Lax- og silungsveiði
Fimmtudaginn 07. mars 1991


     Flm. (Jón Sæmundur Sigurjónsson) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka hv. 5. þm. Suðurl. fyrir þann áhuga sem hann hefur sýnt þessu máli og þá ágætu yfirferð sem hann hafði um frv. þar sem hann fór í gegnum það lið fyrir lið. Það er alveg greinilegt af málflutningi hv. þm. að við getum ekki verið sammála um það sem hér er á ferðinni. Það kom fram hjá hv. þm. ýmisleg gagnrýni og staðhæfingar sem ég get ekki fellt mig við að svo stöddu og sem mér finnst ganga svo fram að halli allverulega á bændur við sjávarsíðuna sem auðvitað eiga að fá að nota sín hlunnindi sem þeir hafa átt frá alda öðli þó að þrengt hafi verið nokkuð að þeim á síðari áratugum. Núna upp á það allra síðasta held ég að með þó nokkurri sanngirni megi segja að það þarf að koma þessum málum í fastara horf en verið hefur. Það sannar einna helst sá ófriður sem ríkt hefur um þessi mál. Það að vísa þessu frv. á bug er það sama og að lýsa því yfir að ófriður skuli standa áfram. Það verður að ná sáttum í þessu máli og það verður ekki gert nema að fastar reglur verði bundnar niður í lögum sem varða þessi mál. Þess vegna er það ekki rétt hjá hv. 5. þm. Suðurl. þegar hann telur upp þrjá punkta þar sem segir í fyrsta atriðinu að verði þetta frv. að lögum komi það til með að raska því jafnvægi sem ríkt hafi. Ég get ekki séð, a.m.k. ekki þegar ég lít til Miðfjarðar og Vatnsness, að menn ættu ekki að hafa verulegan áhuga á því að því jafnvægi sem þar ríkir verði raskað. Það ríkir nefnilega ekkert jafnvægi. Þar sést bersýnilega að það verður að taka á málum á gagngeran hátt til þess að jafnvægi ríki, til þess að friður geti ríkt með bændum við sjávarsíðu og upp með ám.
    Það er sagt að netaveiði sé rýmkuð en stangaveiði bönnuð með frv. Það er alveg rétt. Stangaveiði er ekki fyrst bönnuð með þessu frv., stangaveiði var bönnuð með reglum landbrh. sem settar voru 1989. Þetta er auðvitað lítið atriði og það er sérstaklega tekið fram í frv. að bannið sé einungis sett vegna lítilfjörleika. Það mun ábyggilega ekki vera neinum sjávarbónda þyrnir í augum þó svo landbn. tæki þetta mál til sérstakrar athugunar varðandi stangaveiði og leyfði hana aftur, þvert á reglur landbrh. En það bann sem hér er ýjað að er einungis sett fram vegna lítilfjörleika.
    Þriðji punkturinn sem hv. 5. þm. Suðurl. minntist á var sá að að hans áliti yrði eftirlit slælegra og eftirlitsmönnum gert erfitt fyrir. Þessu er ég ekki alls kostar sammála. Í einum fjórum greinum frv. er sérstaklega tekið fram um hvernig eftirliti skuli varið. Það er öllum í hag og sérstaklega bændum við sjávarsíðuna að eftirlit verði sérstaklega strangt, að því verði framfylgt eftir þeim reglum sem hér er lagt til að verði viðhafðar og eftirlitið verði með þeim hætti að þeir sem á að hafa eftirlit með viðurkenni það eftirlit, að þegar um tvo hagsmunaaðila er að ræða, eins og sjávarbændur og árbændur, að eftirlitið komi ekki einungis frá annarri hliðinni.
    Ég las upp áðan skipunarbréf frá landbrn. til handa eftirlitsmanni á þessu svæði. Þar kemur greinilega í ljós og ég vitna í það enn og aftur, með leyfi forseta: ,, . . . enda sjái Veiðifélag Miðfirðinga um greiðslu launa og annars kostnaðar er kann að leiða af eftirlitinu.``
    Eftirlitsmenn eru sem sagt ráðnir til höfuðs öðrum aðilanum. Ef friður á að ríkja í landinu verða menn að vera sáttir við það eftirlit sem viðhaft er, eftirlit sem verður haft að reglum að sjálfsögðu, en eftirlit sem er hlutlaust í það minnsta. Og þess vegna er það lagt til að löggæslumenn ríkisins skuli hafa eftirlit með þeirri veiði, eftirlitsmenn sem þekkja sitt svæði og sem menn eru sáttir við.
    Hv. 5. þm. Suðurl. sagði réttilega að sömu reglur hefðu gilt fyrir veiði í sjó og vötnum og frá 1933 hafi veiðibann á laxi gilt og veiðireglur á silungi hertar. Þetta er alveg rétt. Þegar við gerum mismun á veiði í sjó og í vötnum er það auðvitað af því að aðstæður eru mjög mismunandi. Það eru veðurguðirnir sem hafa miklu meiri áhrif á veiði í sjó en í vötnum og þess vegna er lagt er til að friðunartími fari aftur í það horf sem hann var fyrir 1970, að netalagnir verði í sama horfi og þær voru fyrir 1970, að möskvar verði stækkaðir í samræmi við þær aðstæður sem veitt er í og girni gert sterkara þannig að það veiðist stærri silungur, en einmitt ungsilungurinn fái að lifa. Það er hann sem við verðum að vernda þannig að þetta er í ætt við þá fiskverndarstefnu sem annars gildir.
    Hv. 5. þm. Suðurl. talaði um að skilgreina þyrfti nánar æðarvörp og selalátur. Eftirlitsmenn sem þarna verða á ferðinni þurfa auðvitað að þekkja sitt svæði. Þeir þurfa að vita hvar æðarvörp og selalátur eru þannig að það á ekki að vera til vandræða.
    Varðandi vegamál. Auðvitað eru vegir ekki alltaf meðfram sjó og auðvitað eru vegir ekki alltaf meðfram ám en eftirlitsmenn koma þó sínu fram þannig að það á ekki að vera til vandræða.
    Hvað varðar lágflug og annað slíkt þá höfum við slæm dæmi um það að gengið hafi verið að Miðfirðingum með þyrlum og með lágflugi með venjulegum flugvélum langt undir 500 fetum þannig að æðarvarp truflaðist og eyðilagðist það sumar og mikil röskun varð í selalátrum. Bændur við sjávarsíðuna eru alveg sáttir við það að almennar reglur um lágflug verði haldnar og það er áréttað hér.
    Það er talað um að þversögn sé í þeirri grein frv. sem segir að eigi megi skilja veiðirétt við landareign. Þetta er bara nákvæm tilvitnun í lögin sjálf. Hér er einungis verið að færa lagagreinar til. Það er engu nýju bætt inn í. Og framsal í þeim skilningi að leiga eigi sér stað getur auðvitað farið fram en það skilja allir að þegar sagt er að eigi megi skilja veiðirétt við landareign, að veiðiréttur sé ekki eign einhvers óskylds aðila annars en þess sem á jörðina sjálfur.
    Hvað varðar þá staðhæfingu hv. þm. að 6. liður 7. gr. sé óþarfur vegna þess að húsleitarheimildin þar sé eins og almenn lög gera ráð fyrir, þá ætti þingmaðurinn að þekkja hvernig þessum málum er háttað í dag. Þar er þessu einmitt snúið við, alveg öfugt við almennu regluna, þ.e. sönnunarskyldunni er komið á þann sem hefur lax eða silung undir höndum og honum gert að sanna hvar hann hafi fengið viðkomandi

veiðidýr.
    Að lokum, virðulegi forseti, ég ætla ekki að lengja þetta um of. Þetta hefur verið ágæt umræða þó að við höfum einungis tveir félagarnir átt hér smávegis orðastað. Þá vil ég að lokum aðeins minnast á virðisaukaskatt af lax - og silungsveiðileyfum. Ég flutti frv. um það á sínum tíma. Mér finnst alveg sjálfsagt mál að þeir sem veiða lax og silung og önnur dýr sér til skemmtunar borgi af því sinn toll til samneyslunnar. Mér finnst það miklu frekar jafnvel að þeir aðilar greiði sinn skatt til samneyslunnar en húsmæður sem þurfa að kaupa bleyjur á ungbörnin sín eða þurfa að kaupa nauðsynjavörur til heimilisins sem auðvitað eru ekki undanþegnar virðisaukaskatti. Sú staðhæfing að hér sé um fasteign að ræða og leigu af fasteignum og virðisaukaskattur af leigu af fasteignum sé alla jafna ekki greiddur, þá vil ég benda á að það er mjög hæpið að skilgreina ár sem fasteignir. Það er svona líkt og fljótandi steypa sem sett er í mót, hún telst til lausafjár og greiddur er af henni virðisaukaskattur. Ég held að öll rök mæli með því að þeir sem kaupa veiðileyfi til að stunda laxveiði og silungsveiði sér til ánægju greiði af henni virðisaukaskatt.