Foreldrafræðsla
Mánudaginn 11. mars 1991


     Flm. (Guðný Guðbjörnsdóttir) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. um foreldrafræðslu sem er á þskj. 734. Flm. með mér eru aðrar þingkonur Kvennalistans Anna Ólafsdóttir Björnsson, Danfríður Skarphéðinsdóttir, Guðrún J. Halldórsdóttir, Kristín Einarsdóttir og Málmfríður Sigurðardóttir. Tillagan er svohljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,    Alþingi ályktar að fela menntmrh. að beita sér fyrir því að tekin verði upp foreldrafræðsla í skólum landsins, í fjölmiðlum og í samvinnu við heilbrrh. á heilsugæslustöðvum. Skipaður verði vinnuhópur sem komi með tillögur um æskilegt inntak, form og umfang foreldrafræðslu á fyrrgreindum stöðum fyrir 1. nóv. 1991.``
    Skipan uppeldismála samkvæmt gildandi lögum er sú að foreldrar eru ábyrgir fyrir uppeldi barna sinna. Ríkinu ber þó að grípa inn í og aðstoða foreldra á tilteknum sviðum, t.d. varðandi grunnmenntun, sbr. ákvæði um skólaskyldu, og ef foreldrar eru ófærir um að sinna ábyrgð sinni eða skyldum, sbr. t.d. ákvæði laga um barnavernd. Í lýðræðisríkjum er þessi skipan mála yfirleitt talin sjálfsögð, enda litið á fjölskylduna sem einn af hornsteinum þjóðfélagsins. Þetta fyrirkomulag byggir á því að foreldrar hafi sjálfir aðstöðu til að sinna þessari ábyrgð eða hafi möguleika á uppeldisaðstoð sem þeir geta haft áhrif á og samræmist þeirra lífsviðhorfum.
    Þessi skipan uppeldismála er nú við það að bresta. Mikil atvinnuþátttaka beggja foreldra og sá langi vinnudagur sem hér tíðkast dregur úr möguleikum foreldra til að hafa áhrif á uppeldi barna sinna. Til að koma í veg fyrir uppeldislega vanrækslu heillar kynslóðar íslenskrar æsku er ekki aðeins nauðsynlegt að stórefla samfélagslega þjónustu á sviði uppeldis - og skólamála heldur þarf einnig að styrkja foreldrana ef núverandi skipan uppeldis á ekki að vera merkingarlaus. Löggjafinn hefur eðlilega gert ráð fyrir að foreldrar hafi áhrif á starf skóla og leikskóla, en því miður virðist samstarf foreldra og uppeldisstofnana eiga hér erfitt uppdráttar. Í stað þess að breyta núverandi skipan mála og gera uppeldis - og skólastofnanir alfarið ábyrgar fyrir uppeldi barna er hér ákveðið lagt til að styrkja foreldra til að takast á við hlutverk sitt, ekki síst barnanna vegna. Það skiptir afar miklu máli að börn fái góða aðhlynningu og örvun í uppeldinu til að þau verði heilsteyptir einstaklingar og þar gegna foreldrar, eða aðrir sem standa barninu næst tilfinningalega, lykilhlutverki. Foreldraábyrgð er því mikilvæg og í lýðræðisþjóðfélagi, sem hefur lögfest jafnrétti kynjanna, þurfa báðir foreldrar að geta sinnt henni sem best. Til að svo geti orðið þarf að styrkja bæði feður og mæður í hlutverki sínu og um leið þau grundvallarmannréttindi foreldra og barna sem hér eru í húfi.
    Þegar Mary Wollstonecraft, sem stundum er kölluð fyrsta kvenfrelsiskonan, háði sína baráttu fyrir auknum lýðréttindum kvenna á ofanverðri 18. öld lagði hún áherslu á það að óhætt væri að veita konum

kosningarrétt og aðgang að menntun og opinberu lífi, þær mundu ekki hætta að hugsa um börnin sín. Hún reyndist vera sannspá, en nú þegar atvinnuþátttaka kvenna er orðin almenn og sömu kröfur eru gerðar til þeirra og karla á vinnumarkaðinum er nauðsynlegt að feður taki að sér sinn skerf til að koma í veg fyrir tvöfalt vinnuálag kvenna. Enn fremur er nauðsynlegt að foreldrar geri auknar kröfur til atvinnulífsins þannig að samhæfing barnauppeldis og atvinnuþátttöku gangi sem allra best.
    Sú leið, sem hér er mælt með, er að taka upp almenna foreldrafræðslu. Markmið hennar væri að gefa foreldrum kost á að fræðast um ýmis atriði er snerta foreldrahlutverkið og mikilvægi þess. Auk ofannefndra ástæðna fyrir fræðslu af þessu tagi má benda á eftirfarandi rök:
    1. Engin fræðsla um foreldrahlutverkið og barnauppeldi er í boði fyrir alla í skólakerfinu eða annars staðar í þjóðfélaginu.
    Ástæður þessa eru margvíslegar. Þær tengjast m.a. skilgreiningu á hugtakinu menntun, því hvernig hefðbundin skólanámsskrá þróaðist á grunni kynskiptra skóla og síðast en ekki síst hlutverkamun kynjanna í uppeldismálum.
    2. Vísindaleg þekking á þroska og uppeldi barna hefur stóraukist á liðnum áratugum án þess að komast til foreldra almennt. Ætla má að það dragi úr öryggi foreldra í samskiptum við sérmenntað fólk á uppeldisstofnunum.
    3. Þó að foreldrar hafi hingað til getað byggt á reynslu fyrri kynslóða eru aðstæður nútímaforeldra og barna, a.m.k. í þéttbýli, mjög breyttar frá því sem foreldrarnir hafa sjálfir þekkt í eigin uppeldi.
    Í því sambandi má benda á eftirfarandi: Mun takmarkaðri tími er til samskipta en áður. Börnin í hverri fjölskyldu eru að meðaltali færri. Foreldrar þurfa að hafa samskipti við æ fleiri aðila sem annast börn þeirra í leik, námi og starfi. Hjónaskilnaðir eru tíðir, nýjar fjölskyldugerðir verða æ algengari, t.d. stjúpfjölskyldur, og mun fleiri foreldrar eru einstæðir nú en bjuggu við slíkar aðstæður sem börn. Fjölmiðlar keppa við athygli foreldra á heimilum. Þá má minna á staðreyndir um einelti, fíkniefnaneyslu, kynferðislegt ofbeldi gagnvart börnum, börn á vergangi og sjálfsvíg hjá ungu fólki sem dæmi um vandamál sem smám saman eru að koma upp á yfirborðið og þörf væri að fræða foreldra um. Einnig má benda á nýlega könnun á trúarlífi Íslendinga sem sýnir áhrifamátt foreldra, einkum mæðra, varðandi trúariðkun barna sinna síðar í lífinu.
    4. Þegar boðið er upp á foreldrafræðslu eða námskeið um samskipti foreldra og barna, bæði hér og í nágrannalöndunum, hefur eftirspurn af hálfu foreldra verið mikil. Því miður hefur þetta mest verið í formi einkanámskeiða sem ekki ná til allra.
    Hér er mælst til að vinnuhópur komi með tillögur um foreldrafræðslu í skólum landsins, á heilsugæslustöðvum og í fjölmiðlum. Lagt er til að í vinnuhópnum verði, auk sérfræðinga á sviði uppeldismála og foreldrafræðslu, fulltrúar frá foreldrum eða samtökum

þeirra, fjölmiðlafræðingur varðandi foreldrafræðslu í fjölmiðlum og fulltrúi frá heilbrrn. varðandi fræðslu og ráðgjöf á heilsugæslustöðvum. Markvissar rannsóknir á áhrifum foreldrafræðslu eru til sem geta gefið vísbendingar um æskilegar aðferðir. Algengara er þó að gildi fræðslunnar er ekki rannsakað þar sem trú aðstandenda á gildi hennar hefur dugað. Æskilegt væri að gera ráð fyrir athugun á notkun og gildi þeirrar foreldrafræðslu sem lögð verður til og haga umfangi hennar í samræmi við það.
    Varðandi skólakerfið ber að fagna skýrslu starfshóps um jafna stöðu kynja í skólum sem menntmrn. gaf út í desember 1990. Þar er skýrt kveðið á um að íslenska skólakerfið eigi að undirbúa bæði stúlkur og drengi undir fjölskyldulíf, m.a. með námi í fjölskyldufræðum í grunn - og framhaldsskólum. Í því felst m.a. umfjöllun um heimilisrekstur, barneignir, uppeldi og samskipti kynjanna sem allt getur tengst foreldrahlutverkinu og jafnri foreldraábyrgð. Ákvæði af þessu tagi er einnig að finna í aðalnámsskrá grunnskóla, á bls. 174, og í fyrirliggjandi frv. til laga um grunnskóla, í 47. gr. Mikilvægt er að settar verði fram nákvæmar tillögur um útfærslu foreldrafræðslu, ekki síst fyrir framhaldsskólann sem nú er öllum opinn. Foreldrafræðslu þyrfti einnig að efla í Háskóla Íslands og sem víðast í sí - og endurmenntun fólks.
    Heilsugæslustöðvar og meðgöngudeildir sjúkrahúsa hafa boðið upp á mismikla fræðslu fyrir verðandi foreldra og foreldra ungbarna. Mælt er með eflingu þess starfs og að bætt verði við uppeldislegri ráðgjöf fyrir þá foreldra og börn upp að 16 ára aldri sem hennar óska.
    Mikilvægt er að nýta sem flesta fjölmiðla við þá fræðslu sem hér er mælt fyrir. Fræðsluþættir í útvarpi og sjónvarpi með þátttöku sérfræðinga og foreldra eru hugsanleg dæmi. Möguleg viðfangsefni eru þroskaeinkenni ákveðinna aldurshópa barna, samskipti foreldra og uppeldisstofnana, samhæfing fjölskyldulífs og starfs, málfarslegt uppeldi á heimilum, trúaruppeldi, afmörkuð uppeldisvandamál og æskilegar uppeldisaðferðir. Slíkir þættir gætu síðan verið til útláns á myndböndum. Einnig mætti nota dagblöð og tímarit í þessum tilgangi.
    Það er von flm. að þessi tillaga styrki foreldra, jafnt mæður sem feður, í sínu ábyrgðarmikla hlutverki til góðs fyrir uppvaxandi kynslóðir Íslendinga því lengi býr að fyrstu gerð.
    Virðulegur forseti. Að lokinni þessari umræðu legg ég til að málinu verði vísað til síðari umræðu og félmn.