Samningar um álver
Mánudaginn 11. mars 1991


     Páll Pétursson (um þingsköp) :
    Frú forseti. Ég kveð mér hljóðs um dagskrá vegna þeirrar óskar sem fram hefur komið um að kalla hæstv. fjmrh. og hæstv. umhvrh. til þessarar umræðu. Ég tel að hæstv. iðnrh., sem ber fram þessa þáltill. sé fullfær að svara fyrir ríkisstjórnina hvað málið varðar. Ég er andvígur þeim vinnubrögðum, sem reyndar hafa tíðkast ekki bara hér heldur hvað eftir annað í umræðum á Alþingi, að kallaðir hafa verið til svo og svo margir ráðherrar til að vera viðstaddir umræðu um mál sem heyra undir aðra ráðherra. Þetta tel ég vera ranga stefnu og fullnægjandi að einn ráðherra sé við umræðuna í hvert skipti eða a.m.k. eigi þingmenn ekki heimtingu á því að aðrir ráðherrar en sá sem málið heyrir undir sitji undir umræðunni.
    Ég vil hins vegar láta það koma fram að ég tel að ráðherrar ættu allir að gegna þingskyldum sínum miklu betur en þeir hafa gert upp á síðkastið því að þeir hafa sannarlega ekki slitið hér stólunum í þingsalnum. Iðulega hefur verið erfitt að koma atkvæðagreiðslum fram vegna þess að ráðherrar hafa ekki verið viðstaddir í salnum. En erindi mitt var sem sagt það að ég er því andvígur að fresta umræðum og ég tel ekki að þingmenn eigi að vera að heimta aðra ráðherra til umræðunnar eða hafi rétt til að krefjast þess að aðrir ráðherrar séu viðstaddir en þeir sem málið heyrir undir.