Samningar um álver
Mánudaginn 11. mars 1991


     Forseti (Guðrún Helgadóttir) :
    Vegna þessara orða hv. 2. þm. Austurl. vill forseti taka eftirfarandi fram: Forseti virðir að sjálfsögðu vilja hv. þm. til að sitja hér vikum saman og ræða þetta umrædda mál, en eftir ótal marga fundi með þingflokksformönnum og forsrh. hefur forseti hingað til haldið að hann yrði þar þá einn þar sem ætlað er að ljúka þingi í þessari viku eftir því sem best er vitað.
    Venjan hefur verið sú að þingflokkar koma sér saman um afgreiðslu mála og forseti vissi ekki fyrr en nú að þetta mál væri ekki allnokkurt samkomulagsmál stjórnarflokkanna. Forseti átti hins vegar von á umræðum af hálfu stjórnarandstöðu og jafnvel hv. 2. þm. Austurl. en hefur hingað til talið hæstv. iðnrh. fullfæran um að ræða þetta mál fyrir hönd allrar ríkisstjórnarinnar. Forseti hélt að hv. 2. þm. Austurl. hefði haft allmörg tækifæri til að ræða við hæstv. fjmrh. og væntanlega hæstv. samgrh. þannig að í stuttu máli tekur forseti ekki mark á þessum athugasemdum.
    Þá vill forseti taka fram að hinn nýkjörni formaður Sjálfstfl. er ekki á dagskrá hér enn þá og forseti vissi ekki fyrr en rétt fyrir nokkrum mínútum að Kvennalistinn hefði eignast nýjan formann. Hann er alla vega heldur ekki á dagskrá hér. Forseti mælist nú til að þingmenn haldi alvöru sinni hér þar sem verið er að efna til kvöldfundar um málefni sem skipta máli, að menn haldi sig hér við þau málefni sem verið er að ræða um. Forseti hefur fallist á það ef þess er óskað að umræðu um þetta mál verði frestað, en enn eru á mælendaskrá um dagskrá hv. 6. þm. Norðurl. e. og tekur hann nú til máls, en síðan hæstv. menntmrh. sem ég geri ráð fyrir að hv. 2. þm. Austurl. hljóti að hafa hitt nýlega.