Efndir við loðdýrabændur
Fimmtudaginn 07. mars 1991


     Landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) :
    Hæstv. forseti. Ég stóð í þeirri meiningu að umræðu væri að ljúka og tíminn búinn og ætlaði að fá að taka aftur til máls í lokin eins og venja er þegar málshefjandi og sá ráðherra sem fyrir svörum stendur fá orðið. Ég ætla að byrja á því að hvetja hv. 2. þm. Norðurl. e. til að halda á landsfund Sjálfstfl. þar sem hans bíður ærið verkefni að velja nýjan formann. Ég held að hann geri ekki annað þarfara í dag. Alla vega bætir það lítt um betur sem hann studdi ríkisstjórnir á árunum 1983 -- 1988 og á sinn þátt í því hvernig þessi mál eru komin, ber á því sína ábyrgð eins og reyndar allir aðrir hv. alþm. á þessum tíma. Það er ekki mjög karlmannlegt af honum, sem annars ber sig nokkuð hreystilega, að fara að tala um það að ekki hafi verið staðið myndarlega að þessum hlutum.
    Staðreyndin er auðvitað sú að hefðu ráðstafanir af því tagi sem nú eru í gangi verið gerðar miklu fyrr væri staðan önnur og betri. Það er einmitt ekki fyrr, því miður, en í árslok 1988 og á árinu 1989 sem farið er að grípa til ráðstafana af því tagi sem einhver bein áhrif hafa á rekstrarafkomu bændanna, eins og styrkir úr Framleiðnisjóði, eins og greiðsla á jöfnunargjaldi beint til lækkunar á rekstrarkostnaði búanna. Það sem gert hafði verið fram að því voru lengingar á hengingarólum, því miður, og á því hlýtur hv. 2. þm. Norðurl. e., eins og aðrir stjórnarsinnar frá þeirri tíð, að bera fulla ábyrgð. Og svo sendum við honum kærar kveðjur og vottum honum samúð okkar með það að vera að fara á landsfund Sjálfstfl.
    Erfiðleikar þessa fólks eru miklir. Ætli ég viti ekki um það rétt á móti öðrum. M.a. þess vegna var valin sú leið á síðasta ári vegna þeirrar sérstöku og erfiðu afkomu sem þetta fólk bjó við og býr enn við því miður að veita þessa rekstrarstyrki, að forminu til sem lán en þó með það yfirlýst að þar yrði um styrki að ræða, úr Bjargráðasjóði. Það má til sanns vegar færa að þarna hafi orðið verðhrun eða áföll af því tagi að ekki sé óeðlilegt að Bjargráðasjóður komi við sögu. Og enn standa málin þannig að enn er ekki nein boðleg afkoma í þessari grein og þess vegna held ég að það sé rétt og skylt að Bjargráðasjóður haldi áfram þessum greiðslum, a.m.k. fram á mitt þetta ár. Þá höfum við uppgjör skinnaverðs á þessum vetri og þeim uppboðum sem nú standa yfir og verða á næstunni og vitum betur hvaða tekjum, vonandi, framleiðslan á þessu ári hefur skilað. Það skiptir auðvitað geysimiklu ef skinnaverð t.d. hækkar að meðaltali um 15 -- 20% við sölu á þessa árs eða síðasta árs framleiðslu. Er þá fljótt að muna talsverðum fjárhæðum, líka vegna þess að afurðalán eins og þau standa núna á bak við skinnin eru miðuð við allra lægsta verð þannig að allt sem til viðbótar kemur kemur í formi beinna peninga til uppgjörs hjá framleiðendum.
    Ég ítreka það sem ég áðan sagði um þessa aðstoð. Það má margt um hana segja. Það sem ekki hefur tekist sem skyldi er að hún hefur tekið of langan tíma.

En ég segi, það hefur verið staðið við hvert atriði sem lagt var upp í þessum aðgerðum, við hvert atriði. Það hefur verið greitt nákvæmlega það jöfnunargjald á fóður, það hafa verið greiddir nákvæmlega þeir styrkir inn í Byggðastofnun, það hafa verið greiddir nákvæmlega þeir styrkir úr Framleiðnisjóði sem ákveðið var. Það eina sem ekki hefur tekist sem skyldi er að þetta hefur gengið seint, það er rétt, og það viðurkenni ég. En því miður var það ekki í mínu valdi eins að sjá til þess að bankar, lögfræðingar, lánastofnanir, kaupfélög, fóðurstöðvar og ótal margir aðrir aðilar sem þarna áttu hlut að máli greiddu allir með nægjanlega glöðu geði fyrir því að þetta gengi hratt og vel fyrir sig. Það hefði verið æskilegt, það hefði sparað mikil sárindi og mikla erfiðleika, en því miður hefur þetta þvælst talsvert fyrir mönnum.
    Herra forseti. Ég eiginlega harma það að þurfa að tala um þessi tiltölulega viðamiklu og jafnframt að mörgu leyti erfiðu mál við svona þröngar aðstæður, að geta ekki farið yfir þetta sæmilega rólega og yfirvegað. Ég ítreka það að ég held við þurfum að taka það til skoðunar hvort rétt sé á annað borð að vera að hefja umræður um mál af þessu tagi við þennan þrönga tímaramma, ég efast eiginlega um að málinu og nokkrum sem hlut á að máli sé greiði gerður með því vegna þess að það er þá ekki hægt að ræða af skynsamlegu viti og með rökum og allra síst á það við þegar flókin og viðkvæm mál eiga í hlut.