Varnir gegn vímuefnum
Mánudaginn 11. mars 1991


     Flm. (Rannveig Guðmundsdóttir) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. á þskj. 668 um auknar varnir gegn vímuefnum. Flm. tillögunnar ásamt undirritaðri eru Árni Gunnarsson, Karl Steinar Guðnason, Eiður Guðnason, Jón Sæmundur Sigurjónsson, Karvel Pálmason og Sighvatur Björgvinsson.
    Einhver mesta óhamingja sem dynur yfir fjölskyldu er þegar einhver úr fjölskyldunni verður vímuefnum að bráð. Það er óhætt að fullyrða að meðal þjóðarinnar er mikill einhugur um það markmið að auka varnir gegn vímuefnum og almennt um að grípa til hvers konar aðgerða til að sporna gegn dreifingu og notkun vímuefna. Þingmenn hafa gefið þessum málum gaum og bera fyrirspurnir og tillögur á fyrri þingum þess merki. Það er hins vegar ljóst að um leiðir að þessu góða markmiði geta verið skiptar skoðanir og jafnvel mikill ágreiningur.
    Á vegum ríkisvaldsins hafa verið skipaðar nefndir til að fjalla um þessi mál. Má þar nefna framkvæmdanefnd til að samhæfa aðgerðir í baráttunni gegn útbreiðslu og notkun ávana - og fíkniefna, sem skilaði ítarlegri skýrslu með tillögum í apríl 1987. Sumum þeirra tillagna hefur verið hrint í framkvæmd, þar á meðal skipan samstarfsnefndar ráðuneyta í ávana - og fíkniefnamálum sem ætlað er að samhæfa aðgerðir hins opinbera í þessum efnum. Áhugamannasamtök hafa verið stofnuð um forvarnastarf og meðferðarúrræði og oft orðið eins konar þjóðarvakning um þau mál. Má í því sambandi nefna foreldrasamtökin Vímulausa æsku, sem hafa átt frumkvæði að samvinnu ýmissa aðila um forvarna - og fræðslumál, Krýsuvíkursamtökin sem fengu mikinn stuðning þjóðarinnar við að byggja upp meðferðarheimili í Krýsuvík og Samtök áhugafólks um áfengisvandamálið, SÁÁ, sem er þekkt langt út fyrir landsteinana. Þó ég geti sérstaklega þessara aðila í tengslum við eins konar þjóðarátak skal í engu hallað á þau fjölmörgu félög og samtök sem vinna að forvörnum eða almennt að æskulýðsstarfi né heldur má rýra þátt sveitarfélaganna því að á vegum þeirra fer víða fram öflugt forvarnastarf.
    Hjá sveitarfélögunum tengjast forvarnir í ávana - og fíkniefnamálum beint og óbeint félagsmálastofnunum, þar með talin starfsemi útideilda. Þær tengjast starfsemi félagsmiðstöðva og öðru unglinga - og fræðslustarfi skólanna. Á vegum Rauða kross Íslands fer fram merkileg starfsemi í sérstakri hjálparstöð fyrir unglinga sem eru í vanda staddir. Í því athvarfi er rúm fyrir allt að tíu ungmenni og þó vandi þeirra sem þangað leita sé af ýmsum toga hefur það komið fram í könnunum að ákveðið hlutfall þessara unglinga hefur neytt fíkniefna.
    Þrátt fyrir þann mikla og góða vilja sem birtist okkur á þessum vettvangi hefur lítt tekist að samhæfa og fylgja eftir því starfi sem oft er ýtt úr vör af áhugasamtökum sem hafa takmarkaða getu til að fylgja því eftir. Sömu sögu er að segja um stefnumörkun hins opinbera og uppbyggingu. Langar mig að

taka Krýsuvík sem dæmi.
    Ríkið og þau sveitarfélög sem á sínum tíma stóðu að landshlutasamtökunum SASIR, sem voru samtök sveitarfélaga í Reykjanesumdæmi og reyndar fleiri, áttu skólahúsnæði í byggingu í Krýsuvík sem lá vægast sagt undir skemmdum. Samtök, sem seinna kenndu sig við Krýsuvík, föluðust eftir húsinu og var það sameiginleg ákvörðun sveitarfélaganna og mentmrn. að láta þeim það eftir. Þessi samtök fengu góðar undirtektir landsmanna í þeirri viðleitni sinni að koma á laggirnar fyrsta meðferðarheimilinu fyrir unga fíkniefnaneytendur. Þegar uppbygging var komin vel á veg kom í ljós að stefnumörkun ríkisvaldsins var á þá lund að meðferð ungra fíkniefnaneytenda skyldi vera á vegum ríkisins og var keypt annað húsnæði til starfseminnar. Þar með var á vissan hátt kippt grundvellinum undan þeirri starfsemi sem fyrirhuguð var í Krýsuvík þó samtökin hafi reyndar tekið nokkra einstaklinga í vistun og meðferð og haldið uppbyggingu áfram.
    Hér verður ekki tekin afstaða til þeirrar ákvörðunar sem tekin var af ríkisins hálfu, heldur harðlega gagnrýnt hvenær hún var tekin. Í þessum efnum sem öðrum verða þeir sem verkin vinna að vita hvar þeir standa og það er rangt að láta fyrst af hendi hús til starfseminnar og segja svo seinna: Ég vil ekki að starfsemin sé þarna. Það er sóun á fjármunum, sóun á almannafé að láta slíka hluti gerast. Þó ég nefni þetta mál sem dæmi um hvað getur gerst þegar framkvæmdin kemur fyrst og stefnumörkunin seinna vegur það þó þyngst hve góður vilji er fyrir því að taka á þessum málum og leita leiða um raunhæfa skipan mála.
    Landlæknisembættið boðaði til nokkurra samráðsfunda veturinn og vorið 1990 um fíkniefnaneyslu unglinga, áhættuhópa og úrbætur. Niðurstaða þess samstarfs var kynnt í skýrslunni Ungir vímuefnaneytendur, hvaðan koma þeir og hvert halda þeir? Vakti hún mikla athygli, ekki síst sú staðreynd að allt að 500 unglingar á aldrinum 13 til 19 ára eru djúpt sokknir í fíkniefnaneyslu og ástandið hefur versnað mjög á síðustu árum. Í skýrslunni er bent á hvað hópurinn telur helst til ráða og er þar lögð áhersla á að efla aðstoð við heimili og fjölskyldur er minna mega sín, að gera skólum betur kleift að sinna þeim nemendum sem eiga erfitt með að fylgjast með í námi, að stórefla rannsóknir á áhrifum uppeldis og skólavistar, að taka upp kennslu í uppeldisfræðum í grunn - og framhaldsskólum. Þá er lagt til að vímuvarnaráð komi í stað áfengisvarnaráðs, að komið verði á sérstökum forvarnasjóði og að Ísland gerist aðili að samningi Sameinuðu þjóðanna gegn ólöglegri verslun með fíkniefni og skynvilluefni. Bent er á þann mikla kostnað sem er samfara vistun á sjúkrastofnunum og að stofnanameðferð geti aldrei komið í stað forvarna.
    Í umræðunni hér í dag um auknar varnir gegn vímuefnum er full ástæða til að taka undir þau sjónarmið sem þarna eru sett fram og sem að hluta til er tekið undir með þessum tillöguflutningi. Sú ályktun sem ég mæli hér fyrir í dag er niðurstaða starfshóps

sem nokkrir flutningsmanna áttu aðild að og áttu þeir m.a. viðræður og fundi með fjölda aðila sem að þessu máli starfa. Höfum við valið að leggja áherslu á fáa afmarkaða þætti og aukna samræmingu.
    Í fyrsta lagi leggjum við til að sami aðili fari með rannsókn fíkniefnamála á öllu landinu og heyri beint undir dómsmrn. Við viljum því að hin svokallaða fíkniefnalögregla fái svipaða stöðu innan löggæslunnar og tollgæslan, að hún fari með rannsókn fíkniefnamála á landinu öllu og hafi sjálfstæðan fjárhag. Fíkniefnasviðið er eitt þriggja sviða innan rannsóknardeildar lögreglunnar í Reykjavík. Samkvæmt reglugerð sem sett var á síðasta ári var ávana - og fíkniefnadeildinni fengið aukið vægi þar sem henni var gert að sinna beiðnum um aðstoð frá embættum utan Reykjavíkur. Við viljum stíga þetta skref til fulls og gera fíkniefnalögregluna ábyrga fyrir þessum málaflokki, bæði hvað varðar aðgerðir og fjármál. Við teljum það alveg nauðsynlegt að sé aðgerð í gangi á vegum fíkniefnalögreglunnar, þá hafi hún bæði sjálfstæði og fjárhagslegt bolmagn til að ljúka þeirri aðgerð telji hún það nauðsynlegt til að afstýra því að vímuefni komist hér á markað. Hún á ekki og má ekki tengjast annarri fjárhagslegri forgangsröðun verkefna á vegum löggæslunnar.
    Því er haldið fram að viðskipti með fíkniefni á heimsmarkaði komi næst á eftir vopnaviðskiptum í fjármagnsveltu og á undan olíuviðskiptum svo að hér er verið að tala um gríðarlega fjármuni. Við Íslendingar erum sem betur fer eftirbátar annarra landa hvað varðar þróun þessara mála. Þó er talið að ársvelta fíkniefnamarkaðarins hér sé 300 -- 400 millj. kr. Fíkniefnaviðskipti hafa að sögn orðið skipulagðari hér hin síðari ár og erfiðari viðureignar fyrir yfirvöld. Meginkraftar fíkniefnadeildar lögreglunnar í Reykjavík hafa farið í að reyna að minnka framboðið með því að ná sem mestu magni úr umferð og sá þáttur orðið út undan að hafa eftirlit með neytendum og stunda öflugt fyrirbyggjandi starf. Forvarnadeild lögreglunnar hefur þó gefið út bækling fyrir foreldra þar sem fjallað er m.a. um orsakir vímuneyslu, hvaða neysla viðgengst, hvernig áhrif efnin gefa og útlit fólks undir áhrifum. Við teljum að aukið sjálfstæði fíkniefnalögreglu, fjárhagslega og verkefnalega, sé mjög þýðingarmikið.
    Í öðru lagi leggjum við til að námsefni um vímuvarnir verði hluti skyldunáms í grunnskólum. Bæði frjáls félagasamtök og opinberir aðilar eru að þrýsta á um að námsefni sé tekið inn í skólana. Fjölmargir aðilar hafa komið í skóla með forvarnaverkefni en hafa nú samræmt sín störf og standa flestir að því verkefni sem kennt er við Lionsquest. Það heitir ,,Að ná tökum á tilverunni`` og er bandarískt að uppruna og hefur Lions - hreyfingin greitt kostnað við að þýða og staðfæra verkefnið sem er gefið út í samstarfi þeirra og menntmrn. Í dag er hverjum skólastjóra í sjálfsvald sett hvort hann nýtir sér námsefnið sem í boði er.
    Það kemur fram í fréttabréfi Vímulausrar æsku frá því í desember að kennarar standa nú betur að vígi en áður hvað undirbúning og þekkingu á vímuvörnum

varðar því námskeið um vímuvarnir eru orðin fastur liður í kennaranámi og síðustu þrjú sumur hafa 268 kennarar sótt sér réttindi til að nota Lionsquest námsefnið. Þar kemur líka fram að þrátt fyrir tiltölulega gott ástand í undirbúningi kennara hafa vímuvarnir víða átt erfitt uppdráttar í grunnskólum landsins. Níu aðilar, félagasamtök og opinberir aðilar, standa nú saman að sérstakri kynningu á vímuvörnum fyrir kennara og fyrir foreldra. Það er verið að byrja í skólum á Reykjanesi og áformað að ljúka yfirferð um landið á tveimur árum. Norðurlöndin munu öll vera að taka þetta verkefni til kennslu í skólum. Svíar eru komnir lengst og í Noregi hefur fræðslugeirinn alveg tekið verkefnið að sér.
    Í þriðja lagi leggjum við til að komið verði á fót forvarnasjóði þar sem tryggt verði samræmi milli þeirra verkefna sem unnið er að. Hér tökum við undir viðhorf margra þeirra sem eru að vinna að forvarnaverkefnum og eru oft á tíðum í kapphlaupi um athygli og peninga. Það er alveg ljóst að margir eru að vinna að sömu eða áþekkum verkefnum án þess að samráð eða samstarf eigi sér stað. Hugmyndin með sérstökum forvarnasjóði er sú að þeir sem vinna að forvarnaverkefnum og sækja eftir fjárstuðningi stjórnvalda sæki beint til slíks sjóðs. Þar er síðan tekin afstaða til gildis verkefna, hvort verkefni eru af sama toga og jafnvel hægt að leggja til samvinnu á ákveðnum sviðum. Það er ekki víst að auka þurfi mikið framlög til varna ef vinnubrögð verða markviss og samræmd. Má á líkingamáli segja að tveir bæklingar séu ekki endilega betri en einn.
    Í fjórða lagi leggjum við til að gerð verði með reglulegum hætti úttekt á fíkniefnavandanum með söfnun gagna og upplýsinga svo að auðveldara sé að gera sér grein fyrir umfangi hans. Þessa úttekt þarf að fela ákveðnum aðila og eðlilegast að Félagsvísindastofnun yrði fengið það verkefni. Má þar nefna að sú framkvæmdanefnd sem skilaði skýrslu árið 1987 lagði þá til að ráðinn yrði sérfræðingur að Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands í tvö ár til að annast rannsóknir í ávana - og fíkniefnamálum og yrði árangur af því starfi metinn að þeim tíma liðnum.
    Í fimmta lagi teljum við að tryggja þurfi samræmi að því er varðar sérfræðilega aðhlynningu og umönnun vímuefnaneytenda. Meðferðarstarf fer bæði fram á vegum ríkisins og frjálsra félagasamtaka. Í núverandi kerfi gætu sjúklingar farið á milli meðferðarstofnana og þess vegna dvalist langdvölum á ári hverju inni á sjúkrastofnunum sem allar eru reknar á fullum daggjöldum. Þessar stofnanir hafa lítð sem ekkert samráð sín á milli, enda eru þær reknar á ákaflega mismunandi vegu. Meðferðarstefnur eru ólíkar. SÁÁ - menn hvetja sitt fólk til að stunda AA - fundi en í Hlaðgerðarkoti er mest lagt upp úr kristilegu starfi. Á meðferðarstofnunum sem ríkisspítalar reka er meðferðarstefnan óljósari, mun meiri áhersla er lögð á viðtöl við sálfræðinga og félagsráðgjafa en afstaða til AA - samtakanna er blendin. Sjúklingurinn lærir því fljótt á meðferðarstofnanirnar og hvaða boðskap hann á að aðhyllast á hverjum stað.

    Það er ekkert sem mælir gegn því að frjáls félagasamtök reki meðferðarheimili fyrir vímuefnaneytendur en ef ríkissjóður borgar alla meðferð hljótum við að gera ákveðnar kröfur. Ekkert eftirlit virðist haft með aðferðum og forsvarsmenn stofnana eru ekki krafðir um árangurstölur eða beðnir að upplýsa fjárveitingavaldið um notagildi aðferða sinna. Hafi einhver stofnun komist inn á daggjöld heldur hún þar áfram að því er virðist eftirlitslaust og greiðir ríkissjóður þó hundruð milljóna til þessara stofnana á ári hverju. Það þyrfti að gera könnun á þeirri meðferðarstefnu eða meðferðarstefnuleysi sem hér virðist ríkjandi og reyna síðan að meta raunverulega þörf landsmanna. Þannig á að vera hægt að samræma meðferðina og þær kröfur sem gerðar eru til einstakra sjúklinga og starfsfólks.
    Virðulegi forseti. Í þessari tillögu er ekki lagt til að Ísland gerist aðili að samningi Sameinuðu þjóðanna, sem áður var vikið að, þar sem dómsmrh. hefur þegar lýst því yfir að það sé ætlun ríkisstjórnarinnar að gerast aðili að samningnum. Það er mjög mikilvægt vegna fjölmargra ákvæða sem tryggja stöðu löggjafans. Má í því efni nefna 5. gr. samningsins sem fjallar um upptöku, m.a. um heimild til að gera upptækan ávinning sem leiddur er af refsiverðum brotum eða eign sem að verðmæti svarar til slíks ávinnings. Hér á landi er ekki til löggjöf um þetta efni en á fyrstu árunum eftir að Bretar settu slíka löggjöf hjá sér gerðu þeir svo mikið fjármagn upptækt að það fjármagnaði að stórum hluta vinnuna við fíkniefnamálin hjá þeim. Þess má geta að víða um lönd hefur slík löggjöf verið sett.
    Virðulegi forseti. Ég hef valið að fjalla ekki um þær tölulegu upplýsingar sem birtar eru í fylgiskjali frv. sem þingmenn hafa á borðum sínum. Þær tölur segja þó sína sögu um bæði málafjölda og haldlögð fíkniefni síðustu fjögur ár. Hvert skref sem tekið er í þá átt að koma í veg fyrir að fíkniefnavandinn vaxi er gæfuspor, en það er vandmeðfarið að koma með tillögur sem raunsætt er að ætla að árangur náist með. Ég trúi að þær tillögur sem hér eru kynntar séu einmitt til þess fallnar og legg að lokum áherslu á að rauði þráðurinn í öllu starfi gegn fíkniefnum verði forvarnir.
    Virðulegi forseti. Ég legg til að að lokinni umræðu verði máli þessu vísað til félmn. --- [Fundarhlé.]