Stjórnarráð Íslands
Mánudaginn 11. mars 1991


     Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra (Guðmundur Bjarnason) :
    Virðulegi forseti. Út af þessum umræðum og fyrirspurn frá hv. þm. er rétt að það komi fram að unnið hefur verið að þessu máli að undanförnu og málin verið kynnt lauslega fyrir stjórnarflokkum einnig, þ.e. þar hafa verið sýnd drög að frv. Það er nú líklega nokkuð ljóst að það sem eftir lifir af þessu þingi verða ekki gerðar aðrar breytingar heldur en þær sem hér liggja fyrir til umræðu og eru út af fyrir sig mikilvægar þó þær séu ekki nein heildarendurskoðun, langt frá því. Þess vegna er ekki miklu við það að bæta sem fram kom hér frá hv. þm. Jóni Kristjánssyni um það að þetta mál þurfi að fara í gegnum Alþingi óháð öðrum meiri breytingum á lögum um Stjórnarráðið sem væntanlega verður þá nýrrar ríkisstjórnar að fylgja eftir á nýju þingi úr því sem komið er.