Mannanöfn
Fimmtudaginn 07. mars 1991


     Ragnar Arnalds :
    Herra forseti. Ég hef í sjálfu sér fulla samúð með því fólki sem skírt er mjög mörgum nöfnum og kannski má segja að það eigi að vera réttur einstaklingsins að bera mörg nöfn. En okkur í menntmn. Nd. var tjáð að á tölvuöld væru á því ýmsir vankantar, m.a. þeir að opinberar tölvur taka ekki nema ákveðinn fjölda stafa, og það mundi vera mjög mikill kostnaður því samfara að leyfa mönnum að bera nöfn sem væru mjög löng. Ég segi fyrir mig að ég treysti mér ekki til að andmæla slíkum rökum, a.m.k. ekki nema að nánar athuguðu máli. Ég treysti mér því ekki til að greiða þessari tillögu atkvæði og segi nei.