Skúli Alexandersson :
    Herra forseti. Ég hugsa að það mál sem verið er að fjalla um hér, þ.e. kaup á björgunarþyrlu fyrir Landhelgisgæsluna, sé eitt af þeim málum sem hefur verið hvað mest rætt um í þjóðfélaginu á undanförnum mánuðum og jafnvel árum. Þörfin á því að byggja upp þyrlubjörgunarsveit sem gæti við flestar aðstæður haft möguleika á því að koma til aðstoðar þegar slys bæri að höndum er mjög brýn.
    Við höfum verið það lánsöm að björgunarþyrlunni sem Landhelgisgæslan á hefur tekist að bjarga við erfiðar aðstæður heilum skipshöfnum úr strandi. Og sem betur fer hefur það ekki komið að sök þó þyrlan hafi verið ein við þessar aðstæður. En þeir sem hafa unnið við björgunina og þeir sem hafa fylgst með björguninni hafa gert sér grein fyrir því að oft hefði getað munað litlu og hve mikil nauðsyn er á að við ættum aðra þyrlu til að grípa inn í ef á þyrfti að halda og til að styrkja aðstöðuna við þær aðstæður sem ég hef nefnt.
    Á hv. Alþingi koma menn í þennan virðulega ræðustól og segja: Við erum alveg sammála því að fjármagna þyrlukaup og við þurfum að kaupa þyrlu og það er skömm fyrir íslensku þjóðina, sem byggir afkomu sína á sjávarútvegi, vitandi um þá slysahættu sem fylgir þeirri atvinnugrein, að vera ekki með aðra þyrlu en þá sem við eigum. Óverjandi fyrir þjóð sem býr við þær aðstæður. Og ýmiss konar önnur orð höfð því tengd.
    Hér á þinginu í vetur hafa verið umræður um það að vinna að þessum þyrlukaupum með því að stofna happdrætti. Meiri hl. allshn. þessarar hv. deildar hefur orðið sammála um það að leggja til að þetta happdrætti, sem áður var talað um að skyldi skiptast á milli margra aðila, skuli verða eingöngu til styrktar kaupum á þyrlu, m.a. vegna þess að við teljum það nauðsynlegt að slík samþykkt sé gerð hér í hv. deild og lög samþykkt um það í báðum deildum, eins og formaður nefndarinnar nefndi, vegna þeirra skilyrða sem eru í fjárlögum í sambandi við heimild fyrir ríkisstjórnina að kaupa þyrlu, að um aðra tekjustofna sé að ræða.
    Nú hafa menn sagt það hér að ekki sé hægt að hugsa til þess að fjármagna þessi kaup með einhverju lotteríi og hafa haft um það ýmis orð, bæði hér í hv. deild og víðar. Það er nú bara svo að við Íslendingar höfum þurft að búa við það að fjármagna ýmsa hluti með lotteríi. Það væru kannski miklu færri með háskólapróf innan dyra Alþingis ef við fjármögnuðum ekki stóran hluta af byggingum Háskóla Íslands með lotteríi og höfum ekkert skammast okkar fyrir.
    Við höfum haldið uppi þjónustu við gamalmenni í landinu með lotteríi. Við höfum ekkert skammast okkar fyrir og talið sjálfsagt. Við höfum gefið þjóðinni tækifæri til þess að stuðla að uppbyggingu þessara þátta og fleiri. Ekki skulum við gleyma SÍBS, berklasjúklingum. Þurfum við eitthvað að skammast okkar fyrir að hafa gert það? Ég held að það sé langt frá því. Og það er bara sjálfsagt við þær aðstæður sem

nú eru að gefa okkur Íslendingum tækifæri til þess að stunda enn lotterí og styrkja með því gott málefni.
    Ef þingmenn eru á því að þetta sé ekki góður kostur þá skulum við leita einhverra annarra ráða. Hér hafa t.d. komið fram tillögur um að taka lán til þessara kaupa, sem ég ætla ekki að leggjast gegn og tel bara sjálfsagt ef möguleiki er á að gera það, þó að við vitum að það þarf alltaf að borga lán. Og hér hefur verið nefnt í deildinni að við eigum að taka þetta úr okkar sameiginlegu sjóðum, ekki gera það með lotteríi. Þegar er talað um að gera það úr sameiginlegum sjóðum, þá er það úr ríkiskassanum og þá þurfum við að afla tekna í ríkiskassann til þess að greiða þetta.
    Ég ætla að leyfa mér að leggja hér fram tillögu um það að við leysum þetta mál að meginhluta til með því að leggja á sérstakan skatt. Þannig getum við staðið að því að fjármagna þyrlukaupin á næstu fjórum árum. Ég legg fram tillögu um að ákvæði til bráðabirgða komi til viðbótar við það frv. sem við erum að fjalla um hér og það ákvæði orðist þannig:
    ,,    Einstaklingar og lögaðilar skulu greiða af almennum eignarskattsstofni, sem greiðist af 1,2% eignarskattur, sbr. 83. og 84. gr. laga um tekjuskatt og eignarskatt, nr. 75/1981, með síðari breytingum, 0,07% í sjóð til kaupa á björgunarþyrlu. Kemur eignarskatturinn til framkvæmda við álagningu gjalda fyrir árin 1991 -- 1994.``
    Ég er að leggja hér til að þeir sem borga eignarskatt greiði 0,07% á næstu fjórum árum til þessara kaupa. Það eru 150 millj. kr. á ári eftir því sem ég hef fengið upplýsingar um í fjmrn.
Með þessu móti fengjum við 600 millj. kr. og ef við erum að tala um að við eigum ekki að vera með lotterí og við eigum ekki að taka lán, þá er þetta eina leiðin. Ég tel að þetta sé besta leiðin sem við getum farið, en við getum verið í lotteríinu líka til þess að lofa þjóðinni að vera með, þeim sem ekki greiða eignarskatt og hinum reyndar líka.