Stjórnarráð Íslands
Þriðjudaginn 12. mars 1991


     Sjávarútvegsráðherra (Halldór Ásgrímsson) :
    Hæstv. forseti. Hér er um mál að ræða sem hefur verið í allnokkurn tíma fyrir þinginu og var mjög gott samkomulag um í hv. neðri deild. Það er nú svo á þessum síðustu dögum að það verður að sjálfsögðu að ráðast hvaða mál ná fram að ganga. En venjan hefur verið sú að mál sem er samkomulag um hafa átt hér greiðan framgang alla jafna. Það verður að koma í ljós í störfum hv. nefndar hvernig það lítur út hér í hv. efri deild og síðan verðum við að sjá til hvort mál þetta getur hlotið afgreiðslu. Ég veit að það er lögð mikil áhersla á að þessu máli verði lokið. Hins vegar er ljóst að það mun ekki verða neinn sérstakur héraðsbrestur þótt það bíði eftir nýju þingi. En það er nú alltaf góður siður að ljúka þeim málum sem veruleg vinna hefur verið lögð í og gott samkomulag er um.