Mannanöfn
Fimmtudaginn 07. mars 1991


     Frsm. menntmn. (Ragnar Arnalds) :
    Herra forseti. Vegna endurtekinna ummæla nokkurra þingmanna um ákvæði frv. þessa um mannanöfn hvað varðar dagsektir, þá vildi ég mega koma því á framfæri, sem ég heyri að mönnum er ekki alveg fullkomlega ljóst, að dagsektir verða ekki flokkaðar til sekta í venjulegum skilningi. Dagsektir eru ekki refsing. Þær eru þvingunarráð og til að beita slíku þvingunarráði þarf lagaheimild.
    Það er eftirtektarvert fyrir menn að átta sig á því að ef á mann hefur verið lögð dagsekt t.d. í 60 daga, og skuldar þar af leiðandi 60 þús. kr. vegna þess að hann hefur ekki innt þessa skyldu af hendi. Síðan verður hann loksins við skyldunni og gegnir henni og þá falla dagsektirnar niður, þá eru þær ekki kræfar því að það er alveg ljóst af hæstaréttardómum sem hafa fallið einmitt um þetta efni að ákvæði dóms eða úrskurðar um dagsektir verður ekki fullnægt eftir að skyldunni hefur verið gegnt. Menn verða sem sagt að gera sér fullkomlega grein fyrir því að við erum ekki að tala hér um sektir í venjulegum skilningi heldur þvingunarráð sem er þess eðlis að dagsektin fellur niður þegar skyldunni hefur verið fullnægt. Aftur á móti ef maðurinn þráast svo lengi við að framkvæmdarvaldið er farið að innheimta upphæðina og er búið að ná upphæðinni af viðkomandi einstaklingi, þá er hún glötuð einstaklingnum og verður ekki endurheimt.
    Mér fannst rétt að menn gerðu sér fullkomlega grein fyrir þessu, að hér er sem sagt ekki um refsiúrræði að ræða heldur þvingunarráð.