Byggðastofnun
Fimmtudaginn 07. mars 1991


     Alexander Stefánsson :
    Herra forseti. Ég vona að fámenni hv. þm. hér í hv. deild boði ekki það að þeir séu búnir að missa áhugann fyrir byggðamálum. Það megi ekki líta svo á. Hér er eitt þýðingarmesta mál í byggðaþróun á Íslandi til umræðu og ég skal ekki tefja umræður hér í þessum tímaþrengslum, en ég vil aðeins lýsa því yfir að ég fagna þessu frv. sem hér er komið fram. Í því eru nokkur nýmæli og meiri samþjöppun á því hvernig væri hugsanlegt að ná árangri í þessum málum með breytingum á Byggðastofnun og eins þeim áhersluatriðum sem þessar nefndir hafa sérstaklega bent á. Þess vegna fagna ég því að það skuli vera komið hér fram og vænti þess að hv. Alþingi geri allt sem hægt er til þess að reyna að gera þetta að lögum áður en þing fer heim þó tími sé naumur.
    Ég vil aðeins leggja áherslu á það að mér finnst tillögur síðari nefndarinnar, sem skilaði greinargóðri tillögu um skipulag Byggðastofnunar og fyrstu aðgerðir í byggðamálum, mjög mikilvægar og taka á þeim málum sem mest brennur á raunar í þessu skipulagi öllu. Það er náttúrlega alveg ljóst að jöfnun raforkuverðs og sameining orkufyrirtækja er búið að vera viðfangsefni margra ríkisstjórna á undanförnum árum. Það hafa verið settar mjög ákveðnar skoðanir þar fram, bæði af einstökum flokkum og eins af ríkisstjórn. Þetta er mál sem því miður hefur ekki gengið nógu vel fram og ég verð að harma það.
    Hér er tekið sterkt til orða í fyrstu aðgerðum frá þessari ágætu nefnd og ég tel að menn hljóti að sameinast um það að því verði fylgt eftir. En það sem mestu máli skiptir í nútíðinni er það að fjárhagur Byggðastofnunar verði efldur og Byggðastofnun fái aukið rými til þess að grípa inn í þessi mál og móta þau til betri vegar til styrktar byggðum í landinu. Það er mál númer eitt, tvö og þrjú. Liður í þessu var heimild í 6. gr. fjárlaga til þess a.m.k. að létta af Byggðastofnun þeim skuldbindingum sem hún hefur orðið að taka á sig. Mér finnst það mikilvægt, eins og hæstv. forsrh. nefndi, að á ríkisstjórnarfundi á morgun eða næstu daga verði tekin ákvörðun um hvernig nýta skuli þessa heimild því að það er þó alla vega viljayfirlýsing Alþingis sem fyrir liggur og því hægt að grípa til þeirra aðgerða nú þegar.
    Að öðru leyti vil ég aðeins endurtaka það sem ég sagði, að þetta er eitt stærsta mál sem við þurfum að fjalla um. Ég vona að fjarvera hv. þm. við umræður um þetta mál tákni ekki að menn hafi ekki fullan áhuga og beiti atkvæði sínu til þess að þetta verði að veruleika, a.m.k. þetta skref sem hér er stigið.