Efndir við loðdýrabændur
Fimmtudaginn 07. mars 1991


     Ásgeir Hannes Eiríksson :
    Virðulegi forseti. Hér er viðkvæmt mál á dagskrá sem snertir marga. Á sínum tíma var ég eindregið þeirrar skoðunar og er enn að það hafi verið vitlaust staðið að þessum málum, bæði í upphafi og eins þegar gripið var til bjargráða. Hér var keyrt áfram af kappi en engri forsjá. Búunum var bókstaflega skipt niður um allar sveitir án þess að nokkuð væri tekið tillit til fjarlægða frá þeim stað sem æti kom frá, enda hefur fæðiskostnaðurinn verið miklu meiri heldur en gert var ráð fyrir. Ríkið fór á undan í þessu máli og hvatti bændur til þess að taka upp loðdýrarækt þannig að ríkið ber stóran hluta ábyrgðar. Þess vegna taldi ég á sínum tíma þegar þetta mál var á dagskrá að ríkið ætti þegar í stað að leysa það fólk, venslamenn og aðra ábyrgðarmenn, úr snörunni í eitt skipti fyrir öll með pennastriki og leyfa þeim svo einum að halda áfram loðdýrarækt sem gætu gert það fyrir eigin reikning.
    Nú upplýsir ráðherrann að þegar séu komnar 600 -- 800 millj. kr. plús vaxtaniðurfellingar og ýmis önnur ívilnun sem hefur verið og er í gangi í kerfinu þannig að það verður ekki séð fyrir endann á þeirri upphæð sem fer í þessa grein. Það hefði verið nær að verja þeim peningum og öðrum peningum sem eiga eftir að fara til greinarinnar til þess að hjálpa fólkinu sjálfu því að víða er þetta fólk í rauninni fangar ríkissjóðs. Fólkið getur ekki hætt og það getur ekki haldið áfram. Það mun því koma til kasta ríkissjóðs um ókomin ár og ítreka ég það að það hefði verið betra að ljúka þessu máli strax, leyfa þeim að halda áfram sem geta gert það fyrir eigin reikning, leggja áherslu á fólkið en ekki dýrin í þessu sambandi.