Mannanöfn
Fimmtudaginn 07. mars 1991


     Umhverfisráðherra (Júlíus Sólnes) :
    Virðulegi forseti. Ég hef því miður ekki haft tækifæri til að fylgjast mjög vel með umræðum um þetta frv. um mannanöfn, en tel samt ástæðu til að gera þingheimi í örstuttu máli grein fyrir deilum sem við eigum í við dönsku ríkisstjórnina varðandi nafnavenjur Íslendinga sem eru búsettir í Kaupmannahöfn.
    Svo er mál með vexti að íslenskir foreldrar sem eignast börn í Kaupmannahöfn og dveljast þar um stundarsakir hafa lent í miklum erfiðleikum við að fá nöfn barna sinna skráð á nafnaskrár í Danmörku samkvæmt íslenskum nafnavenjum og nafnalögum. Dönsk yfirvöld hafa krafist þess að börn íslenskra foreldra fædd í Danmörku verði skráð samkvæmt dönskum nafnalögum, þ.e. þau verði skráð með ættarnafni föður eða sem sagt, föðurheiti föður, ef svo má að orði komast. Við höfum staðið í nokkrum deilum við Dani út af þessu og til bráðabirgða hefur verið fundin lausn á því sem er aldeilis óviðunandi, en hún er sú að íslenskum foreldrum er gert skylt að sækja um undanþágu frá dönsku nafnalögunum. Verða því íslenskir foreldrar sem vilja láta skrá börn sín samkvæmt íslenskum venjum að greiða fyrir það hátt gjald eins og um væri að ræða Dana sem óskaði eftir því að fá breytt nafni því sem hann ber, það er farin sama leið.
    Ég hef velt því fyrir mér hvort það væri jafnvel ástæða til fyrir Íslendinga að setja til bráðabirgða grein inn í íslensk nafnalög með kröfu um að dönskum foreldrum sem eignast börn á Íslandi verði gert skylt að skrá sín börn samkvæmt íslenskum nafnalögum svo við höfum eitthvað að versla með áður en við náum endanlegu samkomulagi við Dani um þetta mál. Hér er um mjög erfitt, flókið og vandasamt mál að ræða því að það er aldeilis ekki viðunandi að íslenskir ríkisborgarar sem um stundarsakir dveljast í Danmörku séu beittir þeim þvingunum sem Danir hafa viðhaft varðandi íslenskar nafnavenjur.
    Að öðru leyti lýsi ég þeirri skoðun minni hér í sambandi við breytingar á lögum um íslensk mannanöfn að það ber að fara ákaflega varlega í því að breyta í einu eða neinu gömlum hefðum og venjum sem ríkja um þetta efni.
    Nú vill svo til að ég er einn þeirra Íslendinga sem bera ættarnafn og stafar það af því að faðir minn var ættleiddur af norskum sjómanni sem hingað hafði flust og bar nafnið Sólnes. Ég man það þegar ég var ungur maður í skóla norður á Akureyri að mér var engin ánægja að því að bera þetta ættarnafn og hefði heldur kosið að vera kenndur við föður minn eins og venja er samkvæmt íslenskum hefðum og reyndar gömlum norrænum hefðum. Þess vegna mundi ég kjósa að sjá að það yrði ekki neitt aðhafst til þess að rýmka rétt Íslendinga til að taka upp ættarnöfn því ef það er gert er hætta á því að á nokkrum áratugum, og jafnvel innan 100 ára tímabils, væru allir Íslendingar komnir með ættarnöfn. Það væri miður vegna þess að þessi einstæða venja sem hér ríkir, þessi gamla, norræna nafnahefð, er óðum að hverfa, hún fyrirfinnst aðeins á Íslandi í allri Evrópu. Það væri mikil sorgarsaga ef Íslendingar létu undan og þessi gamla nafnahefð legðist út af. Þess vegna skora ég á þingheim að fara sér mjög varlega í þessum efnum og breyta í engu lögum á þann hátt að það verði auðveldað fyrir Íslendinga að taka upp ættarnöfn og/eða nota erlend nöfn við að skíra börn sín hér á Íslandi.
    Ég rifja upp svo hér að lokum afstöðu ágæts kennara míns úr menntaskóla, Brynleifs heitins Tobíassonar, sem var mjög mikill andstæðingur þess að Íslendingar bæru erlend nöfn og ættarnöfn. Nú vill svo til að ég er skírður fornafninu Eðvarð. Ég minnist þess þegar Brynleifur var að taka mig upp í latínu í menntaskóla, þá ávarpaði hann mig ævinlega sem Játvarð Jónsson því að hann viðurkenndi hreinlega ekki að Íslendingar gætu borið erlend nöfn eða ættarnöfn.