Efndir við loðdýrabændur
Fimmtudaginn 07. mars 1991


     Stefán Valgeirsson :
    Virðulegi forseti. Ég hygg að umræða um stöðu loðdýraræktar hafi komist enn á ný á skrið eftir að hæstv. landbrh. flutti ræðu sína norður í Eyjafirði þar sem til þess var tekið að hann minntist ekki á loðdýr og stöðu loðdýraræktarinnar í þeirri ræðu að mér er tjáð. Síðan hefur Stöð 2 talað við tvo loðdýrabændur. Annar er fyrrv. loðdýrabóndi fyrir norðan og hinn formaður loðdýrabænda á Suðurlandi. En áður en ég kem að því ætla ég að lesa hér áskorun til ríkisstjórnar og Alþingis:
    ,,Fyrir rúmlega ári síðan voru okkur loðdýrabændum gefin fyrirheit um aðstoð vegna mjög erfiðrar fjárhagsstöðu. Voru þá gefnar yfirlýsingar um ríkisábyrgð á lánum ásamt því að fella niður hluta lána og breyta vanskilum í föst lán ásamt fleiri aðgerðum. Talið var að þessar aðgerðir ættu að duga til þess að koma fjárhagsstöðu okkar á réttan kjöl. Þessir hlutir hafa gengið ákaflega seint í framkvæmd og hefur ekki náðst að ganga frá skuldaskilum fyrir ýmsa enn þá og ónóg veð hafa, að því er talið er, staðið í vegi fyrir því að náðst hafi að vinna í málum allra.
    Þegar litið er á stöðu manna í dag er alveg ljóst að þessar aðgerðir eru engan veginn nægjanlegar og verður ekki séð annað en niðurfelling lausaskulda, a.m.k. helmings þeirra, og verulegur niðurskurður skulda í Stofnlánadeild, a.m.k. 40%, sé það eina sem gæti komið í veg fyrir fjöldagjaldþrot í greininni. Miðað við verðþróun á síðasta uppboði í Danmörku og minnkandi framboð skinna má ætla að í hönd fari bjartari tímar í þessari atvinnugrein þó svo að ljóst sé að verðlagsþróun innan lands á liðnum árum gerði það að verkum að útilokað er að skinnaverð verði nokkurn tíma svo hátt að það standi undir skuldsetningu búanna eins og þau eru í dag. Því verða áðurgreindar ráðstafanir að koma til eigi að vera mögulegt að halda þessum rekstri áfram.
    Á árinu 1990 var veitt fyrirgreiðsla frá Bjargráðasjóði til loðdýrabænda sem voru styrkir til fjölskyldna. Þeir voru veittir í fimm mánuði á sl. ári. Framlag þetta gerði það að verkum að menn höfðu í sig og sína. Þegar eftir því var leitað hvort slík fyrirframgreiðsla yrði einnig veitt á árinu 1991 var svarað af Bjargráðasjóði að það væru ekki til fjármunir til slíkra hluta og yrði að koma til fjármögnun í gegnum félmrn. svo sem var á liðnu ári. Þegar eftir því var spurt hjá því ráðuneyti var svarið að ekki hefði fengist í þetta fjárveiting og á meðan væri ekki hægt að veita fjármagn til þessa. Á meðan svo stæði væri loðdýrabændum vinsamlega bent á að leita eftir framlögum hjá sveitarsjóðnum.
    Svo mörg voru þau orð. Það skal viðurkennt og þakkað að sumar aðgerðir hafa skilað sér vel í þessari atvinnugrein, svo sem jöfnunargjald á fóðri frá Framleiðnisjóði. Það er alveg ljóst að þær aðgerðir sem í gangi voru hafa ekki skilað því sem ætlað var til loðdýrabænda og verður því að fara fram á það sem hægt er að gera til þess að koma mönnum á réttan kjöl þannig að skuldastaðan verði viðráðanleg, svo

sem bent var á hér að framan. Væntum við þess að á Alþingi og í ríkisstjórn verði þetta mál tekið upp þannig að varanleg lausn fáist og að mönnum verði gerð grein fyrir því hver ætlunin sé. Ófullnægjandi aðgerðir eru það versta sem gert er. Menn verða að vita stöðu sína.``
    Þetta er undirskrifað af Ævari Kjartanssyni fyrir hönd loðdýrabænda við Eyjafjörð.