Mannanöfn
Fimmtudaginn 07. mars 1991


     Sólveig Pétursdóttir :
    Hæstv. forseti. Mér þykir rétt að segja nokkur orð í tilefni af ræðu hv. þm. Geirs H. Haarde í umræðum um þetta mál í gær þar sem hann gerði athugasemdir um það að menntmn. hefði ekki hirt um að sinna ábendingum hans sem komu fram í 1. umr. þessa máls um að skíra mætti börn fleiri nöfnum en tveimur. Ég vil aðeins skýra hv. þm. frá því að ég kom þessum athugasemdum hans á framfæri í menntmn. þessarar deildar en nefndarmönnum þótti ekki ástæða til að kanna það atriði nánar. Ég tel hins vegar rétt að þessi möguleiki sé fyrir hendi og mun því styðja tillögu hans í því efni.
    Varðandi brtt. frá hv. þm. Guðnýju Guðbjörnsdóttur, 1. tölul. þar sem gert er ráð fyrir að ákvörðun um nafnveitingu skuli háð samþykki barnsins sjálfs sé þess kostur, þá velti ég því fyrir mér hvort rétt sé að lögbinda slíkt ákvæði því að í framkvæmdinni yrði að sjálfsögðu leitað eftir áliti barnsins alveg eins og er gert í öllum slíkum málum sem snerta málefni barna í dómsmrn. Það er hægt að hugsa sér að starfsmenn dómsmrn. mundu láta slíka framkvæmd bíða þannig að barnið yrði ekki skráð nýju nafni hjá Hagstofunni enda þótt foreldrar færu e.t.v. að kalla barnið strax öðru nafni.
    Að öðru leyti vil ég segja um þær brtt. sem fram koma frá menntmn. að þær eru í fullu samræmi við þær athugasemdir sem ég gerði hér við 1. umr. um þetta mál og þá ekki síst hvað snertir 7. gr. frv., þar sem dómsmrn. var í upprunalegum texta gefin heimild til að leyfa mönnum nafnbreytingu ef þeim væri ami að nafninu. Þetta orð er tekið út úr vegna þess að starfsmenn dómsmrn. töldu að þetta væri allt of víðtækt og yrði erfitt að leggja huglægt mat á umsóknir. Í staðinn hljóðar textinn svo:
    ,,Dómsmrn. er heimilt að leyfa manni nafnbreytingu, þar með talið að taka annað eiginnafn til viðbótar því sem hann ber, ef telja verður að gildar ástæður mæli með því.``
    Að sjálfsögðu er ekki gert ráð fyrir því að þessar nafnbreytingar verði algengar í lífi manna heldur eiga breytingar samkvæmt þessari málsgrein aðeins að vera einu sinni nema sérstaklega standi á.
    Mér þykir enn fremur rétt að geta þess varðandi 2. mgr. 12. gr. að ég gerði sérstakan fyrirvara um það atriði þar sem segir í brtt.:
    ,,Heimilt er með leyfi dómsmrn. að feðrað barn sé kennt til stjúpforeldris. Beiðni um breytingu á kenninafni skal undirrituð af kynforeldri, sem fer með forsjá barnsins, og stjúpforeldri. Leita skal samþykkis þess kynforeldris sem ekki fer með forsjá barnsins ef unnt er áður en ákvörðun er tekin um slíkt leyfi.``
    Ég tel nauðsynlegt að þetta ákvæði sé hér inni vegna þess að það getur verið nógu erfitt að lenda í skilnaði eða samvistaslitum og missa forsjá barns þó að ekki væri nú leyfð nafnbreyting á því líka án þess að leitað væri eftir áliti þess aðila sem ekki fer með forsjána.
    Það var einnig allmikið rætt í nefndinni um þessar svokölluðu dagsektir. Reyndar voru tillögur um að þessar dagsektir yrðu 2000 kr. á dag en nefndin taldi rétt að lækka þessa upphæð um helming, þ.e. niður í 1000 kr.
    Og enn fremur vil ég, virðulegi forseti, benda á nýja grein sem ekki var í frv. þar sem segir í 5. tölul. þessara brtt.:
    ,,Á eftir 23. gr. komi ný grein er orðist svo:
    Ríkisstjórninni er heimilt að gera samninga við önnur ríki um mörkin milli íslenskrar og erlendrar mannanafnalöggjafar.
    Dómsmrh. er enn fremur heimilt að kveða á með reglugerð um mörkin milli íslenskrar löggjafar um mannanöfn og löggjöf annarra Norðurlandaþjóða á því sviði.``
    Ég gerði sérstaka fyrirvara um þetta atriði við 1. umr. þessa máls og fagna því að þetta ákvæði er komið hér inn í brtt.
    En svo að ég víki aftur að brtt. frá hv. þm. Guðnýju Guðbjörnsdóttur þess efnis að hver maður sem hefur ekki ættarnafn, sbr. 2. mgr., skal kenna sig til föður, móður eða föður og móður þannig að á eftir eiginnafni eða eiginnöfnum komi o.s.frv., brtt. við 9. gr. frv., þá tel ég rétt að þessi möguleiki sé fyrir hendi og mun því styðja tillöguna.