Lax- og silungsveiði
Fimmtudaginn 07. mars 1991


     Flm. (Jón Sæmundur Sigurjónsson) :
    Virðulegi forseti. Ég flyt hér frv. til laga um breytingu á lögum nr. 76/1970, um lax- og silungsveiði.
    Tilefni flutnings þessa frumvarps er það að í lögunum um lax- og silungsveiði frá 1970 var landbrh. heimilað að setja reglur um silungsveiði í sjó. Þessa heimild nýtti ráðherra sér þó ekki fyrr en 2. ágúst 1989, en þá voru settar reglur sem veiðiréttareigendur við sjó töldu mjög óhagstæðar sínum hagsmunum. Var reglunum harðlega mótmælt og mótmælalistar með nöfnum 347 manna, sem flestir eru búsettir á Norðurlandi vestra og eystra en einnig á Vesturlandi og eiga veiðirétt í sjó, afhentir landbrh.
    Þessar reglur voru að margra áliti nokkuð fljótfærnislega gerðar og sum ákvæði þeirra óskýr. Það ásamt mótmælum landeigenda við sjóinn mun hafa orðið til þess að ráðherra sá sér ekki annað fært en að nema reglurnar úr gildi 4. maí 1990. Á undan var gengið að sá sem hér stendur flutti fsp. til landbrh. vegna netaveiði göngusilungs í sjó og var þar spurt hvort ætlunin hefði verið með setningu þessara reglna, um netaveiði göngusilungs í sjó, að koma í veg fyrir slíkan veiðiskap, enda voru reglurnar þess eðlis að slíkt hefði mátt ætla.
    Einnig var spurt hvort búast mætti við að nýjar reglur yrðu settar og þá auðvitað í samráði við eigendur og ábúendur sjávarjarða. Landbrh. tók mjög vel í þessa málaleitan og lofaði því að setja nýjar reglur um netaveiði göngusilungs og mundi hann þá hafa samráð við eigendur og ábúendur sjávarjarða. Í niðurlagsorðum mínum við svari landbrh. sagði ég að sýnt hefði verið fram á að reglurnar sem settar voru í sumar hefðu þrengt verulega gildandi lög. Mér dettur ekki í hug að fara að elta ólar við þessar gömlu reglur sérstaklega í ljósi þess að hæstv. ráðherra lýsti því yfir að fyrirhugað sé að nýjar reglur verði settar og þá í samráði við ábúendur og eigendur sjávarjarða og alla þá sem máli skipta. Ég fagnaði þessari yfirlýsingu ráðherra og þakkaði hæstv. landbrh. fyrir greinargóð svör að þessu leyti.
    Veiðieigendur við sjó höfðu brugðist ókvæða við, eins og ég sagði áðan, með því að afhenda landbrh. lista 347 manna. Í viðtali við Ólaf bónda Þórhallsson frá Ánastöðum í Morgunblaðinu miðvikudaginn 29. nóvember 1989 segir Ólafur, með leyfi hæstv. forseta: ,, . . . að landeigendur hafi mjög lengi haft rétt til veiða 60 faðma (115 metra) út frá stórstraumsfjöruborði og hafi reglan verið lögfest með konungstilskipun árið 1849. ,,Þessi réttur var fyrst skertur árið 1933, þegar lög um lax- og silungsveiði voru sett. Þá var bannað að veiða lax í sjó,`` sagði Ólafur. ,,Næsta skerðing var 1970, þegar bannað var að hafa silunganet í sjó nema hálfa vikuna. Bændur fengu engar bætur fyrir þennan réttindamissi og nú í sumar kastaði tólfunum, þegar landbrh. setti reglugerð, sem kveður á um að aðeins megi nota silunganet sem eru með 0,3 millimetra þykku garni. Þetta garn er svo ónýtt að það dettur engum manni í hug að setja slík net í sjó. Þau flækjast og rifna mjög auðveldlega.``

    Ólafur kvaðst telja að reglugerð þessi hefði verið sett þar sem ýmsir hefðu haldið því fram að bændur veiddu lax í silunganetin. ,,Hugmyndir um svona takmarkanir silungaveiði hafa alltaf komið upp þegar laxveiði í ám hefur brugðist,`` sagði hann. ,,Þess vegna eiga bændur nú að nota net sem halda tæpast smærri silungum. Menn virðast ekki treysta sér til að afnema lögin, heldur fara krókaleiðir til að klípa smám saman af réttindum landeigenda.``
    Ólafur sagði að annað ákvæði reglugerðarinnar hefði vakið mikla óánægju. Þar væri kveðið á um að net megi ekki vera meira en 50 metra langt, miðað við efsta flóðmál. Því væri enn klipið af réttindum landeigenda og í þokkabót væri ekki einu sinni miðað við fastan punkt. Loks hefði verið tekið fyrir veiðar á færi og stöng.
    Landbrh. brást tiltölulega vel við og breytti þessum reglum en því miður voru breytingarnar flestar í skötulíki og ekki þess eðlis að til friðar horfði. Samráðið, sem lofað var að ætti að hafa við landeigendur, sjávarbændur og alla þá sem málið skipti, eins og kom fram í fyrirspurnartímanum, var ekki meira en svo að það var hringt í einn bóndann í svo sem 10 mínútur og reglurnar voru lesnar upp fyrir hann og honum sagt að þetta væru hinar nýju reglur. Þetta var allt samráðið.
    Það verður að segja þá sögu eins og hún er að þessar nýju reglur horfðu ekki til þess að friða þá sem málið skipti þannig að það var verr af stað farið mátti segja með setningu þessara reglna, eins og kom fram á fundi Sóknar, félags veiðiréttareigenda við sjó og stöðuvötn í Vestur-Húnavatnssýslu, sem haldinn var á Hvammstanga 7. ágúst 1990. En þar voru hinar nýju reglur sem voru settar 4. maí 1990 til umfjöllunar. Þá segir fundurinn:
    ,,Við skorum á landbrh. og alþingismenn að þeir sjái til þess að reglur nr. 205, um silungsveiði í sjó, verði felldar úr gildi þar sem nú þegar hefur komið í ljós að reglur þessar eru gagnslausar. Þær hafa einungis valdið úlfúð og illindum milli manna. Þá gerir fundurinn þá eindregnu kröfu til sömu aðila að veiðiréttareigendur við sjávarsíðuna fái að hafa hönd í bagga og koma sínum sjónarmiðum á framfæri verði breytingar gerðar á veiðilögunum eða ný reglugerð samin um það efni. Einnig lýsir fundurinn furðu sinni á því siðleysi sem í því felst að veiðiverðir við Miðfjarðará hafi heimild til veiðivörslu við strendur Miðfjarðar og Vatnsness, þar sem þeim er stjórnað af ráðamönnum í veiðifélaginu um ána og þiggja laun sín, a.m.k. að hluta, frá sama félagi.``
    Við sama tækifæri var samþykkt önnur áskorun á þessum fundi þar sem segir, með leyfi forseta:
    ,,Fundurinn mótmælir harðlega upptöku silunganeta, sem tekin voru úr sjó við Miðfjörð nóttina milli 25. og 26. júlí sl., af veiðiverði Miðfjarðarár og lögreglunni í Húnavatnssýslu. Telja eigendur netanna að þau hafi flest uppfyllt þær kröfur sem reglugerð nr. 205, svo slæm sem hún er, frá 4. maí 1990, gerir til slíkra neta. Fundurinn gerir þá kröfu til lögreglunnar og veiðivarðar að eigendum netanna verði gerð skýr

grein fyrir því sem þessir aðilar telja að ábótavant hafi verið við netin og útbúnað þeirra. Að öðrum kosti verði netin afhent réttum eigendum og þeir beðnir afsökunar á þessu frumhlaupi fyrrnefndra aðila. Einnig hlýtur það að bera vott um brenglað siðferðismat þegar veiðivörður hefur sér til aðstoðar við netaupptöku landeigendur við Miðfjarðará og jafnvel stjórnarmenn í hagsmunafélagi veiðiréttareigenda við ána.``
    Það er skemmst frá því að segja að þessum netum hefur ekki enn verið skilað og ekkert samband haft við eigendur netanna hvorki á einn né annan hátt.
    Eins og málum var komið eftir þessa atburði alla við hinar nýju reglur, sem greinilega dugðu ekki nokkurn skapaðan hlut, var ekki um annað að ræða en að leggja til atlögu og biðja um það að lögunum sjálfum yrði breytt. Eins og sést á frv. sem hér hefur verið lagt fram þá er megintilgangur frv. sá að draga saman flestar þær greinar í lagabálknum sem varða veiði á göngusilungi í sjó og þær settar allar í einn kafla laganna. Hinar nýju greinar sem koma í þann kafla eru flestallar kunnuglegar, enda eru þær flestallar úr lögunum sjálfum nema hvað þær koma héðan og þaðan. Stór hluti frv. varðar því það að fella á brott þær greinar sem eru á víð og dreif um frv.
    Allt frá fyrstu öldum byggðar á Íslandi hafa það verið lög hér á landi að landeigendur við sjó eigi einkarétt til veiða fyrir sínu landi. Í lögum frá þjóðveldistímanum segir að almenningur megi aðeins veiða fyrir utan netlög. ,,En það eru netlög yst er 20 möskva djúp selanót nær til botns á fjöru og komi þá flár upp,`` segir í hinum gömlu lögum. Þetta er óbreytt í Jónsbókarlögum og var þetta lagaákvæði Jónsbókar í gildi allt fram um miðja 19. öld. Það mun svo hafa verið með tilskipun konungs um veiði á Íslandi frá 20. júní 1849 að stærð netlaga var ákveðin tiltekin fjarlægð út frá stórstraumsfjöruborði, án tillits til aðdýpis, 60 faðmar, sbr. 3. gr. tilskipunarinnar.
    Þessu lagaákvæði, um að hverri jörð fylgi réttur til veiða 60 faðma út frá stórstraumsfjöruborði, hefur löggjafinn ekki enn þá séð sér fært að breyta. Hins vegar hafa á seinni árum verið hafðir í frammi ýmsir tilburðir til þess að skerða þennan veiðirétt landeigenda í netlögunum. Þær aðgerðir hafa oft verið réttlættar með því að hagsmunir almennings krefðust þess að svo væri gjört. Þessar skerðingar hefjast fyrst árið 1933. Þá ganga í gildi lög sem banna laxveiði í sjó. Þó fengu nokkrir bændur, er þessar veiðar höfðu stundað, að halda þeim áfram en aðrir fengu einhverjar bætur fyrir að hætta þessum veiðiskap. Þar sem laxveiði hafði ekki verið talin til tekna misstu landeigendur laxveiðiréttinn um alla framtíð. Er þetta upphaf þess sjónarmiðs margra þeirra er ráðið hafa veiðimálum að veiðiréttur falli niður ef veiði er ekki stunduð á jörðinni. Varla getur það staðist að réttindi sem fylgt hafa jörð um margar aldir falli niður þó þau hafi ekki verið notuð um tíma. Flestum bændum er það mikið áhugamál að réttindi jarða þeirra séu í engu skert og á það ekki síst við um hlunnindi sem fylgt hafa jörðunum frá ómunatíð.
    Lögunum um bann við laxveiði í sjó var á sínum

tíma ekki svo mjög mótmælt þar sem fáir stunduðu þá veiði. Suma mun þó hafa grunað að þetta væri aðeins upphaf frekari skerðingar. Það kom líka á daginn því árið 1970 var bannað með lögum að veiða silung í sjó hálfa vikuna, þ.e. frá föstudagskvöldi til þriðjudagsmorguns. Þeir sem stóðu að þessari lagasetningu og þar með skerðingu veiðiréttar sögðu þetta gert til þess að hindra ofveiði silungsstofnsins og einnig til að minnka líkur á ólöglegri laxveiði í sjó. Landeigendur við sjóinn álíta á hinn bóginn þetta helgarbann gróflega eignaupptöku og að það geti varla staðist vegna ákvæðis 67. gr. stjórnarskrárinnar um friðhelgi eignarréttar.
    Ég hef nú gert stuttlega grein fyrir því hvernig réttindi til veiða í netlögum í sjó hafa smátt og smátt verið skert síðustu áratugina og þó mest silungsveiðin með lagabreytingunni 1970 og reglunum sem settar voru 4. maí 1990.
    Hver skyldi nú vera ástæðan fyrir því að löggjafinn hefur lagt svo mikið kapp á að rýra möguleika til silungsveiði í sjó og því skyldi skrefið ekki hafa verið stigið til fulls og öll silungsveiði þar bönnuð? Fyrst er þess að geta að löngum hafa þeir, sem átt hafa veiðirétt í ánum, verið hræddir um að strandbúar veiddu fisk sem annars mundi ganga í árnar. Áreigendur hafa einkum á síðari árum haft vel skipulögð samtök og mikið fjármagn er þeim hefur hlotnast með sölu á veiðileyfum sem stöðugt hafa hækkað í verði. Þeir hafa því haft góða aðstöðu til að hafa áhrif á löggjafann sér til hagsbóta. Á hinn bóginn hafa þeir sem veiðirétt eiga með ströndum landsins verið sundraðir og forustulitlir og skort fé til að hamla gegn ásælni áreigenda. Þá hafa stofnanir á vegum ríkisins, svo sem Veiðimálastofnun, látið sig litlu varða hagsmuni strandbúa en stutt þeim mun betur við bakið á áreigendum.
    Það sem nú hefur verið nefnt ásamt ýmsu fleiru sem ekki verður hér tíundað hefur orðið til þess að strandbúar hafa misst stóran hluta þess veiðiréttar sem þeir áður höfðu. Það er ekki ólíklegt að búið væri að afnema veiðiréttinn í netlögunum ef valdamenn hefðu ekki vegna ákvæða stjórnarskrárinnar um friðhelgi eignarréttar veigrað sér við að afnema þessi aldagömlu réttindi að fullu. Frá sjónarmiði margra veiðiréttareigenda við sjóinn er nú mælirinn fullur og ekki um annað að ræða en að reyna með einhverjum ráðum að endurheimta töpuð réttindi. Það er reynt að nokkru leyti með flutningi þessa frv.
    Það þarf því engan að undra þótt fólkinu við sjóinn verði fyrst hugsað til fulltrúa sinna á Alþingi og vænti þess að þeir rétti þess hag svo mjög sem hefur verið að því vegið. Þeir eiga líka samkvæmt áliti flestra að rétta hlut þeirra sem verða fyrir skakkaföllum í samkeppninni um lífsgæðin.
    Svo er nú komið mjög víða við strendur landsins að silungurinn er það eina sem hægt er að veiða í netlögunum. Hrognkelsin eru mjög víða hætt að ganga upp að ströndinni þar sem áður var góð veiði.
Selveiði er tilgangslaust að stunda vegna aðgerða ofstækissamtaka úti í löndum sem gert hafa selskinnin

verðlaus.
    Eins og öllum er kunnugt um hafa miklir erfiðleikar gengið yfir íslenskan landbúnað síðari árin, aðallega vegna sölutregðu og verðfalls á afurðum hans erlendis. Vegna þess hefur orðið að skerða mikið framleiðslurétt bænda. Reynt hefur verið að koma á fót nýjum búgreinum svo sem loðdýrarækt og fiskeldi og voru nokkrar vonir bundnar við að sú starfsemi gæti að einhverju leyti komið í stað hinna hefðbundnu greina. Skemmst er frá því að segja að þessi starfsemi hefur algjörlega brugðist vonum manna þrátt fyrir mikinn fjáraustur til þeirra af almannafé. Það er því miður allt með endemum og mikil raunasaga. Betur hefur þó tekist til með þjónustu við ferðamenn og aukna nýtingu hlunninda. Þetta hvort tveggja lofar góðu, þó enn sé í smáum stíl.
    Það er von okkar með flutningi þessa frv., ef að lögum verður, að það geti orðið þessum tveim síðarnefndu greinum til nokkurs framdráttar. Má í því sambandi benda á þann möguleika að bændur við sjóinn kæmu sér upp sumarhúsum sem þeir síðan leigðu ferðamönnum og fylgdi veiði í netlögunum, t.d. í eitt net. Með hliðsjón af þessum möguleika er í frv. lagt til að veiðitími í netlögunum verði lengdur frá því sem nú er. Þar með væri hægt að ná nokkrum jöfnuði á aðstöðu bænda við sjávarsíðuna við þá yfirburða aðstöðu sem bændur við ár og vötn njóta í sambandi við ferðamennsku til sveita.
    Það vekur nokkra undrun hve mikið ofurkapp sumir forráðamenn veiðifélaga við árnar leggja á það að gera hlut fólksins við sjóinn sem verstan. Þessir menn ættu þó að geta unað glaðir við sitt. Ekki er hlutur þeirra svo lítill ef marka má þær tölur sem gefnar eru upp um verð laxa upp úr ám. Sagt er að greiðsla fyrir hvern veiddan lax sé oft ekki undir 10.000 kr. Þessir menn hafa heldur ekki þurft að greiða virðisaukaskatt af seldum veiðileyfum og búmark þeirra bænda sem hafa miklar tekjur af laxveiðihlunnindum hefur þess vegna heldur ekki verið skert. Það er heldur ekki farið fram á það að búmark bænda sem njóta hlunninda verði skert. Það biður ekki nokkur maður um það. Hér er einungis verið að tryggja réttindi sjávarbænda, ekki verið að taka frá neinum öðrum. Þess vegna hefur fólkið við sjávarsíðuna ekki skilning á þeim ofstopa sem það mætir frá kollegum þess upp við árnar.
    Það hefur tíðkast nokkuð á síðustu árum að veiðifélög við ár ráði til sín veiðieftirlitsmenn og fái landbrn. til að gefa út fyrir þá starfsleyfi sem ná langt út fyrir vatnasvæði ánna. Ekki verður annað séð en þessi starfsleyfi séu háð því skilyrði að viðkomandi veiðifélag greiði kaup eftirlitsmanna að fullu. Þannig segir í bréfi frá landbrn. til veiðivarðar sem ráðinn var að Miðfjarðará á sl. sumri, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Með vísan til 89. og 90. gr. laga nr. 76/1970, um lax- og silungsveiði, og að fengnum meðmælum veiðimálastjóra skipar ráðuneytið yður eftirlitsmann með veiði á laxi og silungi á vatnasvæði Miðfjarðarár og við sjávarströnd Miðfjarðar og í sjó við Vatnsnes í Vestur-Húnavatnssýslu um veiðitímann 1990 enda sjái

Veiðifélag Miðfirðinga um greiðslu launa og annars kostnaðar er kann að leiða af eftirlitinu.``
    Það kemur sem sagt alveg greinilega fram í þessu bréfi að einungis öðrum aðilanum að veiði við þetta landsvæði er gert að greiða laun og annan kostnað af störfum þessa manns. Þá má leiða að því líkur að bændum við sjávarsíðuna finnist á sig hallað, þeim finnist að verið sé að siga á sig launuðum eftirlitsmönnum einungis annars aðilans. Það samrýmist illa réttlætiskennd vonandi flestra Íslendinga að fjársterkir aðilar geti þannig í skjóli valda og fjármagns keypt sér vikapilta til þess að annast það sem þeir sjálfir kalla löggæslu. Ekki þarf að útskýra frekar til hvers konar ástands það mundi leiða ef slík starfsemi fengi að þróast eftirlitslítið í framtíðinni, svo ekki sé talað um það ef slík tilhögun mundi gerð að almennri reglu í þjóðfélaginu.
    Þegar Alþingi setur lög um friðun dýra, fugla eða fiska, taka þau lög til alls landsins. Aðstæður eru mismunandi. Sums staðar er ekki hægt að leggja net fyrir silung í sjó ef eitthvað er að veðri, t.d. má ekkert kula svo net komi ekki upp eða fyllist mori eins og á Vatnsnesinu. Annað á við ár eða vötn sem liggja innan lands. Friðunarreglur eru fyrst og fremst settar til þess að viðhalda viðkomandi tegund og því beinlínis settar eigendum hlunninda eða notendum veiðiréttar til gagns. Þetta sjónarmið er yfirleitt viðurkennt.
    Lífsferill sjávarsilungs er nú einu sinni þannig að hann hrygnir í ám og gengur svo til sjávar í fæðuleit og til vaxtar. Það er mjög óeðlilegt að einungis þeim aðilum sem búa við hrygningarstöðvar skuli leyft að veiða viðkomandi fisktegund. En heyrst hefur að áreigendur hafi farið fram á að bönnuð skuli öll veiði silungs í sjó. Það er yfirleitt þannig að þar sem fiskurinn gengur í fæðuleit, þar er hann veiddur en ekki þar sem hann gengur til hrygningar. Þó er leitað hér miðlunarlausnar sem báðir geta verið ánægðir með, þ.e. að ákveðnar reglur gildi um veiði í sjó og ákveðnar reglur gildi um veiði í ám og vötnum. Þess vegna er það til hags báðum aðilum að viðhald stofnsins sé tryggt, en það verður aðeins tryggt með friðunaraðgerðum. Það má segja að veðurguðirnir séu bestu friðunaraðilarnir með veiði í sjó. Þessar friðunaraðgerðir ganga auðvitað misjafnlega langt, en séu þær fyrst og fremst gerðar með það markmið í huga að tryggja hæfilega nýtingu veiði eða hlunninda eru þær ekki andsnúnar eignarréttarákvæðum stjórnarskrárinnar, heldur beinlínis þeim til framdráttar.
    Virðulegi forseti. Það er skilmerkilega gerð grein fyrir athugasemdum við einstakar greinar í frv. sjálfu og mun ég ekki fara sérstaklega ofan í einstaka liði þess eins og það liggur fyrir. Ég vil einungis leggja til að að lokinni þessari umræðu verði málinu vísað til hv. landbn. og til 2. umr.