Efndir við loðdýrabændur
Fimmtudaginn 07. mars 1991


     Stefán Guðmundsson :
    Virðulegi forseti. Vissulega get ég tekið undir það með hæstv. landbrh. að það hefði verið betri kostur að umræða um mál eins og þetta, sem hvílir svo þungt á mörgum loðdýrabóndanum í dag, hefði farið fram undir öðrum kringumstæðum. En við ráðherrann vil ég segja að það er ekki aðeins við okkur óbreytta þingmenn að sakast í því. Það hefði kannski verið ástæða til þess að ráðherra sjálfur, ráðherra þessara mála, hefði átt frumkvæði að því að hefja umræðu um þetta mál ekki síður en við þingmenn og greina frá stöðu mála. Ég verð hins vegar að segja að mínar vonir eru þær að þessi atvinnugrein eigi eftir að spjara sig eins og áætlanir og vonir okkar sem höfum stutt þessa grein frá upphafi stóðu til. Og vissulega hljótum við að gleðjast yfir því að við teljum okkur sjá aðeins bjartari tíð í vændum, en ekkert er samt öruggt í því.
    Það er ósköp létt í vasa fyrir menn að tala um að menn hafi farið á stað með einhverju offorsi og að lítt hugsuðu máli í þessari atvinnugrein. Ég held að menn þurfi, áður en þeir setjast þar í dómarasætið, að setja sig í spor þess fólks sem valdi þessa leið til að komast út úr öðrum vanda. Hver voru skilyrðin í þessari atvinnugrein þegar flestir lögðu á stað? Hver skyldi afkoman hjá þessu fólki vera í dag ef forsendur væru eitthvað í líkingu við það sem þá var? Menn hafa yfirleitt ekki flett því upp, heldur reynt að dæma þetta fólk sem afglapa sem hafi asnast út í einhverja nýja atvinnugrein. Það eru ómaklegar ásakanir.
    Það er nánast furðulegt og að mörgu leyti þrekvirki hvað íslenskir bændur voru fljótir að tileinka sér nýja atvinnustarfsemi eins og þarna var og ná langt í þessari starfsemi. En þekking í greininni var lítil hér á landi og því voru fyrstu sporin erfið. Menn voru komnir með ósýktan stofn á Íslandi, menn voru komnir með mikla frjósemi dýra, menn voru svo sannarlega á réttri leið. En mér er spurn í dag, og það er kannski erfitt fyrir mig því ekki er ég upphafsmaður þessara umræðna, en ég hefði gjarnan viljað spyrja: Er verið í dag að taka heildstætt og á samræmdan hátt á þeim vanda sem hér er við að fást? ( Gripið fram í: Í landbrn. m.a.) Í landbrn. m.a. Þetta var akkúrat svarið sem ég vissi að kæmi. Það er nefnilega málið að það er verið að vinna að lausn þessara mála á allt of mörgum stöðum. Það þarf að safna þessum endum saman og vinna þetta á miklu, miklu markvissari hátt en áður hefur verið.
    Ég ætla ekki að tala lengur enda er tíminn búinn, virðulegi forseti. Þeir sem í þessari atvinnugrein starfa og ætla að starfa áfram eiga minn stuðning vísan í þessu máli eins og þeir hafa áður haft.