Byggðastofnun
Fimmtudaginn 07. mars 1991


     Forsætisráðherra (Steingrímur Hermannsson) :
    Herra forseti. Eins og öllum hv. þm. er að sjálfsögðu kunnugt hefur jafnvægi í byggð landsins, sem svo var lengi nefnt, mjög raskast þennan síðasta áratug. Fólksflutningar milli byggða hafa verið mjög miklir, þrátt fyrir umtalsverðar opinberar aðgerðir til að sporna þar gegn, þrátt fyrir miklar aðgerðir í samgöngumálum, t.d. í vegamálum, þar sem unnið hefur verið nánast allan þennan áratug eftir langtímaáætlun og breytingar hafa orðið afar miklar á vegakerfi landsins, þrátt fyrir miklar breytingar í fjarskiptum þar sem kominn er nú, samkvæmt lögum sem samþykkt voru hér á hinu háa Alþingi í upphafi áratugarins, sjálfvirkur sími á alla bæi, og þrátt fyrir miklar umbætur í flugsamgöngum, svo að eitthvað sé nefnt.
    Af þessum ástæðum og vegna þeirrar miklu röskunar sem hefur orðið við hina miklu fólksflutninga, sem náðu hámarki sínu á árinu 1988 þegar hátt í 1600 manns fluttu af landsbyggðinni til þéttbýlisins umfram flutninga til landsbyggðarinnar, þá ákvað ég um áramótin 1989 -- 1990 að skipa nefnd til þess að skoða breyttar áherslur í byggðamálum. Niðurstaðan varð sú að ég skipaði tvær slíkar nefndir, aðra sem í sátu fulltrúar allra þingflokka og hv. alþm. Jón Helgason veitti formennsku. Sú nefnd var beðin að benda á langtíma breytta áherslu í byggðamálum. Aðra nefnd skipaði ég síðan til að skoða starfshætti Byggðastofnunar og var hv. alþm. Stefán Guðmundsson formaður hennar.
    Báðar þessar nefndir skiluðu áliti nú nýlega og reyndar sameinuðust báðar um tillögur um breytingar á lögum um Byggðastofnun sem hér eru fluttar. Í þessu frv. er gert ráð fyrir þeirri meginbreytingu að Byggðastofnun er gert skylt að gera tillögur um stefnumótandi áætlun í byggðamálum til fjögurra ára í senn og ráðherra er gert skylt að leggja slíka tillögu fyrir Alþingi til afgreiðslu. Hér er sem sagt orðin allt önnur áhersla en verið hefur því að hingað til hefur ráðherra eingöngu verið skylt að gefa skýrslu um starfsemi Byggðastofnunar. Með þessari breytingu er til þess ætlast að mörkuð verði stefna sem opinberum aðilum verður þá skylt að vinna eftir í hinum ýmsu framkvæmdum sem áhrif hafa á byggðajafnvægi í landinu. Í 1. gr. er jafnframt tekið fram að byggðaáætlun skuli endurskoða á tveggja ára fresti.
    Jafnframt er tekið fram í 2. gr. að stjórn Byggðastofnunar fjalli um umrædda stefnumótun og fylgist með framkvæmd einstakra þátta á þessari áætlun eftir að hún hefur hlotið afgreiðslu hér á hinu háa Alþingi.
    Segja má að þetta sé meginbreytingin í starfsháttum Byggðastofnunar og felst hún, eins og ég hef sagt, í því að marka þarna ákveðna stefnu. Mikilvægar breytingar koma þó fram einnig í 3. og 4. gr. þar sem gert er ráð fyrir því að flytja töluvert af starfsemi Byggðastofnunar á landsbyggðina þar sem Byggðastofnun er veitt heimild til þess að gerast aðili að atvinnuþróunarfélögum á landsbyggðinni. Er gert ráð fyrir því að í slíkum atvinnuþróunarfélögum starfi ,,sveitarfélög, samtök sveitarfélaga og launþega, atvinnufyrirtæki og aðrir aðilar sem vilja taka þátt og láta sig varða alhliða þróun og nýsköpun í atvinnulífi á viðkomandi svæði``, eins og segir í 3. gr. Í 4. gr. er gert ráð fyrir því að Byggðastofnun veiti atvinnuþróunarfélögum styrki til verkefna á vegum þeirra á sviðum þróunar og nýsköpunar í atvinnulífi á félagssvæðinu. Með þessu móti er gert ráð fyrir að þeir iðnþróunarráðgjafar sem hingað til hafa starfað samkvæmt sérstökum lögum falli inn í þessa starfsemi Byggðastofnunar og flytjist í raun þangað því að gert er ráð fyrir því að í hverju kjördæmi starfi a.m.k. einn atvinnuráðgjafi.
    Eins og ég gat um áðan skilaði einnig sú nefnd, sem falið var að fjalla um starfshætti Byggðastofnunar, áliti um svipað leyti og ítarlegum tillögum sem ég taldi rétt að láta fylgja með. Eru þær hér með sem fskj. 2 og eru nefndar nýjar leiðir í byggðamálum, tillögur og greinargerð. Eins og kemur fram í viðauka, þá gerði sú nefnd einnig ráð fyrir þeim breytingum á lögum sem ég hef nú lýst þannig að báðar nefndirnar eru sammála um þær breytingar. Auk þess eru í því nefndaráliti, sem hér fylgir með, ítarlegar upplýsingar um þróun byggða nú upp á síðkastið, þróun atvinnutækifæra í landinu og þróun mikilvægra þátta eins og t.d. fiskveiða og landbúnaðar sem áhrif hefur haft á byggðir. Og auk þess gerir sú nefnd tillögu um tíu atriði, ef ég man rétt, sem hún leggur áherslu á að sérstaklega verði höfð í huga í þeirri byggðaáætlun og byggðastarfsemi sem lögð er til með þeim breytingum á lögum um Byggðastofnun sem ég hef lýst. Í þeim tillögum kemur m.a. fram að nefndin leggur áherslu á að meira vald verði fært til héraða og samstarf sveitarfélaga aukið eins og reyndar er gert ráð fyrir í því frv. sem ég mæli hér fyrir. Hún gerir ráð fyrir því að komið verði á fót héraðsmiðstöðvum í öllum kjördæmum á landsbyggðinni. Það er einnig gert ráð fyrir því í frv. því sem ég hef mælt fyrir. Hún gerir ráð fyrir stefnumótandi áætlanagerð með virkri þátttöku heimamanna og eins og ég hef þegar lýst er það meginþátturinn í frv. um breytingar á lögum um Byggðastofnun.
    Síðan gerir nefndin tillögur um ýmsa stefnumarkandi þætti, m.a. að meiri hluti nýrra starfa í opinberri þjónustu verði til á landsbyggðinni. Vísast þar til þeirrar staðreyndar að það er fyrst og fremst á þjónustusviðinu sem störfum hefur fjölgað. Nefndin mælir með því að sveitarfélög verði sameinuð og þannig stækkuð. Hún mælir með því að atvinnuþróunarfélög verði efld og atvinnuþróunarsjóðir styrktir í kjördæmum landsbyggðarinnar. Ég hef þegar lýst því að frv. gerir ráð fyrir því að efla atvinnuþróunarfélög. Nefndin leggur áherslu á jöfnun raforkuverðs og sameiningu orkufyrirtækja. Jöfnun raforkuverðs hefur verið mjög til umræðu og er áreiðanlega eitt af allra stærstu málum til jafnvægis í byggð landsins og til að jafna framfærslukostnað um landið. Ég hef áður iðulega lýst því að það á vitanlega ekki að vera neitt stórmál að jafna raforkuverð fremur en ýmislegt annað sem jafnað er. Sérstök nefnd á vegum iðnrh. hefur unnið að þessu verkefni og geri ég ráð fyrir því að fram komi

fljótlega till. til þál. um mörkun stefnu til jöfnunar á orku til upphitunar sem þáttur og mjög mikilvægur þáttur í jöfnun raforkuverðs.
    Þá gerir nefndin ráð fyrir því að farþegaflutningar verði endurskoðaðir og samræmdir betur heldur en verið hefur um landsbyggðina. Hygg ég að flestum muni ljóst vera að það er mjög mikilvægt mál. Nefndin leggur áherslu á það að byggðasjónarmiða verði gætt í almennri efnahagsstjórn. Þess ber að sjálfsögðu að gæta þegar stefna í byggðamálum hefur verið mótuð af Byggðastofnun og staðfest á hinu háa Alþingi. Nefndin gerir ráð fyrir því að fjárhagur Byggðastofnunar verði efldur. Ég vil gera grein fyrir því hér að ég geri fastlega ráð fyrir að á ríkisstjórnarfundi í fyrramálið verði ákveðið hvernig sú heimild verður notuð sem er í 6. gr. fjárlaga fyrir ríkissjóð að taka yfir skuldir Byggðastofnunar við Framkvæmdasjóð sem létti greiðslubyrði stofnunarinnar. Ég hef gert ráð fyrir því að teknar verði yfir skuldir sem létta árlega greiðslubyrði um 350 -- 400 millj. kr. sem þýðir þá að framlag til Byggðastofnunar meira en þrefaldast frá því sem það hefur verið undanfarin ár. Ekki veitir af í þeim stórkostlegu verkefnum sem Byggðastofnun hefur orðið að taka á sínar herðar.
    Ég skal ekki, herra forseti, hafa um þetta lengri framsögu. Þótt freistandi væri að fara ítarlega út í byggðamálin og það mál sem hér liggur fyrir er ekki tíminn til þess nú. Vil ég gera að tillögu minni að að lokinni þessari umr. verði málinu vísað til hv. allshn. Ég vil aðeins geta þess áður en ég fer úr ræðustól að um það var beðið í Ed. að kostnaðarmat hagsýslu fylgdi þessu frv. og ég hef gert ráðstafanir til þess að kostnaðarmat fáist og komi til nefndarinnar strax á morgun.