Samvinnufélög
Mánudaginn 11. mars 1991


     Friðrik Sophusson :
    Virðulegi forseti. Eins og fram kemur á þskj. 827 sem er nál. meiri hl. þá skrifa tveir þingmenn undir nál. með fyrirvara og mér þykir rétt, þar sem ég er annar þeirra, að gera hér í stuttu máli grein fyrir því hvers vegna ég ásamt hv. þm. Matthíasi Bjarnasyni geri fyrirvara vegna stuðnings við það sem kemur fram í nál. Ég tek það líka fram að við eigum aðild að brtt. og í raun og veru skiptir það ekki höfuðmáli en ég tel að það séu jafnvel mistök, og að við hefðum ekki átt að vera aðilar að brtt. þó við værum aðilar að nál. sem slíku, því okkar fyrirvari laut m.a. að þeim brtt. sem þarna koma fram, a.m.k. þeirri seinni, og eins vegna hins, að við höfum ýmsar athugasemdir við frv. að gera þó við viljum ekki leggja stein í götu þess.
    Í raun get ég tekið undir margt af því sem fram kemur í nál. minni hl. nefndarinnar. Ég tel að það hefði verið hyggilegra að leyfa þessu máli að þróast betur og þroskast. Það er ljóst að verði þetta frv. að lögum þá verður ekki sú bylting á högum samvinnuhreyfingarinnar sem ég býst við að ýmsir þeir sem leggja traust sitt á þetta frv. vildu sjá.
    Það er gömul saga að samvinnuhreyfingin hefur átt við verulega erfiðleika að etja við hlið hlutafélaganna, ekki síst vegna þess að erfitt hefur verið fyrir samvinnufélögin að afla eigin fjár, að fá til liðs við sig aðila sem tilbúnir væru að leggja fram áhættufé í þennan rekstur.
Ástæðan er auðvitað augljós. Hún er sú að í hlutafélögum leggja menn fram hlutafé, geta fengið greiddan arð, hafa atkvæðisrétt í hlutfalli við hlutafjáreignina, en í samvinnufélögum er þessu allt öðruvísi farið. Þar fer atkvæðisrétturinn ekki eftir viðskiptum eða þátttöku í samvinnufélaginu, jafnvel þótt upphaflega hugsjónin, hugsjón samvinnuhreyfingarinnar, hafi verið sú að það væri þátttakan sem slík sem ætti að verða grundvöllur áhrifa í kaupfélögunum og samvinnufélögunum.
    Samvinnuhreyfingin hefur að undanförnu reynt ýmsar leiðir til þess að bæta afkomu sína og stöðu og m.a. hafa snemma á þessu ári verið gerðar verulegar breytingar á rekstri Sambands ísl. samvinnufélaga sem nú hefur verið skipt upp í mörg hlutafélög þannig að SÍS á í raun meiri hluta í flestum ef ekki öllum þessum fyrirtækjum, þessum hlutafélögum, en síðan eiga ýmis samvinnufélög aðild að sömu félögunum. Þetta er auðvitað gert vegna þess að með þessum hætti er hægt að afla fyrirtækjunum, hlutafélögunum, nýs áhættufjármagns. Í raun tel ég að stór hluti sambandsmannanna sé sáttur við þessa aðferð og telji að þær breytingar, sem hér er verið að gera á samvinnulögum með þessu nýja lagafrv., séu óþarfar því að hægt sé að nota hlutafélagsformið þegar það á við og menn þurfa að leita eftir nýju fjármagni.
    Það eru ýmsar ástæður fyrir því að telja má að þetta frv. valdi ekki byltingu. Í fyrsta lagi ber að geta þess að það sem á undanförnum árum hefur valdið því að hlutafélögin hafa aflað nýs fjármagns er fyrst

og fremst skattafsláttur sem menn fá með því að kaupa hlutabréf í skráðum hlutafélögum. Hvorki í þessu frv. né heldur í sérstöku frv. sem hefði þá þurft að leggja fram er getið um slíkan skattafslátt þannig að jafnvel þótt þetta frv. verði að lögum á yfirstandandi þingi mun það ekki hafa hina minnstu þýðingu fyrir samvinnuhreyfinguna því að til þess að fá fólk til að leggja fjármagn í svokallaða B - deild, sem getið er um og lýst er í frv., þyrfti til að koma skattafsláttur eða skattfrádráttur með svipuðu sniði og viðgengst í hlutafélögunum.
    Það er ástæða til þess að benda á að með þeirri breytingu sem hér er verið að gera gerist það í fyrsta skipti að lögaðilar geta orðið aðilar að samvinnufélögum. Hér er um að ræða breytingu þegar það er rifjað upp að upphaflega hugmyndin var sú að einstaklingar kæmu sér saman, væru í samvinnufélagi og að rétturinn miðaðist við einstaklinga en ekki annað.
    Ég vil taka það fram, virðulegi forseti, að þrátt fyrir það að ég telji að ekki verði sú réttarbót að þessu frv. sem sumir virðast álíta, þá tel ég ekki ástæðu til að koma í veg fyrir afgreiðslu málsins. Það kann að vera að hægt sé að ætlast til þess í sumum tilvikum að aðilar utan samvinnufélags vilji taka höndum saman við félagið og leggja fjármagn í B - deild stofnsjóðsins af einni ástæðu og hún er sú að í raun og veru séu eignir félagsins rangt bókaðar, virði samvinnufélagsins sé miklum mun meira en segir í bókum samvinnufélagsins og þess vegna geti það verið snjallt hjá þeim sem eru umsýslu - og kaupsýslumenn að gera út á þessar lágt skrifuðu eignir með því að eiga samstarf við samvinnufélögin á þessum grunni. Þeir sem gerast aðilar að B - deildinni hafa ekki atkvæðisrétt og þeirra hlutur er þess vegna rýrari en gengur og gerist í íslenskum hlutafélögum, en þessi háttur hefur þó verið hafður á hjá ýmsum þjóðum og til eru deildir í hlutafélögum erlendis þar sem enginn atkvæðisréttur fylgir hlutafénu. Þetta þarf þó ekki að koma að sök og kemur kannski síður að sök í þessu félagsformi heldur en víða annars staðar vegna þess að áður en þeir sem leggja fram fjármagn í B - deildina missa eign sína, þegar um gjaldþrot er að ræða eða um verulega erfiðleika í rekstri, þá gerist það að til lánardrottna ganga eignir A - deildarinnar eða þeirrar deildar sem samsvarar samvinnufélaginu, stofnsjóði þess í dag.
    Eins og fram kom í máli frsm. meiri hl. nefndarinnar gerir meiri hl., þ.e. aðrir en sjálfstæðismenn, þótt það komi ekki fram á þskj., brtt. sem eru á þskj. 828. Önnur tillagan, sem ég sé enga ástæðu til þess að mæla gegn, er sú að sama regla eigi að gilda um samvinnufélög og hlutafélög, þ.e. að félögin geti í þrjá mánuði átt 10% af hlutum í félaginu og þá er um það að ræða að jafna B - deild stofnsjóðsins við hlutafé í hlutafélögum.
    Síðari tillagan hins vegar er dálítið sérstök því að í henni er gert ráð fyrir því að í bráðabirgðaákvæði með frv. verði sett lagaákvæði þess efnis að viðskrh. skuli eftir setningu laganna skipa nefnd sem hafi það hlutverk að gera tillögur um framtíðarskipan innlánsdeilda samvinnufélaga. Ég tel það mjög óvenjulegt og

ekki til fyrirmyndar að setja ákvæði eins og þetta í lög. Miklu fremur væri ástæða til þess að í nál. kæmi fram sú skoðun nefndarinnar að viðskrh. eða viðskrn. setti á stofn slíka nefnd og hún skilaði áliti fyrir tiltekinn tíma. Í bráðabirgðaákvæðinu er þess getið, eins og frv. lítur út núna, að samvinnufélögum sé ekki heimilt að reka innlánsdeildir eftir 1996. Og það fylgdi annað frv. þessu frv., frv. til breytinga á lögum um sparisjóði, en þær tillögur, sem þar voru, voru til þess gerðar að laga innlánsdeildirnar að lögum um sparisjóði.
    Í nefndarstarfinu kom mjög skýrt fram hjá fulltrúum Seðlabankans að það er nánast óhugsandi að hægt sé að reka til frambúðar innlánsdeildir hjá kaupfélögunum, það stangist gjörsamlega á við meginreglur laga um banka og sparisjóði og það stangist enn fremur á við þær hugmyndir sem menn hafa í Evrópu og gera má ráð fyrir að Íslendingar muni fylgja innan tíðar. Ber þá auðvitað fyrst að nefna það að líta má á innlánsdeildirnar eins og banka þar sem aðeins einn aðili tekur lán hjá bankanum en fjölmargir einstaklingar leggja inn. Samkvæmt íslenskri löggjöf er bannað að einn aðili sé stór skuldunautur banka, hvað þá að einn aðili geti fengið alla fjármunina lánaða. Auk þess vil ég geta þess að það er ekki gerður neinn munur á því fjármagni sem viðskiptaaðilar eiga inni í innlánsdeildum og öðrum eignum kaupfélaganna. Á þetta hefur reynt í dómsmáli, t.d. þegar Kaupfélag Önfirðinga varð gjaldþrota á sínum tíma og það lá einnig við að á þetta reyndi á sínum tíma, líklega fyrir um það bil 20 árum, þegar Kaupfélag Siglfirðinga fór á hausinn, en þá tók Samband ísl. samvinnufélaga á sig skuldbindingar og hægt var að færa innlánsdeildina inn í Sparisjóð Siglufjarðar.
    Virðulegi forseti. Fyrirvarar okkar lúta m.a. að því að við teljum að síðari brtt. eigi ekki heima í lögunum sjálfum. Við erum meðmæltir því að slík nefnd eins og þarna er rætt um verði sett á laggirnar en teljum ekki ástæðu til þess að það verði sett í lagaákvæði, enda fer afar illa á því að nefnd sé skipuð með lögum eins og hér er verið að gera ráð fyrir.
    Ég hef lýst jafnframt því, virðulegi forseti, að ég hef ekki mikla trú á því að þessi nýju samvinnulög valdi mikilli byltingu í starfsemi samvinnufélaganna. Ég tel að samvinnufélögin geti vel notað sér hlutafélagsformið eins og Samband ísl. samvinnufélaga hefur gert að undanförnu, en tel hins vegar enga ástæðu til þess að leggja stein í götu þessa frv. ef einhverjir skyldu finnast sem vilja leggja fram fé í þessar svokölluðu B - deildir kaupfélaganna eða samvinnufélaganna. En ég tel að það muni ekki gerast fyrr en að breyttum skattalögum því að það sem fyrst og fremst hefur ýtt undir þá þróun að almenningur er fús til þess að leggja fjármagn, áhættufjármagn, í fyrirtæki hér á landi eru þau skattfríðindi sem því fylgja og fengust fram með breyttum lögum fyrir tveimur árum. Það væri vissulega ástæða til þess, virðulegi forseti, að fjalla frekar um það mál, ekki síst vegna þess að fyrir Ed. liggur nú frv. sem rýrir kosti þeirra sem leggja fram fjármagn í hlutafélög, en þar sem ég geri

ráð fyrir því að síðar á þessu þingi og fyrir þinglok fái ég tækifæri til þess að ræða það annars vegar við hæstv. fjmrh. og hins vegar við hæstv. viðskrh., þá kýs ég að geyma það þar til viðkomandi frv. berst hingað til Nd.