan skiptingu þess til einstakra verkefna.`` --- Hvað þýðir nú þetta?
    ,,Að starfa að landkynningar - og markaðsmálum í þágu ferðaþjónustu?`` --- Hvað þýðir þetta? Hvað er verið að tala um háar fjárhæðir? Hvað er verið að tala um vítt svið?
    ,,Að vinna að umhverfis - og skipulagsmálum að meðtöldum aðgengismálum fatlaðra vegna ferðaþjónustu.
    Að örva rannsóknir og þróunarstarf í þágu ferðamála.
    Að vera ráðgefandi um námsframboð og þjálfun fyrir starfsfólk í ferðaþjónustu í samvinnu við hagsmunasamtök og fræðsluyfirvöld.`` --- Hvað hugsar ráðherra sér að margt fólk vinni að þessu eina verkefni í 5. tölul.? Er þetta kannski hálfs dags starf? Er hægt að vinna að þessu eingöngu á sumrin eða á veturna, eftir hádegi eða kannski með morgunkaffinu?
    ,,Að kanna réttmæti kvartana um misbresti á þjónustu við ferðamenn.
    Að miðla upplýsingum um hagtölur, samkeppnisstöðu og rekstrarskilyrði ferðaþjónustu.`` --- Hvernig á að miðla þessum upplýsingum? Hvernig á þessi þjónusta að fara fram?
    ,,Að annast tengsl við ferðamálasamtök, áhugafélög og björgunarsveitir.
    Að undirbúa ferðaþing í samræmi við reglugerð.``

--- Það má segja kannski guði sé lof að ekki stendur hrafnaþing. En hvað er þetta ferðaþing? Hvers konar stofnun er það? ( Landbrh.: Hefur ræðumaður heyrt um fiskiþing og iðnaðarþing?) Ég hef heyrt talað um fiskiþing og iðnaðarþing. En ætli það sé ekki best að slík þing verði til af sjálfu sér?
    ,,Að halda ráðstefnur um afmörkuð málefni sem snerta atvinnugreinina.
    Að taka þátt í alþjóðlegu samstarfi um ferðaþjónustu.``
    Og hvað á að verja miklum fjármunum í þetta allt saman? Hefur ráðherrann það á reiðum höndum? Lögum samkvæmt bar að leggja slíkt fyrir þegar málið var tekið til umræðu í Nd.
    Ég vil nú mjög óska eftir því að upplýsingar verði veittar um það frá Hagsýslustofnun hversu umfangsmikið starf það er sem ríkisstjórnin hugsar sér að unnið verði í samræmi við þessi lagaákvæði.
    Mér skilst, herra forseti, að fundur sé í Sþ. kl. 2. Mér var tilkynnt það þannig að ég skal gera hlé á ræðu minni. Er það ekki rétt skilið? --- Er forseti sofnaður í stólnum? Ég var að spyrja hæstv. forseta hvort ekki hafi verið gert ráð fyrir því að fundi lyki hér kl. 2 og þá hæfist fundur í Sþ. Ég vil tilkynna hæstv. forseta að það stendur svo á í dag að það er landsfundur Sjálfstfl. Venja hefur verið sú að það er tekið tillit til landsfunda stjórnmálaflokka og ég vil vænta þess að forsetar standi við það sem um þetta var sagt. Mér var tilkynnt að það yrði utandagskrárumræða í Sþ. kl. 2. Klukkan er þegar orðin tvær mínútur yfir tvö og ég vil óska eftir því að það verði staðið við það sem forsetar hafa sagt um þinghaldið. Það gengur ekki að forsetar meini ekkert með því sem þeir segja um þinghaldið. ( Forseti: Það stendur yfir fundur í Nd. enn þá.) Og á svo að segja í Nd. að það standi yfir fundur í Ed.? ( Forseti: Það munu vera atkvæðagreiðslur í Nd.) Ég held að það verði að taka tillit til samkomulags sem gert er. Ég varð að vísu vitni að því í Sþ. í dag að forseti Sþ. virti ekki tímatakmörk sem ákveðin eru í þingsköpum og er það auðvitað ekki til eftirbreytni að forsetar reyni ekki að halda þau þingsköp sem þeim er sjálfum ætlað að starfa eftir.
    Herra forseti. Það var tilkynnt að fundi í Ed. lyki kl. 2 og ég geri ráð fyrir því að við það sé staðið. Það stendur þannig á að Sjálfstfl. er með landsfund í dag og við höfum ráðstafað okkar tíma. Forsetar Alþingis hafa auðvitað í sínum höndum hvort þeir taka tillit til landsfundarins og þess að einstakir þingmenn eru fyrir löngu búnir að ráðstafa sínum tíma. Það er hins vegar alveg nýtt, eða ég man ekki eftir því að forsetar hafi ekki reynt að greiða fyrir því þegar landsfundur er haldinn að þingmenn gætu rækt slíkar skyldur. Ég vil vonast til þess að hæstv. forseti standi við það að fundi sé slitið. Það eru þegar liðnar 10 mínútur fram yfir þann tíma sem mér var sagt að fundur ætti að standa í Ed.
    Það hefur áður komið fyrir að ég hafi þurft að fara fram á það að fá skriflegt það sem forsetar segja. Ég vona að það fari ekki að verða almenn regla hér í

þinginu að þingmenn geti ekki treyst munnlegum skilaboðum forseta. En ef það er á hinn bóginn ósk forseta að ég haldi áfram að ræða hér um ferðamálafrv. þá skal ég gera það. Það er guðvelkomið. En þá óska ég líka eftir því að forseti sjái um að ég fái að ljúka minni ræðu. ( Forseti: Það stendur þannig á að það var gert ráð fyrir að fundi í Sþ. yrði fram haldið að loknum deildafundum og ég reiknaði með því að honum það yrði frestað um tvöleytið. Hins vegar stendur enn yfir fundur í Nd. og fundur í Sþ. getur ekki hafist fyrr en fundi í Nd. er lokið, en ég mun fresta þessari umræðu um leið og fundi í Nd. lýkur.)
    Má ég spyrja hæstv. forseta að því hvort það séu kannski samsvarandi sjónarmið uppi hjá forseta Nd., að hann hyggist ekki slíta fundi þar fyrr en búið er að slíta fundi í Ed.? Nei. Ég vil jafnframt segja forseta það að síðast í dag áttum við fund í fjh. - og viðskn. þessarar deildar. Þar voru mér sýndar brtt. sem meiri hl. nefndarinnar vildi leggja fram við stjfrv. sem olli því að ég sá ekki efni til að kalla á fund nefndarinnar forstöðumann Ríkisábyrgðasjóðs þar sem erindi hans var minna en ella ef þær brtt. hefðu náð fram að ganga sem mér höfðu verið sýndar. Nú vildi svo til að meiri hlutinn stóð ekki við þessi ummæli sín. Nú vildi svo til, herra forseti, að meiri hlutinn stóð ekki við það sem hann hafði sagt og frv. hefur ekki verið breytt í samræmi við það sem mér var sagt á fundinum, þannig að ég þarf að fá upplýsingar hjá Ríkisábyrgðasjóði. Ég sá ekki ástæðu til þess samt sem áður að standa í vegi fyrir því að 2. umr. gæti farið fram í trausti þess að ég fengi tal af forstöðumanni Ríkisábyrgðasjóðs milli 2. og 3. umr. og ég hef hugsað mér að láta þessi orð mín standa. Ég hef hugsað mér að láta þau loforð standa sem ég hef gefið um vinnubrögð í þinginu og annað þvílíkt. En ef það á að fara taka núna upp á þessum dögum einhverja aðra aðferð, þá að standa ekki við það sem sagt er, þá auðvitað hlýtur maður að breyta sínum starfsaðferðum í samræmi við það. Skal ég svo ekki tala neitt meira um það, en ég geri ráð fyrir því að hæstv. forseti skilji það að það er ekki til þess að greiða fyrir þingstörfum, hvorki að grípa fram í fyrir ræðumanni né að sýna ekki almenna sanngirni í störfum. ( Forseti: Ef hv. ræðumaður óskar ekki eftir því að nota þann tíma sem við verðum að bíða hvort sem er eftir að fundur geti hafist í Sþ., þá er sjálfsagt að hann geri þegar í stað hlé á sinni ræðu.) Já, ég þakka fyrir.