Útflutningsráð Íslands
Mánudaginn 11. mars 1991


     Frsm. fjh.- og viðskn. (Jóhann Einvarðsson) :
    Hæstv. forseti. Samkvæmt bréfi frá utanrrn. til fjh.- og viðskn. Ed., sem fylgir með sem fskj., er þess farið á leit við nefndina að hún flytji þetta frv. Það fjallar fyrst og fremst um teknískar leiðréttingar á innheimtu og álagningu gjalda sem eru tekjustofn fyrir Útflutningsráð. Með frv. frá nefndinni fylgir svohljóðandi grg:
    ,,Með bréfi utanrrh. til fjh.- og viðskn. Ed., sbr. fylgiskjal, var þess farið á leit við nefndina af hálfu ríkisstjórnarinnar að hún flytti frv. þetta. Í bréfinu kom fram að frv. var samið í samvinnu þriggja ráðuneyta, utanríkis-, viðskipta- og fjármálaráðuneytisins, og fylgdu athugasemdir þeirra með frv. Þar eru tilgreindar ástæður þess að brýn þörf er á að breyta lögum um Útflutningsráð og eru þær eftirfarandi:
    ,,Komið hafa í ljós vandkvæði við framkvæmd laganna, sem öðluðust gildi 1. jan. 1991. Samkvæmt 1. gr. frv. yrði 3. gr. laganna efnislega óbreytt, m.a. varðandi gjaldskyldu, þótt uppsetningu sé breytt, svo og tæknilegum ákvæðum um álagningu og innheimtu hins sérstaka gjalds samkvæmt lögunum. Með 2. gr. frv. er stefnt að því að tryggja tekjur Útflutningsráðs af viðkomandi atvinnugreinum á árinu 1991, en atvinnugreinatekjur hafa frá upphafi verið megintekjustofn ráðsins.````
    Þetta frv. er flutt af fjh.- og viðskn. og því trúlega ekki ástæða til að vísa því til nefndar.