Grunnskóli
Mánudaginn 11. mars 1991


     Menntamálaráðherra (Svavar Gestsson) :
    Virðulegi forseti. Í gangi er kynningarátak á vegum foreldrasamtakanna og Samfoks á málefnum skólanna. Einkum er þar lögð áhersla á stofnun foreldrafélaga, bæði barna í leikskólum og grunnskólum. Menntmrn. er aðili að þessari kynningarherferð sem fram hefur farið í allmörgum skólum, nokkrum tugum skóla, líklega nærri 30 skólum. Ætlunin var að styðja við bakið á samtökunum af hálfu ráðuneytisins. Það að þessar auglýsingar birtust á sama tíma og Alþingi er að fjalla um málið eru hins vegar mistök. Þær áttu að koma mikið seinna og með talsvert öðrum hætti. Í þeim efnum er ekki við neinn annan að sakast en mig. Ég þakka hv. þm. fyrir gagnlegar ábendingar um efni málsins og vænti að þær og annað verði til þess að greiða fyrir afgreiðslu þess á yfirstandandi þingi.