Samvinnufélög
Mánudaginn 11. mars 1991


     Frsm. meiri hl. fjh.- og viðskn. (Páll Pétursson) :
    Herra forseti. Það kann að vera að ég þurfi að kveðja mér hljóðs hér aftur eftir ræðu hv. 1. þm. Reykv. en því kvaddi ég mér hljóðs nú að ég vil bera til baka það sem segir í nál. minni hl. að fljótaskrift hafi verið á meðferð þessa máls. Ég kannast ekki við það. Ég held að það hafi verið unnið mjög eðlilega að þessu máli. Þetta var tekið fyrir á sjö fundum í fjh.- og viðskn., þann 16. jan., 14. febr., 18. febr., 20. febr., 22. febr., 5. mars og 6. mars. Það er rétt að skriflegra umsagna var ekki aflað um málið, enda varð samkomulag um það á fyrsta fundi nefndarinnar að það yrði ekki gert, heldur yrðu kvaddir á fund nefndarinnar þeir menn sem óskað væri eftir. Það var gert og þeir urðu flestir vel við beiðni um að koma á fund nefndarinnar, gáfu nefndinni margvíslegar upplýsingar og skýrðu málið fyrir okkur og fóru yfir það með okkur.
    Ég vil sem sagt bera það til baka að hér hafi verið einhver óeðlileg vinnubrögð viðhöfð. Ég tel að þetta frv. sé síst verr unnið heldur en flest af því sem við höfum fengist við í nefndum Alþingis á þessum vetri og reyndar þó lengra væri jafnað. Það er að vísu rétt að frsm. minni hl. átti ekki kost á því af eðlilegum ástæðum að sitja nema fáa af þessum fundum þar sem hún er varamaður en hv. þm. Sigrún Helgadóttir sat suma og hv. þm. Þórhildur Þorleifsdóttir sat fyrstu fundina þegar málið var til meðferðar.