Mannanöfn
Fimmtudaginn 07. mars 1991


     Landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) :
    Herra forseti. Ef ég hef skilið efni þessarar brtt. rétt, þá rýmkar hún rétt foreldra og barna til þess að bera fleiri nöfn en frv. gerir ráð fyrir. Ég er fullkomlega ómóttækilegur fyrir rökum af því tagi að tölvur eigi að fara að ráðskast með hefðir í nafngift hjá Íslendingum og ansa ekki slíku. Sjálfur heiti ég eftir þremur mönnum, afa mínum og tveimur afabræðrum en svo haganlega tókst til að unnt var að koma tveimur nöfnunum saman í eitt, þar sem voru Aðalsteinn og Arngrímur, í Steingrím og síðan hét afi minn Jóhann. Ég tel að ef menn hefðu ekki verið svona hugkvæmir að koma þessu saman, þá hefði sá réttur verið af mér tekinn að bera nöfn þessara þriggja heiðursmanna. Ég segi því já af því að það felst framför í brtt. en helst hefði ég viljað hafa þetta ótakmarkað.