Varnir gegn vímuefnum
Mánudaginn 11. mars 1991


     Guðrún J. Halldórsdóttir :
    Virðulegi forseti. Þáltill. sú um auknar varnir gegn vímuefnum sem Rannveig Guðmundsdóttir, 9. þm. Reykn., mælti fyrir áður en fundi var frestað í dag og er flutt af henni og nokkrum öðrum þingmönnum Alþfl. er hið þarfasta mál. Þannig er málum háttað í dag að við stöndum frammi fyrir geysilegum fíkniefnavanda. Við sem erum á miðjum aldri höfum horft með saklausum, bláum augum á þennan vanda hlaðast upp allt í kringum okkur án þess að hafa í rauninni séð og skilið hvað var að ske. En nú er svo komið að ofbeldi og önnur afbrot, sem rekja má beinlínis til vímuefnaneyslu, eru daglegur viðburður í íslensku samfélagi. Því fagna ég því að þessi þáltill. er komin fram. Hún tekur á fimm þáttum bardagans gegn fíkniefnavánni.
    Í fyrsta lagi fjallar hún um það að koma upp fíkniefnalögreglu sem sé jafngild tollgæslunni og mun ekki af veita. Slík fíkniefnalögregla á að fara með rannsókn fíkniefnamála í öllu landinu og heyra beint undir dómsmrn. eftir því sem í ályktuninni stendur.
    Þannig er málum háttað í dag að skorturinn á fíkniefnahundum, svo að dæmi sé tekið, er geysilegur. Það vantar fíkniefnahunda eiginlega alls staðar þar sem þeir ættu að vera, í Keflavík, Seyðisfirði, Akureyri og Vestmannaeyjum. Á öllum þessum stöðum þyrftu að vera slíkar forláta skepnur til þess að hjálpa okkur í rannsóknum og leit að fíkniefnum. Þetta er aðeins eitt lítið dæmi um það hversu barátta okkar við innflutning fíkniefna er á erfiðu stigi í dag. Það hlýtur auðvitað að vera náið samstarf á milli tollgæslu og fíkniefnalögreglu þó það verði tvær sjálfstæðar starfseiningar.
    Það að ætla að koma kennslu um vímuefnavarnir inn í grunnskólann er auðvitað sjálfsagt mál. Þannig er að kennslustundir í grunnskólunum eru tiltölulega fáar á Íslandi. Til þess að koma þessu efni inn í grunnskólann þyrfti í rauninni að lengja kennsluvikuna, bæði vegna þessa efnis og vegna margs annars efnis sem við viljum koma inn í grunnskólann og sem hv þm. Rannveig Guðmundsdóttir hefur t.d. borið fram. Ég get ekki séð að við getum alltaf bætt á starf grunnskólans án þess að fjölga kennslustundum. Ég álít að það sé líka fyllilega kominn tími til þess jafnhliða því sem við komum á samfelldum skóladegi.
    Forvarnasjóður er auðvitað nauðsynlegur. Við getum ekki vænst þess að mikið verði unnið án þess að fé sé fyrir hendi til þess að greiða þá vinnu og forvarnasjóður hlýtur þar af leiðandi að vera eitt af því sem er nauðsynlegt að koma á fót.
    Í viðtali sem ég las í dagblaði við yfirmann fíkniefnalögreglunnar í Reykjavík, Björn Halldórsson, núna nýverið sá ég að eitt af því sem hann segir að vanti sárlega er yfirlit yfir og úttekt á fíkniefnavandanum. Því tel ég að einmitt þessi þáttur sé mjög nauðsynlegur. Hvort það ætti að vera Félagsvísindastofnun Háskólans eða einhverjir aðrir aðilar sem ynnu það verk veit ég að vísu ekki, en ég álít þetta mjög nauðsynlegt. Að tryggja samræmi að því er varðar sérfræðilega aðhlynningu er líka mjög nauðsynlegt. Það er hárrétt, sem hv. flm. sagði, að hinir ýmsu aðilar, sem stunda það að hjálpa fólki sem hefur komist út á fíkniefnabraut, nota afskaplega mismunandi aðferðir og getur virkað mjög ruglandi á þann sem fær kannski misvísandi upplýsingar og fræðslu um fíkniefnamálin. Því held ég að samræmi og samvinna milli þessara mismunandi aðila sé afskaplega nauðsynleg. Ég ætla ekki að gera upp á milli aðferðanna sem notaðar eru því að ein aðferð getur verið góð í þetta skiptið þó að önnur sé nauðsynleg í annað og allar hafa þær eitthvað til síns ágætis. Ég bæði trúi og veit að svo er.
    Þessi þáltill. er mjög í anda þáltill. sem ég flutti fyrr í vetur ásamt þingmönnum úr öllum flokkum um úrbætur á aðstæðum ungmenna sem flosna upp úr skóla. Þessar tvær þáltill. eiga því mjög vel saman eftir því sem ég best fæ séð. Ég endurtek að ég fagna þessari þáltill. og legg til að þingið sjái sér sóma í því að samþykkja hana áður en því lýkur þótt nú sé
skammt eftir af þingtíma.