Samningar um álver
Mánudaginn 11. mars 1991


     Stefán Valgeirsson (um þingsköp) :
    Virðulegi forseti. Það var dálítið sérkennileg ræða sem hv. þm. Páll Pétursson flutti áðan. Það er auðséð að hann er farinn að berjast fyrir álverksmiðjum og það er nýtt fyrir mér að hann skuli vera kominn á þá braut. Það er alveg rétt sem kom fram hjá honum að hæstv. ráðherrar hafa ekki slitið hér stólunum í þinginu, meira sætunum í flugvélunum til og frá landinu. En það er sérkennilegt ef það er skoðun hv. þm. Páls Péturssonar að það sé nóg að hafa iðnrh. þegar verið er að ræða um þetta mál. ( Fjmrh.: Ég er nú mættur.) Þú ert ekki allir ráðherrarnir þótt þú sért stór. Hvar er umhvrh.? ( Forseti: Hann er í Keflavík, hv. þm.) Á hann ekki að vera hér eins og við? ( Forseti: Ekki hefur forseti krafist þess.) Nei, það kann að vera en ég mótmæli því að þessi umræða fari fram öðruvísi en hann sé hér, því þetta skiptir hann meira máli en meira að segja ráðherra þinn, fjmrh. ( Fjmrh.: Og er þá langt til jafnað.) Og er þá langt til jafnað. Auðvitað á forsrh. að vera hér þegar rætt er um þetta mál. Það getur vel verið að hv. þm. Páll Pétursson telji það vera nóg að hann geti verið fyrir þessa ráðherra. Það getur vel verið, en okkur finnst það ekki hinum. Og þó að hæstv. iðnrh. sé hér, þá tek ég nú í þessu máli meira mark á sumum öðrum ráðherrum en honum og mun ég ræða það síðar, virðulegi forseti. Það mun ég gera.