Mannanöfn
Fimmtudaginn 07. mars 1991


     Geir H. Haarde :
    Herra forseti. Ég vil aðeins gera grein fyrir þessari tillögu. Hún er að vísu náskyld þeirri tillögu sem nýsamþykkt er, en hér er gert ráð fyrir þeim viðbótarmöguleika við hið upphaflega frv. að menn geti skírt börn sín svokölluðum millinöfnum, eins og gert var ráð fyrir í frv. 1971 sem ekki náði fram að ganga, eins og t.d. Berg, Ben, Áss eða því um líkt sem viðgengst hér í þjóðfélaginu. Ég sé ekki ástæðu til þess að banna mönnum slíka sérvisku, ef það má kalla það það. Ég tel þvert á móti að það eigi að leyfa mönnum þetta og segi þess vegna já.