Grunnskóli
Mánudaginn 11. mars 1991


     Sólveig Pétursdóttir :
    Hæstv. forseti. Vegna þessa máls sem hér er til umræðu hlýt ég að vekja athygli á þeirri furðulegu auglýsingu frá menntmrn. sem birtist í Morgunblaðinu sl. fimmtudag. Þar er heilsíðuauglýsing út af frv. til nýrra grunnskólalaga, frv. sem er í meðferð hér í þinginu og er með öllu óljóst hvort verður að lögum. Í þessari auglýsingu segir með stórum stöfum í yfirskrift:
    ,,Mörgum foreldrum finnst þeir hafa of lítið að segja um menntun barna sinna.`` Síðan kemur neðanmálstexti sem hljóðar þannig:
    ,,Menntamálaráðuneytið vill breyta því. Foreldrar hafa í raun heilmikið að segja. Stóraukið hlutverk þeirra í skólastarfi er meðal þess sem boðað er með nýju frv. til laga um grunnskóla sem lagt hefur verið fram á Alþingi. Skólinn er annað heimili barna þinna. Allar breytingar á skólakerfinu hafa áhrif á barn þitt, á daglegt líf fjölskyldu þinnar og framtíð allrar þjóðarinnar.``
    Og svona lítur þessi auglýsing út. Myndin af fólkinu fyrir ofan er fremur ósmekkleg að mínu mati þar sem svo lítur út fyrir að bundið sé fyrir munn þeirra. Skilaboð auglýsingarinnar eru því þessi: Þeir þingmenn sem eru á móti því að afgreiða grunnskólafrv. nú þegar sem lög frá hinu háa Alþingi eru jafnframt á móti því að foreldrar hafi eitthvað að segja um menntun barna sinna.
    Þetta eru náttúrlega vinnubrögð fyrir neðan allar hellur og hljóta að teljast einsdæmi. Þetta frv. tryggir alls ekki aukinn rétt foreldra og hefur það margsinnis verið gagnrýnt í umræðum um þetta mál. En það er kannski ekki það alvarlegasta í þessu máli heldur sú staðreynd að hér er reynt að skapa þrýsting á Alþingi til þess að afgreiða þetta frv., væntanlega með því að reyna að höfða til foreldra í þessu þjóðfélagi. Hér er framkvæmdarvaldið að gera tilraun til þess að taka fram fyrir hendur löggjafarvaldsins með mjög svo ósvífnum hætti.
    Meðan þetta frv. sem hér er til umræðu hefur verið gagnrýnt mjög mikið, m.a. vegna skorts á öllum kostnaðaráætlunum sem ráðherra ber þó lagaskylda til að leggja fram, þykir honum sæma að eyða stórfé í bæði hönnun og birtingu auglýsingar sem þessarar. Og ekki nóg með það, heldur birtist sama dag heilsíðuauglýsing í Pressunni, þ.e. sl. fimmtudag, um þetta sama frv. undir fyrirsögninni: ,,Hvernig mótar skólinn börnin okkar?`` Meðfylgjandi er mynd af lítilli telpu, en myndin er eins og rifin í tvennt. Á öðrum helmingnum er barnið alvarlegt en á hinum er það brosandi. Hvaða skilaboð er verið að flytja hér? Væntanlega svipuð og í Morgunblaðsauglýsingunni, sem sé í þá veru að þingmenn sem ekki vilja afgreiða grunnskólafrv. sem lög frá þessu Alþingi sem nú er að ljúka vilji ekki að skólabörnum landsins líði vel. Eða hvað er átt við, hæstv. menntmrh.?
    Ég verð að segja það, virðulegi forseti, að þótt ég hafi mikinn áhuga á velferð barna í þessu þjóðfélagi, þar með talið að koma skólamálum í betra horf, þá

eru þessi vinnubrögð alls ekki við hæfi. Látum nú vera að foreldrar fái skilaboð í auglýsingum, en að blanda börnum inn í svona pólitík er alls ekki rétt. Þar að auki eru þessi loforð eða yfirlýsingar í auglýsingunni ekki rétt því að hvorki hefur þetta frv. verið afgreitt né heldur yrði hægt að tryggja framgang slíkra laga.
    Hver er skoðun hv. þm. á svona vinnubrögðum? Hvernig yrði ástandið ef öll ráðuneytin færu að leika þennan leik eftir og auglýsa upp öll þau frv. sem ráðherrarnir hefðu áhuga á að koma í gegnum þingið? Ég er ansi hrædd um að menn tækju því ekki þegjandi. Það yrði þá lítið lesefni í blöðunum næstu dagana miðað við þann fjölda mála sem enn bíður afgreiðslu.
    Það er náttúrlega ekki tilviljun að gripið sé til svona vinnubragða því að það eru kosningar í nánd. Hér sýnist mér vera á ferðinni kosningaáróður sem þjóðin á að borga.
    Þetta mál opinberar enn fremur þann mikla ágreining sem ríkir í röðum stjórnarliða, að hæstv. menntmrh. skuli grípa til þessa ráðs vegna þess að hann geti ekki tryggt framgang þessa frv. með hefðbundnum hætti. En það er undirstaðan í lýðræðisþjóðfélagi að meiri hlutinn ræður. Hann virðist ekki vera fyrir hendi hér. Þótt þetta mál verði e.t.v. afgreitt út úr Nd. til Ed. þá óttast hæstv. menntmrh. greinilega um afdrif þess.
    Og vegna þessarar umræðu, hæstv. forseti, vil ég geta þeirrar fréttar sem birtist í Dagblaðinu sl. miðvikudag um upplýsingarit menntmrn. um Lánasjóð ísl. námsmanna, þar sem vitnað er í ávarp hæstv. menntmrh. undir fyrirsögninni: ,,Kosningasvipur þykir á bæklingi ráðherra.`` Ég ætla að lesa þessa fregn, með leyfi virðulegs forseta:
    ,,Inn um bréfalúgur námsmanna streymir nú litprentað upplýsingarit menntmrn. um Lánasjóð ísl. námsmanna. Bæklingur þessi hefur vakið athygli námsmanna og sjá þeir ekki betur en tímasetning á útkomu bæklingsins og ávarp Svavars Gestssonar menntmrh. í honum tengist talsvert tvennum kosningum. Fram undan eru kosningar við Háskóla Íslands og ekki síður þingkosningar í næsta mánuði.
    Þá vekur það athygli að menntmrn. gefur út og kostar þetta upplýsingarit en ekki Lánasjóðurinn sjálfur. Bæklingurinn er gefinn út í 13 þúsund eintökum og er kostnaður hins opinbera vegna hans um 300 þús. kr. Ráðherrann getur um sparnaðarráðstafanir forvera síns í ávarpinu og mótmæli gegn þeim og segist síðan hafa rétt hlut námsmanna.`` Ávarp menntmrh. fer hér á eftir.
    ,,Núverandi lög um Lánasjóð ísl. námsmanna voru sett árið 1982. Sjóðurinn hafði aðeins starfað eftir þeim lögum í tvö ár þegar þáv. menntmrh. taldi nauðsynlegt að grípa til sparnaðarráðstafana. Á tveggja ára tímabili var síðan upphæð námslána skorin niður um tæpan fimmtung. Þessar aðgerðir voru mjög umdeildar á sínum tíma og þeim mótmælt af námsmönnum og fleiri aðilum í þjóðfélaginu. Þrátt fyrir ítrekaðar óskir námsmanna sáu stjórnvöld sér ekki fært að rétta hlut þeirra og þannig var staðan árum saman.

    Þegar undirritaður tók við embætti menntmrh. í septembermánuði 1988 var hafinn undirbúningur að því að rétta hlut námsmanna. Í góðri samvinnu við námsmenn náðist loks sá mikilvægi áfangi að leiðrétta skerðingar.``
    Síðan koma fram nokkrar setningar í viðbót í ávarpi hæstv. menntmrh. í þessum bæklingi. Ráðherrann vísar því náttúrlega á bug að um kosningaáróður sé að ræða, en tilgangur þessa ávarps virðist þó fyrst og fremst að hnýta í fyrrv. menntmrh., Birgi Ísl. Gunnarsson, sem nú hefur horfið til annarra starfa. Látum nú vera þótt hæstv. menntmrh. vilji koma þessum skoðunum sínum á framfæri en varla er það réttlætanlegt með þessum hætti, í bæklingi í 13 þúsund eintökum sem kostaður er af hinu opinbera og kemur út núna rétt fyrir kosningar.
    Virðulegi forseti. Það frv. sem hér er til umræðu er um afar mikilvægt málefni sem snertir flest heimili í landinu. Við hv. þm. Ragnhildur Helgadóttir höfum bent á það að mikil efnisleg vinna er eftir við þetta mál. Bæði vantar framkvæmda - og kostnaðaráætlun ásamt endurskoðun á mörgum ákvæðum frv. Af þessum ástæðum lögðum við það til að frv. yrði vísað til ríkisstjórnarinnar til endurskoðunar. Ef hins vegar hv. þm. væru ekki sammála þeirri tillögu, og reyndar felldi meiri hl. hv. þm. þessa tillögu eftir 2. umr., þá að sjálfsögðu er það dómur sem verður að hlíta því að það er meiri hlutinn sem ræður. En ég mótmæli þessum vinnubrögðum sem hæstv. menntmrh. viðhefur og ég spyr hann: Hvað liggur að baki þessara auglýsinga sem birtust í Morgunblaðinu og Pressunni í síðustu viku? Og finnst honum það verjandi að reka áróður með þessum hætti?
    Virðulegi forseti. Ég tel að ég hafi í umræðum hér á hinu háa Alþingi lagt fram viðamikil rök fyrir tillögu okkar Ragnhildar Helgadóttur sem fram kemur í minnihlutaáliti með þessu frv. og vísa til fyrri umræðna í því sambandi. En í ljósi þeirra vinnubragða hæstv. menntmrh., sem ég hef hér gert að umtalsefni og hljóta að teljast einsdæmi, þá fer ég fram á það við hv. þm. að þeir endurskoði afstöðu sína til þessa frv. A.m.k. hljóta þeir að segja skoðun sína á þessu máli þegar vegið er að störfum þeirra með slíkum hætti.
    Þá verður ekki hjá því komist að vekja athygli á viðamikilli grein í Morgunblaðinu í gær um grunnskólafrv. undir fyrirsögninni ,,Skóli fyrir hverja?`` Þar segir m.a. í inngangi:
    ,,Grunnskólalögin eru mannréttindaskrá barna. Þau eru ekki til fyrir foreldra eða stofnanir. Þau eru til fyrir börnin. En er svo í raun?`` Önnur spurning.
    Í þessari grein er vitnað í umsagnir með frv., m.a. skólamálaráðs Reykjavíkurborgar og Sambands ísl. sveitarfélaga, sem leggjast alfarið á móti samþykkt þessa frv. í óbreyttri mynd. Með þessari samantekt er viðtal við hæstv. menntmrh. í rammagrein, en hann lætur sem hann viti ekki af mótmælum Sambands ísl. sveitarfélaga, heldur liggi sökin öll hjá Sjálfstfl. í Reykjavík. Með leyfi virðulegs forseta ætla ég að lesa þetta viðtal:

    ,,Sjálfstæðisflokkurinn í Reykjavík er á móti uppbyggingu grunnskóla og vill ekki taka þátt í þeirri framsýnu stefnu, sem við höfum verið að móta,`` segir Svavar Gestsson menntmrh. um þá umsögn sem skólamálaráð Reykjavíkurborgar hefur samþykkt.
    Sjálfstæðisflokkurinn vill ekki kosta til auknum fjármunum til skólans. Hann vill hafa frið til þess að vera hér með 1200 -- 1400 barnaskóla [væntanlega er átt við 1200 -- 1400 nemendur] og hann vill ekki hafa skólamáltíðir. Fyrir utan þetta eru einkaaðilar að heimta það að leggja niður Námsgagnastofnun. Gefið er í skyn að sú stofnun sé ekki starfi sínu vaxin. Ekki er krafist endurbóta á aðstöðu hennar með auknum fjármunum, heldur er talað um hana með þeim hætti að það er greinilega vilji þeirra að hún verði lögð niður í núverandi mynd. Síðan er um að ræða kvartanir yfir því að skólarnir skuli ekki fá að skattleggja foreldrana eftir eigin höfði.
    Þessi umsögn skólamálaráðs lýsir almennum fjandskap skólayfirvalda Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík í garð menntmrn. sem birst hefur aftur og aftur allan þann tíma síðan ég tók við sem ráðherra menntamála,`` segir Svavar.
    Að sögn ráðherrans er jafnrétti barna til náms mikilvægur þáttur og því vart hægt að hugsa sér að færa skólamálin alfarið yfir á hendur sveitarfélaganna. Með öðrum orðum á það ekki að bitna á börnunum hvort þau búa í fátæku eða ríku sveitarfélagi. Á hinn bóginn segist ráðherrann vera sammála því að það eigi að vera sem mest sjálfstæði innan hvers skóla og það er einmitt það sem unnið hefur verið innan ráðuneytisins á síðustu missirum.``
    Það er ljóst að þetta viðtal er fullt af rangfærslum og elti ég ekki ólar við þær að sinni. En vegna síðustu orða hæstv. menntmrh. í viðtalinu þykir mér rétt að vekja athygli á umsögn Kennarasambands Íslands sem fram kemur í þessari sömu grein, en þar segir í lokin, með leyfi virðulegs forseta:
    ,,Þá segir að komið hafi í ljós að mörg sveitarfélög ættu í erfiðleikum með að veita þá þjónustu sem uppfyllir fyllstu kröfur um skólastarf. ,,Sveitarfélögin eru mjög misjafnlega sett hvað varðar skólabyggingar og búnað skóla. Jafnframt er skólahald tiltölulega dýrast í mörgum fámennustu og þar með fátækustu sveitarfélögunum vegna kostnaðar við skólaakstur, heimavistir og mötuneyti. Þessum sveitarfélögum verður að tryggja fjárveitingar til skólahalds --- að öðrum kosti er ljóst að stór skref eru stigin aftur á bak í þróun grunnskóla á Íslandi.````
    Hygg ég að orð hæstv. menntmrh. hafi dæmt sig sjálf, sérstaklega um jafnrétti barna til náms, og væntanlega geti hann ekki kennt sjálfstæðismönnum um slaka stöðu sína í þessu máli. Þar verður hann að líta til annarra þátta, en þó fyrst og fremst til eigin athafna.