Efndir við loðdýrabændur
Fimmtudaginn 07. mars 1991


     Landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) :
    Hæstv. forseti. Ég verð þeirri stund fegnastur þegar þetta heimskulega form utandagskrárumræðna verður aflagt því að það er auðvitað tæplega boðlegt að ætla mönnum að svara fyrir flókin mál á tveimur mínútum eins og ég væntanlega á að gera hér. Ég fékk engar sérstakar spurningar frá hv. málshefjanda þannig að ég hygg að ég nýti best tímann með því að reyna að gera örstutta grein fyrir þeim aðgerðum sem í gangi eru og hvernig þær standa.
    Þær standa þannig að loðdýrabændum hefur fækkað verulega, eins og menn skilja, og eru nú um 120. Skuldbreytingar gegnum Ríkisábyrgðasjóð hafa nýst þannig að rétt um 200 millj. hafa þegar verið nýttar af 300 millj. kr. heimild. Skuldbreyting er komin í gegn hjá tæplega 130 aðilum af um 180 sem sendu inn upplýsingar en þar af eru um 120 -- 130 hættir við. Stofnlánadeildin hefur þegar létt undir með framkvæmd þessarar skuldbreytingar í samráði við landbrn. á þann hátt að fella niður eða lækka höfuðstól hjá nokkrum bændum.
    Ef litið er yfir aðgerðir Framleiðnisjóðs þá standa þær þannig að á árinu 1989 lagði Framleiðnisjóður fram skuldbreytingarframlag á þáverandi verðlagi 60 millj., núverandi 70, og er það framlag um það bil að nýtast að fullu. Framleiðnisjóður hefur greitt í jöfnunargjald á fóður 37 millj. á árinu 1990 og 32,5 millj. áætlað á þessu ári. Framleiðnisjóður greiðir vexti af ógreiddum afurðalánum frá fyrri árum, áætlað 11 millj. kr. á þessu ári. Framleiðnisjóður greiðir stimpilgjöld vegna nefndra skuldbreytinga, áætlað 4 millj. Auk þess greiðir Framleiðnisjóður allan kostnað af vinnu við skuldbreytinguna og laun lögfræðinga. Framleiðnisjóður greiddi á síðasta ári 30 millj. kr. í refastyrk og Framleiðnisjóður veitir 50% bakábyrgð á afurðalánum fyrir árið 1990 og einnig fyrir árið 1991.
    Ríkissjóður hefur á þessum tíma greitt í jöfnunargjald á fóður á árinu 1990 37 millj., á árinu 1991 áætlað 32,5 millj. Framlag til Byggðastofnunar vegna fóðurstöðva á árinu 1990 25 millj. Framlag til Bjargráðasjóðs á árinu 1990 11 millj. Stofnlánadeildin hefur, eins og þegar sagði, þegar fellt niður hluta höfuðstólsskulda hjá nokkrum bændum til þess að taka þátt í nauðasamningum tengdum skuldbreytingum og viðræður eru í gangi milli landbrn. og Stofnlánadeildar um frekari aðgerðir af þessu tagi.
    Á árinu 1988 var söluskattur endurgreiddur að fullu eins og hann var þá útistandandi frá mörgum fyrri árum upp á 35 millj. kr. og haustið 1989 voru aðrar 41 millj. kr. greiddar. Ríkisábyrgðasjóður hefur, eins og þegar sagði, veitt ríkisábyrgðir á skuldbreytingum fyrir um 200 millj. kr. og fara þær væntanlega í eitthvað milli 230 og 300 millj. þegar upp verður staðið í þeirri breytingu. Í athugun er hjá Bjargráðasjóði að hefja á nýjan leik greiðslu sambærilegrar aðstoðar í formi sérstakra greiðsluerfiðleikalána eins og gert var á sl. ári. (Gripið fram í.) Það er einmitt það sem hv. frammíkallandi nefndi sem er í athugun, hvernig unnt

sé að fjármagna það. Ég vænti þess að þegar lánsfjárlög verða afgreidd innan fárra daga á þingi, þá verði skerðingarþaki á framlagi ríkissjóðs til Bjargráðasjóðs létt þannig að unnt verði að fjármagna þessar greiðslur þar í gegn. En það var m.a. nauðsynlegt um áramótin að fá upplýsingar um það hversu margir loðdýrabændur hefðu látið af búskap áður en unnt væri að taka ákvörðun um að halda þessum greiðslum áfram.
    Að lokum má nefna það að skinnaverð er sem betur fer loksins að hækka og lítur þar út fyrir eitthvað bjartari tíma. Þá vil ég undirstrika það hver var yfirlýstur tilgangur og markmið með þessum aðgerðum. Það var ekki að leysa þetta vandamál í eitt skipti fyrir öll, enda ekki hægt og vantar mikið á að þessir fjármunir sem hér hafa verið nefndir dugi til þess. Það var að reyna að skapa þessari grein a.m.k. tveggja ára umþóttunartíma áður en það yrði síðan gert upp hvort látið yrði af loðdýrarækt hér í landinu eða ekki. Þær tölur sem ég hér nefndi, hvað sem um þær má segja, þá eru þær þannig að ef lögð eru saman bein fjárframlög, ríkisábyrgðir og endurgreiðsla á söluskatti að ótöldum öllum kostnaði, þá er umfang þessara skuldbreytingaraðgerða, sem núna hafa staðið yfir, og aðstoðar við greinina í rúm tvö ár af stærðargráðunni 600 -- 800 millj. kr. Menn geta sagt að það sé lítið og menn geta sagt að þetta hafi gengið seint, því það hefur það gert. Það hefur gengið seint, en það hefur svo sannarlega verið reynt að gera ýmislegt. Ég vænti að með þeim ráðstöfunum, sem í athugun eru núna, að innheimta ekki vexti af skuldbreytingarlánum Ríkisábyrgðasjóðs á afborgunarleysistímanum, að hefja á nýjan leik erfiðleikalán úr Bjargráðasjóði og að ræða við Stofnlánadeild og bankana um ákveðin atriði sem lúta að lánskjörum, þá verði hægt að búa þannig um hnútana í þessari aðgerð að sæmilega megi við una miðað við þær væntingar og þau loforð sem gefin voru. Ég hygg að hv. alþingismenn geti ekki annað sagt en að við það sem ákveðið var að gera hefur verið staðið.