Seinkun á utandagskrárumræðum
Fimmtudaginn 07. mars 1991


     Halldór Blöndal :
    Hæstv. forseti. Mér hafði verið tilkynnt það að utandagskrárumræða ætti að hefjast í Sþ. kl. 2 síðdegis og hafði vænst þess að við þá tímasetningu yrði staðið. Það er mjög bagalegt, bæði fyrir alþingismenn og þá sem vilja fylgjast með umræðum hér í Alþingi, ef hæstv. forsetar standa ekki við tímaáætlun. Það er ósiður sem tekinn hefur verið upp í seinni tíð og fjarri hinum fyrri forsetum, mönnum eins og Eysteini Jónssyni, svo að ég taki eitthvert nafn sem kunnugt er, að standa ekki nákvæmlega við tímasetningar í sambandi við umræður á Alþingi, hvenær fundarsetning fari fram og annað þar fram eftir götunum. Þessi óreiða sem hér er á þingstörfum hefur valdið mikilli röskun og truflað þingstörf og seinkað fyrir málum.