Tekjuskattur og eignarskattur
Mánudaginn 11. mars 1991


     Danfríður Skarphéðinsdóttir :
    Virðulegur forseti. Efni þessa frv. og það hversu seint það er fram komið og líka þau orð hæstv. fjmrh. um að hann vonaðist til að það yrði afgreitt fyrir þinglok gefa nú svolítið til kynna hvaða forgangsröð ræður för hjá þeirri hæstv. ríkisstjórn sem senn hefur lokið setu sinni á þessu kjörtímabili. Það er eins og ætíð fyrr að það eru atvinnulífið og fyrirtækin sem ganga fyrir. Þetta vekur hjá mér spurningar um hvenær röðin komi að fólkinu í landinu.
    Ég vildi í tilefni af framlagningu þessa frv. spyrja hæstv. fjmrh. hvort hann telji núgildandi skattleysismörk viðunandi eins og þau eru nú. Ég hefði heldur kosið að sjá frv. koma fram um hækkun skattleysismarka og vil benda á að það liggur reyndar fyrir tillaga um það frá hv. 8. þm. Reykv. og hefur hún verið rædd í sameinuðu þingi, því miður að hæstv. fjmrh. fjarstöddum. Þar er gerð tillaga um að skattleysismörkin verði um 100.000 kr. Ég hefði líka kosið að sjá frv. um annað tekjuskattsþrep og minni á að kvennalistakonur hafa lagt fram frv. þess efnis til þess að jafna aðstöðu fólks í þjóðfélaginu. Það er nú svo að það kostar fjölskyldufólk óhemjumikið að framfleyta börnum sínum og sjá þeim t.d. fyrir heilsdagsvistun. Ef reiknað er með útgjöldum hjóna fyrir heilsdagsvistun fyrir eitt barn þá eru það rúmlega 300.000 kr. á ári vegna þess að fæst hjón fá inni á barnaheimilum og verða að leita til dagmæðra og þar er gjaldið fyrir ársvistun nú rúmlega 300.000 kr.
    Ég hefði frekar kosið að sjá að fólk gæti fengið skattaafslátt vegna slíkra útgjalda en vegna kaupa á hlutabréfum.
    Mig langar líka til að spyrja hæstv. fjmrh. hvort alls ekkert hafi komið til tals innan ríkisstjórnarinnar að koma með einhverjum hætti til móts við barnafjölskyldur í landinu. Það er vitað að barnabæturnar eru mjög lágar. Ég vil benda á að samkvæmt þeim útreikningum sem liggja til grundvallar framfærsluþörf námsmanna er gert ráð fyrir að það kosti a.m.k. 22.000 kr. á mánuði að framfleyta einu barni og býst ég við að það sé ekki ofreiknað. Þeirri hugmynd hefur einstaka sinnum skotið upp innan Kvennalistans að það væri e.t.v. full ástæða til að fólk fengi einhvers konar barnaafslátt sem yrði þá eitthvað álíka og persónuafsláttur, en það er greinilegt að Lánasjóðurinn notar tölur sem að einhverju leyti miðast við persónuafslátt. Ég vildi mega spyrja hæstv. fjmrh. hvort slíkar hugmyndir hafi komið fram innan ríkisstjórnarinnar, hvort slík mál hafi yfirleitt verið rædd. En mér finnst þetta frv., þó ég ætli ekki að taka efnislega afstöðu til þess sem slíks á þessari stundu, undirstrika vissan þátt, að launafólkið í landinu gleymist alltaf.
    Þegar hæstv. fjmrh. sagði áðan í máli sínu að hann legði fram annað frv. þá kipptist ég við og vonaðist til að hann mundi minnast á einhver af þessum málum, en það var þá eitthvert talnafrumvarp sem fylgir þessu hér og það olli mér svo sannarlega vonbrigðum.
    En varðandi það sem seinni hluti þessa frv. gengur út á, þ.e. frádrátt vegna hlutabréfaviðskipta, þá var það nokkuð furðulegt að verða vitni að þeirri hvatningu sem höfð var uppi um áramótin, hvatningu til fólks til þess að taka alls ekki þátt í rekstri samfélagsins með því að kaupa hlutabréf og fá skattaafslátt. Ég ætla að sjálfsögðu ekki að gera lítið úr því að atvinnulífið þurfi að þrífast og það sé jákvætt og gott að íbúar í landinu taki þátt í því, vegna þess að ég held að það sé mjög hollt og gott, en ég get ekki látið hjá líða þegar ég sé þetta frv. að minnast á fjölskyldurnar og barnafólkið. Ég vildi gjarnan heyra viðbrögð hæstv. fjmrh. við þeim spurningum sem ég hef hér fram borið.