Grunnskóli
Mánudaginn 11. mars 1991


     Pálmi Jónsson :
    Herra forseti. Það þótti ýmsum fleiri heldur en hv. þm. Sólveigu Pétursdóttur einkennilegar þær auglýsingar sem birst hafa frá menntmrn. varðandi það mál sem hér er á dagskrá. Nú hefur hæstv. ráðherra lýst yfir því að hér hafi verið um að ræða mistök af hálfu ráðuneytisins og ber auðvitað að virða það og fagna því að hann skyldi hafa viðurkennt að svo væri. Þessar auglýsingar hljóta á hinn bóginn að verða mistök hvenær sem þær verða birtar, þær eru þannig úr garði gerðar. Og þrátt fyrir það að þetta frv. hefði verið afgreitt og það samþykkt sem lög, þá eru þessar auglýsingar þannig upp settar að þær eru í meira lagi hæpnar. Ég tel ekki ástæðu til að fara neitt sérstaklega ofan í þær frekar í þessum orðum mínum hér úr því sem komið er vegna yfirlýsingar hæstv. ráðherra, en það er þó eitt atriði í þessum blaðafregnum sem hlýtur að vekja mikla athygli, þar sem hæstv. ráðherra lýsir því í stuttri grein í Morgunblaðinu þann 10. mars sl., þ.e. í gær, að Sjálfstfl. sé á móti uppbyggingu grunnskóla. Röksemdirnar eru auðvitað harla litlar sem fylgja slíkri fullyrðingu.
    Það er öllum kunnugt að Sjálfstfl. hefur staðið að því að byggja upp grunnskóla í landinu, staðið að því að efla það starf sem þar fer fram og á margan hátt staðið á bak við ekki einungis skólastarfið eða þá sem stjórna skólastarfinu heldur fyrst og fremst á bak við það að menntun ungmenna geti farið fram með eðlilegum hætti.
    Það frv. sem hér er á ferðinni er auðvitað slælega undirbúið og það er ekki Sjálfstfl. að kenna. Frv. er þrátt fyrir ákjósanleg markmið þess keyrt hér áfram í trássi við vilja sveitarfélaganna og án þess að sveitarfélögin hafi átt fulltrúa í starfshópi sem undirbjó frv. Þetta er ekki Sjálfstfl. að kenna. Þetta er auðvitað á ábyrgð hæstv. menntmrh. sem er síðan svo smekklegur að koma með yfirlýsingar í blöðum, eins og þessa, sem segja að Sjálfstfl. sé á móti uppbyggingu grunnskóla, sé á móti því að það starf sem þar eigi að fara fram geti þróast með eðlilegum hætti.
    Það er auðvitað þeim mun einkennilegra að standa að undirbúningi þessa máls á þann veg að sveitarfélögin séu ekki höfð með í ráðum og ekki sé tekið tillit til þess að þau hafa lýst yfir því að þau treysti sér ekki til að lýsa yfir stuðningi við málið, að fyrir einu ári síðan voru afgreidd hér lög á Alþingi um nýja skiptingu verkefna á milli ríkis og sveitarfélaga þar sem sveitarfélögunum voru fengin stóraukin verkefni í rekstri og byggingu grunnskóla í landinu. Sá kostnaður sem hlýst af samþykkt þessa frv., ef að lögum verður, leggst því að meginhluta á sveitarfélögin. Þeim mun meiri ástæða hefði verið til fyrir hæstv. ráðherra að hafa sem nánast og best samstarf um undirbúning málsins við sveitarfélögin. Þetta hefur hæstv. ráðherra því miður vanrækt og það er ekki Sjálfstfl. að kenna. En það verður vitaskuld til þess að það eru litlar líkur til að þetta frv. nái afgreiðslu hér á hinu háa Alþingi. Þar ofan í kaupið hefur hæstv. ráðherra vanrækt að láta fylgja þessu frv. eða koma fram með hér

í meðferð málsins á Alþingi eðlilegar upplýsingar um kostnað og hefur sannast sagna flutt mjög einkennilegar útskýringar á því á hvern hátt kostnaðurinn kemur fram ef þetta frv. verður að lögum.
    Það kom fram hér við 2. umr. að kostnaður ríkisins af þessu frv., ef samþykkt yrði, væri rétt rúmar 200 millj. kr. Vel má vera að það sé rétt. Vel má líka vera að það sé vanmetið. Ég skal ekki um það fullyrða. Það kom fram í þeirri umræðu að samkvæmt mati ýmissa aðila yrði kostnaður sveitarfélaganna á bilinu 7 -- 8 milljarðar kr. Þetta hafði þó ekki, að manni skildist, verið fullkannað. Skýringar hæstv. ráðherra hins vegar á þessum kostnaðarþáttum voru vægast sagt mjög sérkennilegar. Hann lét þess getið að á tíu árum hefði kostnaður vegna grunnskóla aukist um 43% eða að meðaltali um 4,3% á ári. Hann sagði að ef þetta frv. yrði að lögum mundi kostnaður á næstu tíu árum aukast um 18% eða um 1,8% að meðaltali á ári. Það mátti skilja hæstv. ráðherra þannig að það væri mikill sparnaður af því að samþykkja þetta frv. því kostnaðurinn á næstu tíu árum yrði þess vegna minni en hefði orðið á síðustu tíu árum. Þetta sannaði það að hæstv. ráðherra leit svo á að öll þróun í uppbyggingu skólamannvirkja og þróun í skólastarfi í grunnskólum eftir eldri skipan væri komin á enda. Það þyrfti ekkert að halda áfram, hvorki framkvæmdum né úrbótum í rekstri né auknum viðfangsefnum í námi sem kallaði á kostnað í grunnskólanum eftir því kerfi sem gilt hefur, umfram það sem þegar er orðið. Endanlegu marki væri náð.
    Síðan kemur viðbótin, og þetta frv. felur í sér einvörðungu viðbót þegar verið er að tala um aukinn kostnað og má vel vera að rétt sé að sú viðbót sé um 18% á tíu árum eða um 1,8% á ári að meðaltali. En þessar leikfimiæfingar í útreikningum hæstv. ráðherra geta aðeins staðist ef það á að vera algjör stöðvun í aukningu í mannvirkjagerð og rekstri og verkþáttum í skólanum sem kosta peninga, eftir öðrum þáttum málsins en þeim sem hér eru á ferðinni. Svo einfalt er það. Þessi röksemdafærsla hæstv. ráðherra er því gjörsamlega út í bláinn. Það er ekkert lítið að fjalla um mál sem kosta sveitarfélögin í landinu 7 -- 8 milljarða króna, ef að lögum verður, og það án þess að sveitarfélögin hafi fulltrúa í þeim starfshópi sem að undirbúningi málsins kemur.
    Auðvitað hafa komið hér fram margs konar fleiri athugasemdir við þetta frv. og frá fleiri aðilum heldur en frá sveitarfélögunum. Ég ætla ekki að fara að rekja þær hér, hv. þm. Sólveig Pétursdóttir hefur gert mjög ítarlega og skilmerkilega grein fyrir þessu máli og flutt um það vandaðar ræður. En þegar svo háttar að hér er komið að þinglokum og fyrir liggur, eins og áður segir, að þeir aðilar sem eiga að bera bróðurpartinn af kostnaðinum við málið hafa ekki treyst sér til þess að lýsa yfir stuðningi við það, þá hlýtur það að verða til þess að það nær ekki afgreiðslu á yfirstandandi þingi.
    Það væri síðan hægt að hafa nokkuð langt mál um það að með þessu er auðvitað verið að vísa kostnaði til framtíðarinnar sem hæstv. ríkisstjórn hefur ekki

treyst sér til að leggja í sjálf og ekki finna til þess peninga, en það er ekkert nýtt í störfum þeirrar hæstv. ríkisstjórnar sem nú situr. Ég ætla ekki að fara langt út í þá sálma, ég kom aðallega til þess að vekja athygli á þessum leikfimiæfingum hæstv. ráðherra varðandi kostnaðarþátttökuna og kostnaðarhlutdeildina og sýna fram á hvað hún er fjarri öllu lagi. Því að við erum hvergi nærri komin á enda með þróun í mannvirkjagerð né í starfsháttum grunnskóla þó að ekkert nýtt frv. verði nú afgreitt. Við þurfum áreiðanlega að leggja í kostnað á þeim vettvangi á komandi árum hvað sem þessu frv. líður og þá bætist sá kostnaður við sem hér er verið að tala um.
    Ég held þess vegna að hæstv. ráðherra ætti að gera sér ljóst að það væri heppilegra að taka tíma hv. deildar til þess að fjalla um þau mál sem líklegt er að geti náð afgreiðslu og hæstv. ráðherra ætti að gera sér ljóst, og hæstv. ríkisstjórn, að þegar síðasta þingvikan er hafin þá er nauðsynlegt að velja úr þau mál sem beinlínis verða að fara í gegnum Alþingi, verða að ná afgreiðslu Alþingis og svo til viðbótar önnur þau mál sem ætla má að ekki sé um ágreiningur, hvorki hér á Alþingi né verulegur ágreiningur meðal þeirra aðila sem eiga síðan að bera uppi kostnaðinn, bera hitann og þungann af lögunum ef afgreidd verða.