Efnahagsaðgerðir
Mánudaginn 11. mars 1991


     Frsm. meiri hl. fjh.- og viðskn. (Guðmundur Ágústsson) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir nál. á þskj. 832 og brtt. á þskj. 833 við frv. til laga um breytingu á lögum nr. 9 2. mars 1989, um efnahagsaðgerðir.
    Í nál. segir svo, með leyfi forseta:
    ,,Nefndin hefur fjallað um frv. og fengið á sinn fund Guðmund Malmquist, forstjóra Byggðastofnunar, Sigurð Þórðarson vararíkisendurskoðanda, Árna Snæbjörnsson endurskoðanda og Helga Bergs, formann Hlutafjársjóðs.
    Meiri hl. nefndarinnar leggur til að orðalagsbreyting verði gerð í 1. gr. frv. til að taka af allan vafa um að hlutafjárdeild Byggðastofnunar tekur við skuldbindingum Hlutafjársjóðs Byggðastofnunar. Þá leggur meiri hl. einnig til að breyting verði gerð á 5. málsl. 2. gr. þannig að tæmandi verði talið í hvaða tilvikum Byggðastofnun þarf að bera undir Ríkisábyrgðasjóð atriði varðandi lán atvinnutryggingardeildar. Er Byggðastofnun óheimilt að skuldbreyta, breyta lánum í víkjandi lán, hlutafé eða fella lánin niður án samþykkis Ríkisábyrgðasjóðs.
Einnig er lagt til að í stað stjórnar Byggðastofnunar komi Byggðastofnun í þessum sama málslið 2. gr.
    Meiri hl. nefndarinnar leggur til að frv. verði samþykkt með þeim breytingum sem gerð er tillaga um á sérstöku þingskjali.``
    Undir þetta nál. rita Guðmundur Ágústsson, Jóhann Einvarðsson, Eiður Guðnason, Guðrún J. Halldórsdóttir og Skúli Alexandersson. Fulltrúar Sjálfstfl. í nefndinni skila minnihlutaáliti og gera þeir eflaust grein fyrir því hér á eftir.
    Það frv. sem hér um ræðir má segja að sé endalok þeirra efnahagsaðgerða sem ríkisstjórnin, sem tók við 1988, stofnaði til. Þá var ákveðið að setja á stofn tvo sjóði, annars vegar Atvinnutryggingarsjóð útflutningsgreina og hins vegar Hlutafjársjóð.
    Nú er talið að hlutverki þessara sjóða sé lokið og það er lagt til í frv. að báðum þessum sjóðum verði komið fyrir innan Byggðastofnunar og að þeir starfi í tengslum við þá stofnun.
    Ég ítreka það sem ég sagði hér áðan að meiri hl. leggur til að frv. verði samþykkt eins og það var lagt fram með þeim breytingum sem gerð var grein fyrir hér áðan og eru á þskj. 833.