Efndir við loðdýrabændur
Fimmtudaginn 07. mars 1991


     Stefán Valgeirsson :
    Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. landbrh. fyrir hans svör en ég get ekki séð að það sé búið að láta um 800 millj. kr. í loðdýraræktina og ég vil óska eftir því að fá sundurliðaða skýrslu um þá aðstoð sem þeir hafa fengið. Því var lofað og hvíslað að mönnum að ekki þyrfti að setja veð fyrir þessari ríkisábyrgð. Ég er með bréf, eða raunar upptöku af viðtalinu sem kom í útvarpinu á sunnudagsmorgun þar sem formaður loðdýraræktenda á Suðurlandi segir: ,,Ég held nú kannski að þessi ríkisábyrgðarskuldbreyting sé nú það skársta sem hefur verið gert, þ.e. ef stjórnmálamenn standa við það sem þeir hvísluðu í eyru okkar þegar þetta kom til.`` Þetta er ekki maður úr mínu kjördæmi, þetta er kjósandi á Suðurlandi.
    Það hefur ekki verið tekið á þessum málum í Búnaðarbankanum eins og þeir eru skyldugir til. Það var búið að ræða það mikið áður en þetta nýja bankaráð kom. ( GuðnÁ: Nefndu sökina.) Ég gæti nefnt ýmsa sök. Það kemur t.d. fram í þessu viðtali að einn bankastjóri Búnaðarbankans hafi vísað einum manni út og sagt að hann ætti að grafa skinnin þegar hann bað um lán til þess að geta verkað þau. Og fleiri hafa sagt þetta. Ég get lofað bankaráðsformanninum að heyra þessa upptöku ef hann vill það.
    Þetta mál er alveg óþolandi, alveg óþolandi. Það voru loforð, ég heyrði þessu hvíslað, ég heyrði því hvíslað þegar þetta var komið svona að ekki yrði gengið að mönnum sem tekið hafa á sig persónulega ábyrgð. Viðar Magnússon segir hér líka að á sama tíma og á sama hátt og sjávarútvegurinn fékk 800 milljónir á sínum tíma út af gengismálum. Það hefur nefnilega oft verið hlaupið í skarðið og hjálpað til þegar svona kemur fyrir vegna þess að það voru fyrst og fremst opinberir aðilar, ég er ekki að meina það til núv. landbrh., þetta var áður, sem hvöttu bændur til þess að selja kvótann og fara í loðdýrarækt, af ráðunautum, af ríkisstjórn, af alþingismönnum. Og þeirra er ábyrgðin. En svo er verið að eyðileggja þetta fólk. ( GuðnÁ: Sem þá voru.) Og eru. Þeir eru kannski orðnir ábyrgðarlausir núna þeir sem stjórna Búnaðarbankanum, þeir voru það ekki.
    Nei, hér verður að taka til höndum og ég veit að hæstv. landbrh. er í erfiðleikum í þessari ríkisstjórn, ég veit það. En hann á bara að segja það, hann á ekkert að vera að fela það. Þeir þingmenn sem hafa tekið hér til máls, reynið þið nú einu sinni að standa við orðin. ( Gripið fram í: Höfum við ekki gert það?) Þú hefur reynt það. En hefur þetta gengið hér í gegnum þingið? Hefur ráðherrann verið styrktur? Hvað með ríkisstjórnina? Þetta gengur ekki. Það er verið að brjóta þetta fólk niður, tvístra fjölskyldum.