Lax- og silungsveiði
Fimmtudaginn 07. mars 1991


     Guðni Ágústsson :
    Hæstv. forseti. Mér virðist það frv. sem hér er til umræðu bera merki fljótræðis og að hv. flm. hafi ekki leitað sér þeirra upplýsinga sem skapa víðsýni og þekkingu á viðkvæmum málaflokki. Frv. er allt einhliða og á köflum mjög þversagnarkennt, enda segir 2. flm., hv. þm. Ragnar Arnalds, á bls. 4 í frv., með leyfi forseta, að hann leggi ,,áherslu á að réttarstaða þeirra, sem eiga land að sjó, þurfi að vera skýrari en hefur þó fyrirvara um viss atriði í frv. og greinargerð þess enda gafst skammur tími til að samræma sjónarmið áður en frv. var lagt fram.`` Hv. þm. þykir ástæða til þess að bera af sér blak hvað greinargerðina varðar einnig.
    Mig langar til að fara yfir þetta frv. nokkrum orðum. Mér sýnist ljóst að ef það yrði að lögum hefði það einkum þrennt í för með sér. Í fyrsta lagi mundi raskast það samræmi sem ríkt hefur í allt að því 60 ár milli ákvæða um silungsveiði í sjó annars vegar og í fersku vatni hins vegar.
    Í öðru lagi yrði réttur til netaveiða á silungi í sjó verulega rýmkaður en aftur á móti dregið úr heimildum til stangarveiði.
    Í þriðja lagi mundu möguleikar til eftirlits með netaveiði í sjó skerðast verulega og eftirlitsmönnum gert nær því ómögulegt að sinna starfi sínu.
    Ef ég skoða einstaka liði frv. þá er það svo að allt frá því að lax- og silungsveiðilögin gengu í gildi árið 1933 hefur sú meginregla gilt að bannað er að veiða lax í sjó og að um silungsveiðar þar skuli gilda sömu ákvæði og um veiði í fersku vatni eftir því sem unnt er. Þetta fyrirkomulag hefur gefið góða raun og ég fullyrði að bannið við sjávarveiði á laxi er meginforsenda þess hve ástand laxastofna hér er betra en í nágrannalöndum okkar.
    Hvað göngusilunginn varðar er nú vitað að gönguhegðun hans er frábrugðin laxagöngum. Silungur er veiðanlegur mun lengri hluta ársins en lax og lagnir nærri árósum yrðu honum mjög skæðar. Eins telja fiskifræðingar nú að einstakir silungsstofnar séu yfirleitt smáir og lítið þurfi út af að bera til þess að setja þá í verulega hættu.
    Á mörgum stöðum hérlendis er sami silungsstofninn nýttur bæði í fersku vatni og söltu. Þar má til nefna Eyjafjörð, Skagafjörð, Húnavatnssýslur, Borgarfjörð og fleiri svæði. Víðast hvar hefur ríkt þokkalegur friður um þessar veiðar sem hefur byggst á því að veiðireglur hafa eftir föngum verið þær sömu fyrir veiði í söltu og fersku vatni, svo sem ákvæði um friðunartíma og veiðarfæri. Þá hafa menn og jafnað saman frátöfum á veiði af völdum sjávargangs annars vegar og flóðum og áreki í vatnsföllum hins vegar. Tillögur um að auka einhliða rétt til veiða í sjó sýnast vísvitandi tilraun til að spilla samkomulagi sjávarveiðibænda og þeirra er við árnar búa, sem ég teldi slæman kost. Auk þess setur aukið veiðálag silungsstofna í hættu.
    Frv. leggur til að rýmkaðar séu á ýmsan hátt heimildir til netaveiði á silungi í sjó. Eftirtaldar breytingar yrðu:
    1. Vikufriðunartími styttist um einn sólarhring, úr 84 klukkustundum í 60 klukkustundir á viku.
    2. Hámarkslengd neta í hverri lögn er aukin úr 50 metrum í 115 metra.
    3. Hámarksstærð möskva í neti er aukin úr 45 mm í 50 mm milli hnúta.
    4. Efnisþykkt girnis í neti er aukin úr 0,4 mm í 0,5 mm.
    Friðunarsvæði við árósa eru minnkuð úr 1000 -- 2000 m niður í 500 m og bundin því skilyrði að fiskur gangi í það vatn. Eins geta eigendur vatnsfalls fellt þessi friðunarákvæði úr gildi með einfaldri meirihlutasamþykkt samkvæmt frv.
    Þá eru ákvæði um bil milli neta einnig rýmkuð nokkuð.
    Hvað fyrstu tvo liðina varðar er veiðitími á viku aukinn um 28% en leyfilegt flatarmál neta um 130%. Þarna eru veiðimöguleikar í sjó auknir svo mjög að óviðunandi er. Slíkt mundi skapa hættu fyrir silungsstofninn hvort heldur sem á málið er litið frá því jafnstöðusjónarmiði sem ríkt hefur hingað til á milli veiða í sjó og í fersku vatni eða sé málið skoðað út frá veiðiþoli fiskstofnanna.
    Hvað liði c og d í frv. áhrærir má rökstyðja að net með grófara girni þoli betur sjógang. En eins má líta svo á að þannig net yrðu veiðnari á stærri og sterkari fisk en þau efnisminni. Hvað varðar stækkun á möskva er bersýnilegt að aukin stærð hentar til veiði á stærri fiski. Þarna er bæði efnisþykkt og möskvastærð komin upp í þá flokka sem annars eru notaðir til veiða á laxi, komin upp í þá stærð sem notuð eru til veiða á laxi, þar sem slíkt er heimilt. Nú er vitað að lax veiðist sums staðar í silunganet í sjó, t.d. fyrir vestanverðu Norðurlandi. Ekki kemur mönnum saman um í hve miklum mæli það gerist enda liggja heimildir um slíkt ekki á lausu. Hitt er ljóst að fyrir þá sem laxveiði eiga í nærliggjandi ám liggur beint við að álykta að megintilgangur framanskráðra brtt. sé sá að auðvelda og auka ólöglega veiði á laxi í sjó, jafnframt því að torvelda eftirlit með slíkri veiði. Það er erfitt að útskýra þá ásókn sem oft hefur ríkt um stækkun möskvans á annan hátt.
    Mín skoðun er sú að til veiða á göngusilungi í sjó henti best mun minni möskvar en 50 mm. Þarna er þó erfitt að fullyrða neitt þar sem sjávarveiðibændur hafa hingað til ekki talið sér henta að fylgja lagafyrirmælum um að halda skuli skýrslur um veiði og senda til Veiðimálastofnunar. Heimildir skortir því um meðalstærð veiddra fiska.
    Frv. gerir ráð fyrir algjöru banni á stangarveiði á silungi í sjó. Glöggt má sjá á greinargerð með frv. að orðalagið ,,að skilja veiðirétt við landareign`` er þar notað um að selja hlunnindi þessi á leigu. Þetta orðalag er enn óbreytt í gildandi lögum. Einmitt þessi nýtingaraðferð er nú í vexti m.a. í tengslum við vaxandi ferðaþjónustu bænda og gefur góða raun. Sætir því furðu að flm. vilji banna slíkt.
    Hvað varðar e-liðinn verður að geta þess að friðunarsvæðum þessum er ætlað að vernda fiskstofninn

fyrir ofveiði. Eins og áður er að vikið gengur silungur oftar milli sjávar og fersks vatns en lax. Einnig heldur hann sig alfarið nálægt ströndum og helst nálægt sínu heimavatni. Því eru lagnir í grennd við árósana honum mjög skæðar. Einnig er vitað að fiskur safnast oft að ósum vatnsfalla, þó svo hann gangi ekki upp í vatnið. Því eykur það hættu á ofveiði að leyfa net nálægt slíkum ósum. Eins má álykta að eigendur fisklausra vatnsfalla sem fiskur safnast að muni gjarnan fella öll friðunarákvæði úr gildi og heimila lagnir allt að ósum ef þeir mættu. Þá eykst enn ofveiðiáhættan. Þá ber og þess að geta að lagnir með netum af þeirri gerð sem að framan er lýst geta hæglega veitt lax og því frekar sem þau eru nær ósum heimaáa.
    Hvað veiðieftirlit varðar er frv. allt hið furðulegasta að mínu mati. Í f-lið 6. gr. er þess fyrst getið að löggæslumenn ríkisins skuli hafa eftirlit með silungsveiði í sjó. Hingað til hefur það verið almennur skilningur að þessi löggæsla væri sjálfkrafa innan þeirra verksviðs svo sem önnur löggæsla. Því liggur beinast við að skilja framangreint ákvæði svo að þeim einum skuli slík löggæsla heimil. Ýmis atriði í greinargerð flm. benda einnig til þessa.
    Núverandi fyrirkomulag þessara mála er á þann veg að ráðherra skipar eftirlitsmann með veiði þar sem þurfa þykir. Um tölu þeirra og skipan skal leita umsagnar veiðimálastjóra. Kaup þeirra greiðist að hálfu úr ríkissjóði en að hálfu úr sýslusjóði eða sýslusjóðum. Enn fremur má ráðherra skipa eftirlitsmenn með veiði þar sem sérstaklega stendur á, enda æski eigendur og/eða notendur veiði þess og greiði kostnaðinn. Greinilegt er af ákvæðum laganna að eftirlitsmönnum þessum er ætlað að fylgjast með allri veiði í umdæmum sínum, jafnt við sjávarstrendur sem í ám og vötnum. Helst virðast þó flm. ætla að banna þessum aðilum eftirlit með sjávarveiði. Í þess stað skal ráðherra heimilt að skipa sérstaka eftirlitsmenn með sjávarveiði en hafa skal hann um það samráð við notendur veiði á svæðinu. Þar sýnist því ætlunin að það sé algjörlega undir þeim komið
sem líta skal eftir hvort eftirlitsmaður sé skipaður eða ekki. Það verður að teljast nokkuð óvenjulegt.
    Þá er það fram tekið í frv. að eftirlitsmenn skuli hafa frjálsa för með sjó á svæðinu eftir því sem þörf krefur. Í gildandi lögum stendur að eftirlitsmenn skuli hafa frjálsa för um veiðivatn og meðfram því eftir því sem þörf krefur. Ekki er lagt til í frv. að þessu ákvæði sé breytt, 4. tölul. 89. gr. Þarna verða lögin því í mótsögn við sjálf sig ef flm. ná fram vilja sínum.
    Síðan koma ákvæði um að veiðieftirlitsmenn skuli gæta þess að valda ekki ónæði í æðarvarpi né selalögnum. Þar skal þeim einnig óheimilt að nota þyrlur, aðrar lágfleygar flugvélar sem og vélbáta. Flutningsmenn skýra ekki nánar hvernig skilgreina skuli æðarvörp né selalagnir. Í reynd yrði ógerlegt að fullyrða að æðarvarp væri ekki á einhverjum ákveðnum stað ef landeigandi staðhæfði slíkt. Því væri eftirlitsmönnum í raun óheimilt að nota vélbáta við eftirlit ef landeigendur kysu að mótmæla því.
    Þótt sums staðar á landinu liggi vegir nálægt sjó er það þó víða sem slíku er ekki til að dreifa. Þar yrðu því eftirlitsmenn að ferðast fótgangandi og ef þeir kæmu t.d. að neti sem þeir hefðu grun um að lax væri ánetjaður í þá væri þeim ógerlegt að staðreyna það án báts nema landeigandi væri svo vingjarnlegur að taka þá með í vitjun. Um líkindi á slíku verða menn að mynda sér skoðun sjálfir.
    Varðandi lágflug til eftirlits er þess að geta að almennar flugreglur heimila flug niður í allt að 500 fet yfir strjálbýli en 1000 fet yfir þéttbýli. Ekki er ljóst hvort flm. ætla að flytja annað frv. til breytinga á þessum ákvæðum eða hvort þeir ætla lax - og silungsveiðilögunum að skapa þarna nýja réttarreglu. Þetta er spurning sem vaknar við lestur frv. Að öllu þessu athuguðu fullyrði ég að ef frv. þetta verður að lögum er eftirlit með sjávarveiðum í net torveldað svo að nánast má ógerlegt kalla.
    Ef ég aðeins hleyp yfir nokkrar greinar frv. þá er í 3. tölul. 6. gr. a. skýrt kveðið á um að eigi megi skilja veiðirétt að nokkru eða öllu leyti við landareign. Þetta þýðir að eigendur veiðiréttar mega hvorki leigja né framselja veiðirétt sinn á nokkurn hátt. 2. tölul. verður að skilja þannig að þetta bann taki þó ekki til veiðiréttar fyrir landi þéttbýlis því þar er íbúum þess þéttbýlis heimiluð veiði í netlögum þess ef viðkomandi veiðifélag eða sveitarstjórn leyfir. Auðséð er því að flm. er ljóst bann það sem 3. tölul. kveður á um. Að öðrum kosti mundi ekki þurfa að kveða á um heimild sveitarstjórnar til framsals veiðiréttar, hvorki til eigin íbúa né annarra. Þrátt fyrir þetta gera flm. greinilega ráð fyrir framsali veiðiréttar, sjá 6. gr., tölul. 4 í staflið e. Þarna er alger þversögn innan frv. sýnist mér.
    Um 7. gr., 6. tölul. Grein þessi virðist algerlega óþörf og illskiljanlegt hví hún er sett þarna inn. Hún segir aðeins það að ef eftirlitsmaður hafi húsleitarheimild skuli honum húsleit heimil. Slíkt er nægjanlega tryggt í almennum réttarfarsreglum nú þegar.
    Í g-lið 6. gr. er þó haldið eftir rétti eftirlitsmanns til að krefja handhafa fisks, sem eftirlitsmann grunar að sé ólöglega veiddur, um greinargerð um hvar fenginn sé. Því getur grein þessi enn komið að nokkru gagni þó veikt hafi verið í frv.
    Í greinargerðinni, sem ég minntist hér á í upphafi, er ýmsar rangfærslur og hæpnar fullyrðingar að finna. T.d. er fullyrt að á seinni árum hafi verið hafðir í frammi ýmsir tilburðir til að skerða sérstaklega veiðirétt landeigenda í netlögum jarða sinna. Síðan laxveiðilögin gengu í gildi 1933 hafa engar þær takmarkanir verið settar sem fremur taki til sjávarveiði en ferskvatnsveiði. Það er fyrst með framlögn þessa frv. sem örlar á slíku þar sem leiga til stangveiði í sjó er bönnuð.
    Reglugerð nr. 205 um netaveiði göngusilungs í sjó, sem flm. fordæma harðlega og telja stefnt gegn sjávarveiðibændum, gerir ekki annað en ákveða skýrar en áður að þær reglur sem lengi hafa gilt um netaveiði í fersku vatni taki einnig til netaveiði í sjó. Henni var

einnig ætlað að draga úr hættu á að lax veiddist í blóra við silung í net þessi en vissa er fyrir slíku eins og ég hef hér minnst á áður.
    Einnig fullyrða flm. að margir þeir sem ráðið hafa veiðimálum hafi það sjónarmið að veiðiréttur falli niður ef veiði er ekki stunduð. Engin dæmi eru þó nefnd um þetta. Ég hef fylgst dálítið með veiðimálum og aldrei orðið var við þau sjónarmið sem þarna er fullyrt um.
    Flm. fara rangt með að vikufriðun varðandi netaveiði í sjó hafi verið sett á árið 1970. Hún hefur verið í fullu gildi síðan 1933 og vel virt varandi netaveiðar í ám landsins.
    Hæstv. forseti. Ég hef rætt þetta frv. og liði þess og hér er í lokin ein fullyrðing. Hv. flm. sagði að virðisaukaskattur væri ekki greiddur af seldum veiðileyfum sem er rétt. Ég minnist þess þegar þetta var til umræðu í þinginu þá féll þetta undir tekjur af eign svipað og tekjur af húsaleigu, sem ekki er greiddur virðisaukaskattur af. Sama var með veiðileyfin. En þetta voru skýr rök sem nefndir þingsins og þingið var upplýst um á þeim tíma þannig að þá féllu menn frá því.
    Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um þetta mál. Það kemur til umræðu og umfjöllunar í landbn. eins og hv. þm. bað um. Þar munum við frekar ræða þetta og ég vænti þess að málið fái þinglega meðferð og þá afgreiðslu sem því hæfir hér í þinginu.